10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

18. mál, lagning byggðalínu milli Norður- og Suðurlands

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Mér þykja undarlegar þær fullyrðingar hæstv. iðnrh. að þetta sé dýrasta lausnin á orkumálum Norðurlands og vildi mjög gjarnan fá að vita á hverju þetta er byggt. Ég hef ekki tíma á þeim tveimur mínútum, sem ég hef hér nú, til þess að gera grein fyrir mínu máli, þó vil ég freista þess að segja að samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, er gert ráð fyrir því að kostnaður við framleiðslu orku með varmastöðvum á Norðurlandi sé um 1000 millj. kr. á fjórum árum. Sú lína, sem hér um ræðir, getur orðið 66 kw. í upphafi, en flytur þá aðeins u.þ.b. 6 mw., og ef miðað er við þetta þá er það sannarlega dýr lausn. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu, eins og fram kemur í þeim upplýsingum sem ég hef, að línan geti orðið 132 kw. og flytur þá 16 mw. og með því móti sparast 800 millj. af þessum 1000 millj. á 4 ára tímabili. Auk þess er það staðreynd, þegar endavirki eru fullgerð, m.a. tenging frá Andakíl í Búrfell, verður burðargeta þessarar línu 50–60 mw. Ég leyfi mér að efast um að sú virkjun finnist sem hagkvæmari er. Ég vil jafnframt vekja athygli á því að með þessu móti nýtast betur þær virkjanir, sem fyrir eru á Suðurlandi, og það ber einnig að taka með í reikninginn. Ég leyfi mér því að vefengja það að þetta sé dýrasta lausnin á raforkumálum Norðurlands.