05.11.1974
Sameinað þing: 5. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf., sem var að ljúka hér máli sínu, sagði, að síðustu árin hefðu verið blómaskeið fyrir landsbyggðina. Ég tek undir þetta, en vil minna þennan hv. þm. á það, að hann var reiðubúinn til þess að samþ. vantraust á ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar á s.l. vori. Honum ætti að vera nær að hugsa um sinn eigin flokk heldur en flokka annarra manna.

Efnahagsmálin verða höfuðverkefni þessa þings eins og endranær. Í ræðu, er fyrrv. forsrh., Ólafur Jóhannesson, flutti um s.l. áramót, varaði hann þjóðina við því, að staða hennar í efnahagsmálum færi nú versnandi vegna lakari viðskiptakjara, sem stöfuðu af verðhækkun á innfluttum vörum og verðlækkun á útfluttum vörum íslendinga. Hvatti hann þjóðina til varfærni í kröfugerð á hendur atvinnuvegunum, til þess að atvinnuöryggi og lífsafkomu hennar yrði ekki stefnt í hættu.

Þótt horfur um s.l. áramót væru ekki góðar, hefur þróunin þó orðið mun óhagstæðari á þessu ári en reiknað var með. Nú liggur það fyrir, að viðskiptakjör okkar hafa versnað um 10% á árinu, sem leiðir til þess, að þjóðartekjurnar rýrna um 1/2–1% frá fyrra ári, þó að þjóðarframleiðslan aukist um 3–4%. Ekki hefur það bætt úr skák, að veruleg sölutregða er og hefur verið í ýmsum sjávarafurðum. Það hefur aukið fjárhagserfiðleika atvinnufyrirtækjanna og valdið erfiðleikum í starfsemi lánastofnana ríkisins. Á þessu ári hefur hækkun á innflutningsverði orðið 48–49%, og er þá olíuhækkunin meðtalin. Á sú hækkun verulegan þátt í þeirri aukningu, sem hefur verið hér á landi á þessu ári.

Annar hvati að verðbólgu er sú launahækkun, sem samið var um í kjarasamningunum í febr. s.l., og afleiðingar þeirra. Þeir samningar leiddu ekki til launajöfnunar, eins og launþegasamtökin höfðu lýst yfir að stefnt yrði að með hækkun á launum þeirra lægst launuðu, eins og átti sér stað í samningum ríkisins við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, heldur leiddu þeir til frekari launaójöfnunar í hag hinna tekjuhærri frá því sem áður var. Að auki var svo farið yfir þau takmörk í launahækkunum, sem atvinnulíf þjóðarinnar þoldi.

Gegn þeim vanda í efnahagsmálum þjóðarinnar, sem augljós var eftir gerð kjarasamninganna, brást fyrrv. forsrh. Ólafur Jóhannesson þannig víð, að hann lagði fram í ríkisstj. drög að frv. um aðgerðir um viðnám gegn verðbólgu. Hann lagði sig allan fram um að ná samstöðu bæði innan ríkisstj. og utan hennar á Alþingi til að tryggja framgang þeirra úrræða, sem frv. gerði ráð fyrir. M.a. bauð hann upp á myndun þjóðstjórnar, sem ekki væri bundin við forustu hans, og kosningar í haust að lokinni þjóðhátíð. Svo mikils um vert taldi fyrrv. forsrh. að grípa til skjótra aðgerða gegn þessum efnahagsvanda.

Eins og alþjóð þekkir, náðist ekki slík samstaða og var afleiðing þess þingrof og kosningar 30. júní s.l. Áður en til kosninga var gengið kom fyrrv. ríkisstj. þó á með brbl. nokkrum þeirra efnahagsaðgerða, sem í frv. fólust, til þess að firra þjóðina áföllum, þar til starfhæf ríkisstj. yrði mynduð að loknum kosningum og gæti farið að fást við vandamál þjóðarinnar.

Núv. ríkisstj. hefur tekið upp flest úrræði, sem fyrrv. forsrh., Ólafur Jóhannesson, lagði til. svo sem að fresta greiðslu á vísitölu, láglaunabótum handa þeim, sem verst eru settir, og margt fleira, sem ég hef ekki tíma til að greina hér.

Má því ljóst vera, að efnahagsúrræði fyrrv. forsrh. og flokks hans voru hvort tveggja í senn raunhæf og nauðsynleg. Hefðu þeir, sem hindruðu framgang þeirra á s.l. vori, borið gæfu til þess að sjá fyrr að sér, þá hefði efnahagsvandinn, sem nú er við að fást, ekki verið slíkur sem raun ber vitni um.

Einn þáttur efnahagsmála er að sjálfsögðu ríkisfjármálin. Á undanförnum þremur árum hefur Framsfl. farið með þau í ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar. Á þeim árum var hækkun fjárlaga mjög gagnrýnd hér á hv. Alþingi af þeim, sem voru í andstöðu við þáv. ríkisstj. Í því sambandi má benda á, að á þessum þremur árum vorn gerðar nokkrar breyt. á uppbyggingu fjárlaga, sem miðuðu að því, að þau sýndu sem réttasta mynd af ríkisútgjöldunum. M.a. var á s.l. ári tekin inn á fjárlagafrv. framkvæmdaáætlun ríkisins, en það er sá hluti opinberra framkvæmda, sem fjár er aflað til með lántöku, en ekki með samtímatekjum, eins og venja er til á fjárlögum. En áður hafði framkvæmdaáætlunin verið afgreidd sem sérstakt þingmál án tengsla við fjárlögin. Þessi ákvörðun olli 700 millj. kr. hækkun á fjárlögum yfirstandandi árs. Auk þess tók ríkissjóður að sér að greiða ýmis útgjöld sveitarfélaga, sem réttara var talið að ríkissjóður greiddi fremur en sveitarfélögin. Í því sambandi vil ég nefna framlag þeirra til almannatrygginga og að hálfu leyti framlag sveitarfélaga til sjúkrasamlaga. Auk þess tók ríkissjóður að sér að greiða að fullu kostnað við löggæslu í landinu, sem sveitarfélögin greiddu að nokkru leyti áður. Með þessum hætti var létt af sveitarfélögunum verulegum útgjöldum, en fjárhagsstaða þeirra var orðin mjög erfið, þegar vinstri stjórnin tók við, svo að þau voru farin að leita á náðir Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til þess að bjarga fjárhagsmálum sínum, sum þeirra. En að sjálfsögðu hafði þetta í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.

Auk þeirra atriða, sem ég hef talið, er orkuðu til hækkunar á fjárlögum fyrri ára, voru á þessum árum samþ. lagabreytingar, sem fólu í sér mikil útgjöld fyrir ríkissjóð. Má nefna bæði lög, sem viðreisnarstjórnin hafði á sínum tíma samþ., en ekki komið til framkvæmda fyrr en eftir að valdatíma hennar lauk, og ný lög eins og heilbrigðislöggjöfin, hafnalögin, lög um dagvistunarheimili, dvalarheimili aldraðra, breyt. á lögum um almannatryggingar, lög um framlög til stofnlánasjóða atvinnuveganna o.fl. mætti telja. Áhrif þessara lagabreyt. og annarra þeirra breyt. á fjárlögum, sem hér hefur verið rætt um, voru komin til fullra framkvæmda á fjárlögum yfirstandandi árs. Auk þess hafði verðbólgan mikil áhrif á hækkun fjárlaga á þessu tímabili eins og nú. Enn fremur voru framlög til verklegra framkvæmda stóraukin á þessum árum sem þáttur í byggðastefnu þeirri, sem fyrrv. ríkisstj. beitti sér fyrir og skipti sköpum um afkomu lands.byggðarinnar yfirleitt.

Hækkun fjárlaga milli ára var mest 1973– 1974 eða um 30% á fjárlagafrv. frá gildandi fjárlögum. Þetta stafaði m.a. af því, að framkvæmdaáætlunin var þá tekin inn á fjárlögin, eins og áður hefur verið fram tekið. Brýna nauðsyn bar til þess að halda uppi þeirri framkvæmdastefnu, sem gert var á síðustu árum, vegna þess að ríkisframkvæmdir höfðu áður verið í lágmarki.

Á s.l. vetri var tekjuskattur lækkaður svo að hann er nú lægri en hann hefur áður verið. Persónuskattar höfðu áður verið felldir niður að fullu, en það var framlag einstaklinga til almannatrygginga og sjúkrasamlaga, og mundi sú fjárhæð, sem hjón yrðu að greiða nú, vera komin yfir 40 þús. kr., ef það kerfi gilti, alveg án tillits til tekna. Einnig voru tolltekjur lækkaðar vegna viðskiptasamninga við EFTA og Efnahagsbandalagið og til að bæta stöðu iðnaðarins í samkeppni við innfluttar vörur.

Á þessum árum var búið að vinna mikið að því að undirbúa gerð heildarlöggjafar um tekjuöflun ríkissjóðs og liggur það verk nú fyrir til úrvinnslu.

Vegna tekjuskattslækkunar ríkissjóðs og í sambandi við tolltekjumissinn og skattkerfisbreytinguna á s.l. vetri var þörf á því að hækka söluskattinn um 2%-stig til þess að tryggja afkomu ríkissjóðs. Samið hafði verið við launþegasamtökin um að hækka söluskattinn um 5 stig á móti tekjuskattslækkuninni. En á Alþ. náði það ekki fram að ganga og samþ. Alþ. aðeins 4 stiga hækkun. Nú hefur það hins vegar gerst, að Alþ. hefur samþ. 2 stiga hækkun á söluskatti og viðurkennt þannig í raun það sem fyrrv. ríkisstj. hélt fram um tekjuþörf ríkissjóðs.

Ég skal ekki gera að umtalsefni hugsanlega útkomu á rekstri ríkissjóðs á þessu ári, en vil hins vegar benda á, að í grg. þeirri, sem sérfræðingar þeir, sem Geir Hallgrímsson, núv. hæstv. forsrh., valdi til þess að gera úttekt á stöðu þjóðarbúsins, þegar hann tók að sér stjórnarmyndun á s.l. sumri, kom fram, að tekjur og gjöld ríkissjóðs mundu standast miðað við það, að hætt yrði víð niðurgreiðslur þær á vöruverði, sem upp voru teknar í maímánuði s.l., og þær látnar standa aðeins til 1. sept. eins og upphaflega var hugsað. Hins vegar hefur núv. ríkisstj. ákveðið útgjöld á þessu ári, sem nema mun hærri fjárhæðum en tekjur af söluskattshækkuninni.

Enda þótt tekjur ríkissjóðs í ár reynist mun hærri en reiknað var með, þegar barist var fyrir auknum tekjum af fyrrv. ríkisstj. á s.l. vetri, stafar það m.a. af því, að óeðlilegur og óæskilegur innflutningur hefur átt sér stað og of mikil sala í landinu yfirleitt á þessu ári. Það sannar því, að tekjuþörfin var rétt metin og raunhæf, og ég gleðst yfir því vegna þess þáttar, sem ég átti í því að ganga frá tekjuöfluninni í sambandi við stjórnarsamningana á s.l. hausti, að tekjukerfi ríkissjóðs er nú talið það gott, að það þoli að bera uppi þá hækkun fjárlaga, sem gert er ráð fyrir á næsta ári.

Fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir Alþ., sýnir hækkun frá gildandi fjárlögum um 52%, sem er meiri hækkun en dæmi eru til áður um frá fjárlögum til fjárlagafrv. En ef miðað er við fjárlagafrv., sem lagt var fram fyrir árið 1974, er hækkunin 65%. Þetta fjárlagafrv. sannar betur en nokkuð annað, sem ég hef haldið fram, að til þess að lækka fjárlög þarf að breyta lögum, sem ákveða útgjöld ríkisins, því að mikill hluti fjárlaga er bundinn af lögum, sem Alþ. hefur samþ. Að sjálfsögðu er þó um nokkra ákvörðunartöku að ræða í sambandi við fjárlagagerðina, eins og ég hef áður bent á. Breytingar á lögum, sem hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs, geta bæði verið til lækkunar og hækkunar.

Í eldhúsumr. á s.l. vori benti ég á það, að nauðsyn bæri til að endurskoða tryggingalöggjöfina, draga þar úr útgjöldum, enda er þar einn stærsti útgjaldaliður fjárlaganna. Það er hægt að breyta tryggingalöggjöfinni, en halda þó þeim megintilgangi hennar að bæta hag þeirra, sem verr eru settir, þó að verulega væri dregið úr útgjöldum frá því sem nú er. Þetta fjárlagafrv. sannar og að sparnaðar var gætt í ríkisrekstrinum á fyrri árum, því að hlutur framkvæmda fjárins lækkaði nú hlutfallslega frá því sem áður var. Það tilheyrir ekki sparnaði nema að takmörkuðu leyti, því að þar er aðeins um frestun útgjalda að ræða.

Útgjöld þessa fjárlagafrv. eiga að sjálfsögðu eftir að hækka í meðförum Alþingis eins og venja er til. Í því sambandi vil ég nefna útgjöld vegna vega- og flugvallaframkvæmda og landshafna. Ég hef ekki heldur trú á öðru en að framlög til skólabygginga eigi eftir að hækka í meðförum Alþingis á fjárlagafrv. og ýmsir þættir í nýju grunnskólalögunum eigi eftir að taka þar nokkra fjárhæð til sín.

Fjárhæð samkv. fjárlagafrv. til vegagerðar nægir á engan hátt, enda er hér aðeins um bráðabirgðaáætlun að ræða. Unnið er nú að framkvæmd áætlunar í vegagerð fyrir næsta ár og næstu ár, sem lögð verður hér fram siðar. Fjárhæðir voru á núgildandi fjárlögum hækkaðar verulega til hafna- og flugvallagerðar, og efast ég ekki um, að bæta þurfi þar nokkuð um, sérstaklega til flugvallagerða. Eins er fjárveiting til landshafna, annarra en Þorlákshafnar, að öllu leyti óafgreidd í sambandi við fjárlagafrv. Ég legg áherslu á, að góðar samgöngur ern forsenda þess að koma á þeirri byggðastefnu, sem Framsfl. hefur beitt sér fyrir og er einn af höfuðþáttum í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. Einn þáttur í uppbyggingu vegakerfisins er að leggja varanlegt slitlag á þá vegakafla, sem eru undir það búnir, og ber að leggja sérstaka áherslu á veginn milli höfuðborgarinnar annars vegar og Akureyrar hins vegar um vestanvert landið, enda eru margír hlutar þess vegar með elstu vegaköflum landsins og eru fyrir löngu hættir að þola þá umferð, sem um þá fer. Til þess að útvega fé til þessara framkvæmda verður m.a. reynt að gefa út happdrættisskuldabréf, eins og gert var við Skeiðarársands- og Djúpvegsframkvæmdirnar, og ég treysti því, að sú tekjuöflun muni gefa góða raun. Nauðsynlegar endurbætur ern á fleiri vegaköflum landsins, en þeir verða ekki sérstaklega nefndir hér. Um uppbyggingu í flugvallagerð víl ég m.a. nefna annan millilandaflugvöll, sem ætlað er að byggja á Austurlandi.

Afkoma landbúnaðarins verður góð á þessu ári, eins og verið hefur tvö s.l. ár. Þessarar ríkisstj. bíða samt mikil verkefni á sviði landbúnaðarmála, t.d. efling jarðalaga og ábúðarlaga, en þau lög eiga að tryggja, að bændur og bænda efni hafi forgang að jarðnæði til búskapar, svo og endurskoðun framleiðsluráðslaga. Stærsta verkefnið tel ég þó vera eflingu veðdeildar Búnaðarbankans og Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Nauðsyn ber til, að veðdeild Búnaðarbankans geti greitt fyrir eigendaskipti á jörðum, þar sem lánin hæfi nútímaverði. Sama er að segja um verkefni stofulánadeildarinnar. Þau verða að miðast við eðlilega uppbyggingu í landbúnaði, einnig á vinnslustöðvum landbúnaðarins, bæði til húsbyggingar þeirra og til kaupa á tækjabúnaði og vélum til þessara vinnslustöðva. Lánahlutfall og útlánareglur þarf að samræma við það, sem gerist hjá sjávarútvegi.

Framsfl. stofnaði til alþingiskosninganna í júní s.l. til þess að samstæður meiri hl. gæti myndast á Alþ. til að leysa þann efnahagsvanda, sem þjóðin á við að búa, þar sem ekki tókst um það samstaða án kosninga. Fyrir kosningarnar lýsti Framsfl. því yfir, að hann væri því fylgjandi, að áframhaldandi samstarf yrði með þeim flokkum, sem hann þá var með, ef þeir næðu þeim þingmeirihl., sem með þyrfti, og samstaða næðist þeirra í milli um lausn efnahagsvandamálanna, útfærsla yrði frekar á vinstri væng stjórnmálanna, ef samstaða næðist um það. Hins vegar var það fjarri honum að útiloka samstarf við nokkurn flokk í landinu. Hann taldi það sitt höfuðverkefni með kosningunum að ná þingmeirihl., sem standa vildi að aðgerðum í efnahagsmálum, sem þjóðinni mættu að gagni koma. Í samræmi við þetta stóð Framsfl. að tilraun til stjórnarmyndunar með þeim flokkum, sem telja sig vinstra megin í stjórnmálum. Hún strandaði á óbrúanlegri andstöðu Alþb. og Alþfl. hvors til annars. Um það verður ekki deilt með rökum, því að um það vitna þeirra eigin blöð, þ.e. skrif þeirra meðan á stjórnarsamningaviðræðunum stóð og eftir að upp úr þeim slitnaði.

Stjórnarsamvinna Framsfl. og Sjálfstfl. byggist á því, að þessir flokkar komu sér saman um að freista þess að leysa efnahagsmálin og halda áfram byggðastefnunni í landinu, sem Framsfl. gerði einnig að skilyrði fyrir þátttöku sinni í ríkisstj. Aðgerðir þær, sem gerðar hafa verið af hálfu núv. ríkisstj. í efnahagsmálum, eru miðaðar við þessi takmörk, og starfsemi ríkisstj. á þannig að byggjast á því að reyna að hafa hemil á efnahagsmálum þjóðarinnar og að full atvinna haldist í landinu með því að treysta stöðu atvinnuveganna. Stöðu þjóðarinnar út á víð verður að bæta frá því, sem nú er. Það verður að gera með stórátaki í sölu framleiðsluvara okkar. Þjóðin verður einnig að gæta hófs í innflutningsverslun sinni, svo að gjaldeyrisstaðan verði traust.

Herra forseti. Í ræðu minni hér að framan hef ég gert grein fyrir því, að verri viðskiptakjör og sölutregða á íslenskum framleiðsluvörum ásamt of mikilli kröfugerð veldur fyrst og fremst erfiðleikum í efnahagskerfinu nú. Af hálfu Framsfl. hefur hvorki skort aðvaranir né tillögugerð til lausnar efnahagsvandanum. Hans er ekki sökin, þótt aðgerðir væru ekki gerðar í fyrravetur, svo sem farsælast hefði reynst. Framsfl. telur, að kjósendur hans geri þær kröfur til þm. sinna, að þeir láti hagsmuni og heill þjóðarinnar sitja í fyrirrúmi og séu ábyrgir í afstöðu sinni til málefna. Þess vegna halda þeir áfram þeirri vinnu, sem hafin var í tíð fyrrv. ríkisstj. undir forustu þáv. forsrh., Ólafs Jóhannessonar, með fulltingi alls þingliðs Framsfl., að vinna bug á þeim efnahagsvanda, sem nú er við að fást. Það er langt frá því, að verulegur árangur hafi náðst í því verki enn þá, enda ekki von.

Þjóðin hefur notið þess framfaraskeiðs, sem var á síðustu árum. Það verður þá einnig að vera hlutskipti hennar nú að axla byrðarnar með réttlátum hætti til að tryggja það, sem mestu máli skiptir, þ.e. atvinnuöryggi og efnahagslíf þjóðarinnar sjálfrar. Enda er hún betur undir það búin nú en áður vegna útfærslu landhelginnar og þeirra nýju atvinnutækja, sem hún hefur aflað sér á síðustu árum. Þjóðina á því hvorki að skorta þrek né úrræði til að ganga með sigur af hólmi í þeirri viðureign. — Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.