09.12.1974
Neðri deild: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

81. mál, innflutningur og eldi sauðnauta

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Hinn 20. mars s.l. barst landbn. Nd. bréf frá Búnaðarfélagi Íslands sem hljóðaði þannig, með leyfi forseta:

„Á fundi stjórnar Búnaðarfélags Íslands hinn 19. mars 1974 var gerð eftirfarandi bókun:

Í samræmi við samþykkt Búnaðarþings 1972 um nýja tilraun til innflutnings gauðnauta hefur stjórn Búnaðarfélags Íslands látið semja hjálagt uppkast að lagafrv. um það efni. Er það ósk félagsins að hv. landbn. Nd. taki við málinu og flytji það á Alþingi.

Virðingarfyllst,

Halldór Pálsson.“

Landbn. varð við þessari beiðni og flutti þetta frv. á síðasta þingi, en þar sem mjög var þá líðið á þingtímann komst málið aðeins til n. og er því endurflutt nú.

Þetta er ekki nýtt mál. Það voru samþ. lög hér á Alþ. 1929 um þetta efni og þá voru gerðar tvær tilraunir um innflutning á sauðnautum. Í ágústmánuði 1929 komu hingað til lands 7 sauðnautskálfar sem voru fluttir frá Austur-Grænlandi. Svo illa tókst til að 6 af þeim drápust skömmu eftir að þeir komu hingað. Hannes Jónsson dýralæknir taldi að það hefði verið bráðapest sem varð þessum kálfum að fjörtjóni. Einn kálfurinn lifði fram á veturinn,en drapst þá, að talið var úr sullaveiki. Árið eftir, í nóvembermánuði 1930, voru fluttir inn 7 sauðnautskálfar frá Noregi. 5 af þeim voru á vegum hins opinbera, en 2 voru keyptir af einstaklingum. 5 kálfarnir voru fluttir, eins og hinir fyrri, að Gunnarsholti, en hinir tveir að Litlu-Drageyri í Skorradal. Annar kálfurinn, sem þangað fór, fórst af slysförum, en hinn var þá fluttur til hinna kálfanna að Gunnarsholti og þar drápust allir kálfarnir sumarið eftir, sumarið 1931. Ekki liggur ljóst fyrir hvað varð þessum kálfum að fjörtjóni því að þeir voru allir bólusettir við bráðapest enda kom í ljós að það var annað sem olli þessum hörmulegu endalokum á þessari tilraun að gera dýralíf í landi okkar ögn fjölbreyttara. Dýralæknar telja að það hafi verið einhvers konar ormaveiki sem kálfarnir veiktust af og olli dauða þeirra, og telja þeir að nú muni vera hægt að koma í veg fyrir slíka sjúkdóma ef innflutningur á sauðnautum væri framkvæmdur nú.

Á undanförnum árum hafa margir áhugamenn á þessu sviði þrýst á stjórnvöld og Búnaðarþing að gera enn eina tilraun til að flytja sauðnaut hingað til lands. Sumir hafa t.d. bent á að í Norður-Ísafjarðarsýslu væri nú kjörið land fyrir sauðnautshjarðir, aðrir hafa bent á önnur landssvæði. Ef sleppa ætti þessum skepnum lausum yrðu litlar nytjar af þeim. En það hlýtur að vera ein meginröksemdin fyrir innflutningi á nýjum dýrastofni til landsins að í framtíðinni séu líkur fyrir að hann muni skila einhverjum arði, jafnframt sem við með þeim innflutningi gerum dýralífið ögn fjölbreyttara. Ég held líka að það væri ekki hyggilegt að sleppa hendinni af þessum dýrum, a.m.k. ekki fyrstu árin. Það þarf að fylgjast með því, hvort þessi dýr smitast af einhverjum búfjársjúkdómum frá okkar húsdýrum, og veita þeim læknishjálp eftir þörfum. Ekki verður það gert ef þessi dýr ganga hér villt. Það vill líka svo til að það er komin veruleg reynsla á það í öðrum löndum að hafa sauðnaut í girðingum svo að hægt sé að fylgjast með þeim og hafa af þeim nytjar. Þetta er t.d. gert í Kanada, í Bandaríkjunum, í Alaska og Norður-Noregi. Nytjar af þessum dýrum er fyrst og fremst ullin sem er mjög verðmæt. Það er sagt í þeim gögnum, sem mér hafa verið send, að í Noregi fáist um 700 kr. norskar fyrir hvert kg af ull af þessum dýrum, eða um 14000 kr. íslenskar. Og í Bandaríkjunum er talið að ullarkg kosti þar um 100 dollara, eða tæplega 12000 kr. íslenskar. Talið er að af fullorðnum törfum fáist allt að 3 kg af ull á ári, en að meðaltali um 2.7 kg, eitthvað minna af kúm og yngri dýrum. Kjötið er talið mjög líkt og nautgripakjöt.

Á undanförnum áratugum hefur verið vaxandi áhugi fyrir þessum dýrum. Norðmenn hafa sleppt sauðnautum lausum í Dofrafjöll rétt sunnan við Þrándheim. Sú tilraun virðist hafa heppnast vel. Er talið að dýrin líti vel út og tímgist þar með eðlilegum hætti. Árið 1969 var settur búgarður um 70 km norðan við Narvík í Norður-Noregi. Byrjað var þar með 10 nautkálfa og 15 kvígur og hefur þessi tilraun gengið að óskum.

Enn fremur hafa verið flutt sauðnaut frá Austur-Grænlandi til Vestur-Grænlands í námunda við Straumsfjörð. Þar hafa þessi dýr dafnað mjög vel og eru stærri en í Norðaustur-Grænlandi. Sýnir það að skilyrðin fyrir þau í hinum nýju heimkynnum eru betri, og til marks um það er að kýrnar þar eiga frekar tvo kálfa en norður frá.

Í Alaska, þar sem frostið er 35–40 stig á Celcius svo að vikum skiptir, dafna dýrin vel. Mikil votviðri virðast ekki heldur standa þeim fyrir þrifum. Hins vegar munu sauðnaut þola verr mikla hita því að þessi dýr hafa mjög litla svitakirtla og gengur því seint að kæla sig ef þau hitna mikið.

Þegar Nixon fyrrv. forseti Bandaríkjanna fór til Kína hafði hann í vasanum gjafabréf upp á tvö sauðnaut, enda hefur það lengi verið siður stórhöfðingja að gefa gjafir í slíkum heimsóknum og slíkar gjafir voru þá sjaldan valdar á annan veg en þann að til gersema mætti teljast. Í staðinn fékk Nixon hjá kínverjum í líkum mæli tvö pandadýr sem eru meðal allra sjaldgæfustu spendýra. Þessir dýrgripir eru eflaust nú í dýragörðum í Peking og Washington.

Ég vil vekja athygli á því að hér er aðeins um að ræða heimildarlög þar sem hæstv. landbrh. er gefin heimild til að veita Búnaðarfélagi Íslands leyfi til að flytja sauðnaut til landsins með þeim skilyrðum sem eru sett í lögum þessum. Þó að frv. yrði samþ. þarf að fá leyfi íslenskra og danskra yfirvalda og einnig leyfi frá yfirdýralækni hér áður en hafist yrði handa. Ef tilskilin leyfi fengjust til að flytja inn sauðnaut, t.d. frá Austur-Grænlandi, þá er mér tjáð að áhugamannahópur sé tilbúinn að leggja fram fjármagn til að gera slíka tilraun mögulega.

Hugmyndir munu vera uppi um það að vænlegast til árangurs muni vera að setja dýrin fyrst í stað a.m.k. í ey, t.d. Flatey á Skjálfanda eða Grímsey, meðan verið er að rannsaka hvort einhverjir sjúkdómar séu í dýrunum, enn fremur að setja þau þar með íslensku búfé til þess að kanna hvort þessi dýr muni smitast af þeim eða öfugt. Fleiri staðir hafa verið nefndir sem til greina kæmu til að hafa þessi dýr á fyrst í stað, en um það verða sérfræðingar á þessu sviði og yfirdýralæknir að fjalla ef Alþ. verður við beiðni stjórnar Búnaðarfélags Íslands og við áskorun Búnaðarþings um að samþ. þessi heimildarlög.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar við þessa umr., en þegar hæstv. landbn. varð við þeirri beiðni að flytja þetta frv. nú var þess óskað að n. fengi frv. aftur til meðferðar, enda fram tekið að einstakir nm. væru óbundnir um afstöðu til frv. Ég óska því eftir því að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.