10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

18. mál, lagning byggðalínu milli Norður- og Suðurlands

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil síður en svo taka undir ásakanir hv. þm. Ragnars Arnalds í garð hæstv. iðnrh. fyrir nær 3 mánaða drátt á því að hefja framkvæmdir við byggðalínuna norður, þar sem í ljós hefur komið að hann hefur notað þennan tíma mjög vel, en að vísu með takmörkuðum árangri, til þess að velta fyrir sér heiti línunnar eða að öðrum kosti möguleikunum á því að flytja hana þannig til að nafnið passi. Sannleikurinn er sá í sambandi við Laxárvirkjunina, sem hæstv. iðnrh. nefndi enn sem æskilegan möguleika til þess að leysa orkuvanda Norðurlands eystra nú í vetur, að vinstri stjórnin tók þarna við framkvæmd viðreisnarstjórnarinnar þar sem unnið var að 50 mw. virkjun, þar sem síðast settar voru niður 50 mw. vélar í 50 mw. göng til þess að virkja 12 mw. vatn, sem ekki hefði fengist ef fyrrv. iðnrh. hefði ekki skorist í leikinn til þess að leysa eitraða deilu sem orðin var þarna nyrðra.

Við einu atriði vildi ég fá svar, sérstaklega af því að hæstv. samgrh. hefur þegar kvatt sér hljóðs í þessu máli. Ég heyrði hann segja undir rösklega 200 votta nú fyrir nokkrum dögum að lögn byggðalínunnar norður væri gjörsamlega komin undir því að reist yrði málmbræðsla í Hvalfirði, — að lögn byggðalínunnar norður væri undir því komin að þessi verksmiðja yrði reist í Hvalfirði. Þar sem nú hæstv. iðnrh, nefndi tengingu við Grundartanga í beinu samhengi við línuna norður, þá vil ég gjarnan fá svar við því hvort þessi fullyrðing hæstv. samgrh. sé sönn.