05.11.1974
Sameinað þing: 5. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þegar stjórnarsamningur Sjálfstfl. og Framsfl. var birtur eftir stjórnarmyndun þessara flokka í sumar, þótti mörgum, að stefnumörkun væri harla lítil og óljós, enda kom brátt í ljós, að flokkarnir höfðu aðeins að litlu leyti samið um framkvæmdir í einstökum mikilvægum þjóðmálum, en fyrst og fremst samið um skiptingu ráðherraembætta og umskiptingu nokkurra annarra valdastarfa í stjórnkerfinu.

Nú hefur hæstv. forsrh. flutt fyrstu stefnuræðu ríkisstj. og nýtt fjárlagafrv. hefur verið lagt fram, auk þess hefur stjórnin sett nokkur brbl. um efnahagsmál. Stefna ríkisstj. er því að skýrast. Nú er vel hægt að átta sig á stefnu hennar, þeirri stefnu, sem birtist nú í framkvæmd.

Í stefnuræðu þeirri, sem hæstv. forsrh. dreifði hér meðal alþm. fyrir viku, vikur hann að því, að í sambandi við stjórnarmyndunartilraunir flokkanna, sem fram fór á s.l. sumri, hafi verið gerð heildarathugun á stöðu efnahagsmála þjóðarinnar. Þar segir forsrh., að þessi athugun hafi leitt í ljós, að halli mundi verða á viðskiptunum við útlönd, nokkur gjaldeyrisrýrnun, og mikill taprekstur báta og togara og stórfelldur taprekstur frystihúsa. Þessi lýsing forsrh. á niðurstöðum athugunarinnar er vægast sagt mjög villandi. Hér er aðeins hálfur sannleikurinn sagður. Niðurstöður þessarar athugunar leiddu í ljós, að hagur ríkissjóðs var talinn góður, þ.e.a.s. talið, að tekjur ríkissjóðs umfram fjárlög yrðu jafnmiklar og sennileg útgjöld umfram fjárlög. Talið var líklegt, að gjaldeyrisstaðan versnaði um 2000 millj. kr. á árinu 1974, og hafði engum komið annað til hugar en gjaldeyrisstaðan rýrnaði nokkuð á árinu vegna gífurlega mikils innflutnings á skipum og öðrum varanlegum verðmætum og einnig reyndar líka vegna mjög óvenjulegs innflutnings almennt á varningi.

Staða atvinnuveganna var talin mjög góð á árinu 1973 og fram á mitt ár 1974. En samkv. heildarathuguninni var áætlað, að taprekstur yrði á öllum veiðiflotanum á n.k. 12 mánuðum fram í tímann, sem áætlunin náði yfir, sem næmi 1344 millj. kr., þegar færðar höfðu verið afskriftir af veiðiflotanum sem nam 1369 millj. kr. eða m.ö.o. tap fiskiflotans var sem nam uppfærðum afskriftum. Og enn ber þess að gæta, að í efnahagsskýrslunni stendur, að reiknaðar afskriftir af fiskiskipaflotanum séu um 650 millj. kr. hærri en kunnugt sé um, að afborganir af flotanum séu. Í efnahagsskýrslunni er einnig talið, að taprekstur frystihúsa geti orðið um 1400 millj. kr. á ári, þegar afskriftir hafi verið reiknaðar 400 millj. kr. En í skýrslunni er líka sagt, að gróði muni verða á saltfisks- og skreiðarverkun sem nemi 1500 millj. kr. auk fullra afskrifta. Þessir útreikningar sýna því, að meiri hagnaður átti að verða samkv. þessum áætlunum á saltfisks- og skreiðarverkun en tapið á frystingu. Í skýrslunni er þess einnig getið, að afskriftir séu reiknaðar 490 millj. kr. hærri af öllum fiskverkunarstöðvum í landinn en kunnugt sé um að afborganir af þeim séu. Hér er því einnig að verulegu leyti um bókhaldslegt tap að ræða.

Hið sanna um stöðu atvinnuveganna á miðju ári 1974 var þetta: Árið 1973 hafði verið íslenskum atvinnurekstri mjög hagstætt og sjávarútveginum hagstæðara en nokkurt annað ár. Afkoma atvinnuveganna var yfirleitt góð fram á mitt ár 1974. Þó hafði vetrarvertíð orðið léleg á vissum svæðum, sem leiddi af sér fjárhagserfiðleika, einkum fiskibáta. Rannsókn á hag fiskiðnaðarins bendir til, að afkoma hafi verið góð fram á mitt ár og mjög góð saltfisksverkun. Staða iðnaðar fór batnandi fram á mitt ár 1974. Þetta eru allt niðurstöður, sem koma fram í skýrslu Þjóðhagsstofnunarinnar. Efnahagsvandinn, sem við var að glíma á miðju ári 1974, var fyrst og fremst sá, að koma þurfti í veg fyrir áframhaldandi hækkun verðlags og kaupgjalds, þar sem ella hefði orðið um augljósan taprekstur að ræða í ýmsum atvinnugreinum. Jafnframt þurfti að draga úr óhóflegum og óeðlilegum innflutningi og gjaldeyriseyðslu. Þetta er kjarni málsins.

Í ræðu sinni hér í kvöld sagði hæstv. forsrh., að stefna stjórnarinnar í efnahagsmálum væri við það miðuð, að kaupmáttur launa yrði svipaður og hann var á árunum 1972 og 1973. Þetta þýðir, að ætlunin er að afnema með öllu kauphækkanir samkv. síðustu kjarasamningum og hluta af kauphækkuninni frá desembersamningunum 1971, en þær kauphækkanir voru að koma fram á árunum 1972 og 1973. Jafnhliða því, að kaupgjaldsvísitalan er bundin föst, boðar svo ríkisstj. afnám verðlagseftirlits og frjálsa verðmyndun. Það fer ekki á milli mála, að hér er á ferðinni ómenguð íhaldsstefna. Kaupið þarf að lækka og vísitalan bindast föst, en hins vegar þarf verðlag að hækka og verðlagning að gefast frjáls. Frelsið á að vera fyrir kaupmenn og milliliði, en það má ekki ná til verkafólks, sjómanna eða bænda. Þeirra kjör verður að binda með lögum.

Í brbl. ríkisstj. frá því í sept. var ákveðið að breyta hlutaskiptakjörum sjómanna. Með lögum var ákveðið að hækka verulega greiðslur í stofnfjársjóð, olíusjóð og vátryggingasjóð fiskiskipa af óskiptum afla. Þannig eru sjómenn skyldaðir með lögum til þess að standa undir í enn ríkara mæli en áður ýmsum beinum rekstrarútgjöldum útgerðarinnar, og auk þess var svo ákveðið í þessum lögum, að fiskverð til sjómanna mætti ekki hækka nema um 10–11%. Með þessum lagareglum er gengið freklega á launakjör sjómanna, og er satt að segja ótrúlegt, að þessar fráleitu reglur fái staðist í reynd. Forsrh, gefur þá skýringu á þessum ákvæðum, að þörf hafi verið á að tryggja samræmi í tekjuþróun stétta á milli, þ.e.a.s. ríkisstj. telur, að hætta hafi verið á, að sjómenn fengju of hátt kaup miðað við aðrar vinnandi stéttir. Þó liggur fyrir, að fiskverð hefur ekki hækkað síðan um áramót. En hins vegar hefur afli rýrnað um 13% og t.d. á Reykjanessvæðinu um 36%. Ljóst er því, að kaup sjómanna á beinlínis að minnka í krónum frá því sem ákveðið var um síðustu áramót.

Í nýja fjárlagafrv., sem nú hefur verið lagt fram, kemur enn betur fram, hver á að verða raunveruleg stefna stjórnarinnar í efnahagsmálum. Útgjöld ríkisins á rekstrarreikningi eiga að hækka um 52.2% á árinu 1975 miðað við fjárlög yfirstandandi árs. Það hefur sem sagt orðið heldur lítið úr öllu skrafi þeirra sjálfstæðismanna um lækkun ríkisútgjalda, þegar lítið er á heildarútgjaldaaukninguna. En þeir sjálfstæðismenn hafa þó komið fram athyglisverðri breytingu í sambandi við ríkisútgjöldin. Samkv. hinu nýja fjárlagafrv. fjmrh. Sjálfstfl. er nú gert ráð fyrir, að bein rekstrarútgjöld ríkisins, þ.e.a.s. rekstrarkostnaður, hækki á milli ára um 86.2%, en hins vegar hækki framlög til verklegra framkvæmda ekki um nema 29.6% eða lækki að magni til um 10–15%, eftir því sem greint er frá í frv. sjálfu. Í ljós kemur, að framlög ríkisins til iðnskólabygginga eiga t.d. ekki að hækka um eina kr., þó að framkvæmdakostnaður hafi hækkað um 50–55%, og framlög til flugvallagerðar úti á landi eiga að hækka aðeins um 7% frá síðustu fjárl. eða eiga að minnka í reynd um 40–45%. Framlög ríkisins til grunnskólabygginga eiga að hækka aðeins um 20% og framlag til hafnaframkvæmda sveitarfélaga sömuleiðis aðeins um 20%. Hér er um beina lækkun á framlögum til framkvæmda úti á landi að ræða, eins og allir sjá.

Af þessu er ljóst, að stefna ríkisstj. í efnahagsmálum einkennist fyrst og fremst af því að lækka laun vinnandi fólks og draga úr félagslegum framkvæmdum, en færa fjármuni yfir til atvinnurekenda og milliliða. Stefnan er sú að lækka kaup með lögum, binda fasta kaupgjaldsvísitölu og banna sanngjarna fiskverðshækkun, en heimila verðlagshækkanir og afnema hömlur á álagningu kaupmanna og draga síðan jafnt og þétt úr nauðsynlegum framkvæmdum úti um land. Það fer heldur vel á því, að framsóknarmenn tali svo um aukna byggðastefnu, um leið og þeir leggja fram þessa stefnu sem sina stefnu.

Í landhelgismálinu hefur ríkisstj. lofað 200 mílna útfærslu á næsta ári. Enginn, sem fylgst hefur með framkomu forustumanna Sjálfstfl. í landhelgismálinu undanfarin ár, getur treyst á þetta loforð. Hver man ekki undanlátssemi og andstöðu forustumanna Sjálfstfl., þegar um raunhæfar aðgerðir í málinu var að ræða? Hver man ekki, að Sjálfstfl. felldi á Alþ. með tilstyrk Alþfl. útfærslu landhelginnar í 50 mílur á árinu 1971? Muna menn ekki viðbrögð núv. forsrh., þegar taka átti hörðum tökum á breskum landhelgisbrjóti í landhelgisdeilunni? Og muna menn ekki um ferðalög hans til NATO í Brüssel, hörðustu andstæðinga okkar í deilunni? Og skyldu menn hafa gleymt skrifum Morgunblaðsins og Vísis um að útfærslan í 50 mílur hafi mistekist og að engu gagni komið og best væri að hverfa frá þeirri aðgerð, en snúa sér að 200 mílunum á alþjóðavettvangi? Nei, þessi viðbrögð forustumanna Sjálfstfl. muna menn öll vel. Og hvað er nú að gerast í landhelgismálinu þessa dagana? Fyrir nokkru var upplýst, að bretar hefðu þegar veitt það magn af fiski hér við land, sem þeim var heimilað með sérstökum samningum, 130 þús. tonn. Þrátt fyrir það ákvað ríkisstj. að gera ekkert í málinu og lét hún veiðar breta halda áfram eins og ekkert hefði gerst. Ríkisstj. hafði hins vegar meiri áhuga á að semja við vesturþjóðverja um veiðar þeirra innan 50 mílna landhelginnar. Blöð ríkisstj. með góðum stuðningi útvarps og sjónvarps hófu því magnaðan áróður fyrir nauðsyn þess, að íslendingar semdu við þjóðverja um landhelgisveiðar. Jafnframt sendi svo ríkisstj. fulltrúa sína til Þýskalands til samningagerðar. Nú liggja samningadrög þessi fyrir á borðum ráðh., en í þeim er gert ráð fyrir, að vestur-þjóðverjum verði heimilaðar veiðar innan 50 mílnanna fyrir 48 venjulega togara og auk þess fyrir 17 frysti- og verksmiðjuskip. Í tíð vinstri stjórnarinnar var svipuðum till. þjóðverja algerlega hafnað.

Það fer ekki á milli mála, að það eru ráðh. Sjálfstfl., sem harðast berjast fyrir samþykkt þessa samnings. Svo ákafur var t.d. hæstv. félmrh., Gunnar Thoroddsen, í að koma samningum á, að hann tilkynnti um samninginn í útvarpi, áður en ríkisstj. hafði formlega samþykkt hann og auðvitað áður en samningurinn hafði verið ræddur í flokkunum og á Alþ. Þessi ráðgerði samningur við þjóðverja er algert hneyksli. Nú átti að sjálfsögðu að neita öllum frekari veiðiheimildum til handa útlendingum innan 50 mílnanna. Það er svo sláandi dæmi um vinnubrögð forustumanna Sjálfstfl., — ég undirstrika: forustumanna Sjálfstæðisfl., því að þetta á ekki við alla sjálfstæðismenn, — um vinnubrögð þeirra í landhelgismálinu að boða í síðustu kosningum útfærslu í 200 mílur þegar á þessu ári, þ.e.a.s. nú fyrir áramótin, en hefja síðan strax og valdaaðstaða gefst til öflugan áróður fyrir samningum um meiri veiði útlendinga innan 50 mílnanna, en látast auðvitað áfram berjast fyrir 200 mílunum. Nú er líka að koma annað hljóð í íhaldsstrokkinn varðandi 200 mílurnar. Nú er ekki lengur talað um, að 200 mílurnar séu eins og gefinn hlutur. Nú segir forsrh., að líkur séu fyrir að a.m.k. 2/3 hlutar ríkja muni samþykkja slíka lögsögu, með einhverjum fyrirvörum þó. Nú segir hann, að ýmis ríki sæki fast á að fá umþóttunartíma og að viðurkenndur verði hinn svonefndi sögulegi réttur. Og nú talar forsrh. um gerðardóm og fleira af því tagi. Allar eru þessar kröfur á lofti og hafa verið það lengi, þó að forustumenn Sjálfstfl. hafi aldrei fyrr viljað á þær minnast.

Nú eru norðmenn að færa fiskveiðimörk sín út í 50 mílur fyrir Norður-Noregi. m.a. vegna þess að þeir óttast, að svo kunni að fara, að 200 mílna reglan verði með svo miklum undanþágum, þegar hún kemur, að útfærslan gagni Noregi litið fyrstu árin. En þeir álíta, að þeir, sem þegar hafa fært út landhelgismörk sín, eins og t.d. Suður-Ameríkuríkin og Ísland, muni alltaf halda því, sem orðið er. Auknar undanþágur nú fyrir vesturþjóðverja eru því stórhættulegar og spilla framtíðarstöðu okkar, auk þess sem þær gera veikt ástand fiskstofnanna við landið enn veikara.

Þáttur Framsfl. í stjórn Geirs Hallgrímssonar er að mínum dómi ömurlegur. Framsóknamenn verða daglega að hlusta á forsrh. og aðra ráðh. Sjálfstfl. útmála hinn voðalega viðskilnað stjórnar Ólafs Jóhannessonar, viðskilnað, sem þeir sjálfstæðismenn séu nú að glíma við og reyna að færa til betri vegar. Þórarinn Þórarinsson, einn af aðalritstjórum tímans, maðurinn, sem sérstaklega gekk fram fyrir skjöldu til þess að koma á samstjórn íhalds og framsóknar að þessu sinni, reynir nú með ýmsu móti að afsaka þátttöku flokksins í stjórn Geirs Hallgrímssonar. Allar eru þessar afsakanir Þórarins fyrir fram vonlausar. Það þýðir ekki að halda því fram við neinn hugsandi mann, að Framsfl. hafi verið neyddur til þátttöku í þessari stjórn. Það var hægt að mynda nýja vinstri stjórn, ef Framsfl. hefði viljað. Flokksstjórn Alþfl. hafði samþykkt að taka þátt í slíkri stjórn, en Ólafur Jóhannesson lét aldrei reyna á þennan vilja Alþfl. til fulls. Og það er vitanlega algerlega út í hött hjá hæstv. samgrh. að segja, að vinstristjórnarmyndunin á s.l. sumri hafi strandað á einhverri óbrúanlegri óvild á milli Alþfl. og Alþb. Þessa skýringu hefur Þórarinn ekki fundið enn þá. En auk þess sem það var hægt að mynda vinstri stjórn, þá var einnig hægt að mynda minnihluta stjórn þeirra 30 þm., sem stóðu að fyrrv. ríkisstj., og það má telja alveg víst, að Alþfl. hefði ekki þorað, eins og komið var, að hætta á nýjar alþingiskosningar með því að fella þá stjórn. Sjálfstfl. hafði ekki nema 25 þm. og gat því ekki einn fellt stjórnina.

Það er líka algerlega vonlaus afsökun hjá Þórarni Þórarinssyni að halda því fram, að við Alþb.- menn höfum ekki viljað taka þátt í nýrri stjórn vegna fyrirsjáanlegra efnahagserfiðleika. Hið rétta er, að við höfðum í stjórnarmyndunarviðræðum við Framsfl. komið okkur saman við hann um aðalatriðin í efnahagsaðgerðum. Þær aðgerðir voru við það miðaðar að skerða ekki kaupmátt láglauna og draga ekki úr nauðsynlegri atvinnuuppbyggingu úti um land. Sannleikurinn um þátttöku Framsfl. í stjórn Geirs Hallgrímssonar er sá, að hægri armur flokksins knúði fram þessa þátttöku. Það var það lið innan Framsfl. á Reykjavíkursvæðinu, sem sameinast hafði íhaldinu undir merkjum Varins lands og á sameiginlegra hagsmuna að gæta með íhaldinu í hermangsfyrirtækjunum og í rekstri olíufélaga, vátryggingafélaga og ýmiss konar milliliðastarfsemi, sem réð úrslitum í stjórnarmyndunarmálunum.

Vinstri menn, sem í kosningunum í sumar kusu Framsfl., hafa illilega verið sviknir. Þeir vildu vinstri stefnu og vinstri stjórn. Þeir hafa fengið hægri stefnu og íhaldsstjórn. Nú þurfa vinstri menn að læra af reynslunni. Sú stefna, sem Alþb. barðist fyrir í vinstri stjórninni, að leggja höfuðáherslu á uppbyggingu atvinnulífsins um allt land, jafnt á sviði sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar, atvinnulífs landsmanna sjálfra, var rétt stefna, var nauðsynleg stefna.

Vandamál efnahagslífsins var hægt að leysa án þess að skerða lífskjör láglaunafólks og án þess að stöðva þyrfti uppbygginguna í landinu.

Aðeins með auknu samstarfi allra vinstri manna mun takast að fella þá íhaldsstjórn, sem nú hefur tekið víð völdum, og aðeins með auknu samstarfi þeirra mun takast á ný að koma á þeirri ríkisstj., sem heldur áfram því starfi, sem vinstri stjórnin vann að á sínum tíma.