10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

18. mál, lagning byggðalínu milli Norður- og Suðurlands

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég er almennt séð ekki þeirrar skoðunar að fsp, séu vettvangur fyrir almennar umr. um mál, enda er tíminn ekki til þess. Ég held að manni séu skammtaðar 2 mínútur. En ég kemst ekki hjá því að leiðrétta hrein ósannindi sem hæstv. iðnrh. fór með. Hæstv. iðnrh. spurði m.a. eða gaf í skyn að ég hefði getað lagt fram frv. um Kröfluvirkjun tveimur árum fyrr en ég gerði. Forsendur Kröfluvirkjunar voru að sjálfsögðu rannsóknir og þeim rannsóknum var ekki lokið fyrr en haustið 1973. Um leið og þeim var lokið, aðeins örfáum vikum síðar, lagði ég fyrir þing frv. um heimild til slíkrar virkjunar, miklu fyrr en nokkur dæmi eru um í sambandi við slíka rannsókn. Þegar þetta frv. hafði verið gert að lögum skipaði ég sérstaka n. til þess að undirbúa málið og einnig til þess að flýta því. Og ég hygg að það sé alkunna, að þessi n. hefur unnið mjög myndarlega og tryggt að eins mikill hraði væri á þeim framkvæmdum og hægt er.

Hæstv. iðnrh. sagði einnig að það hefði legið fyrir, þegar vinstri stjórnin var mynduð, að það hafi verið búið að loka fyrir áformin um virkjun í Laxá sem áður voru uppí. Staðreyndin er sú að iðnrh. viðreisnarstjórnarinnar gaf út heimild til virkjunarframkvæmda við Laxá eftir að viðneisnarstjórnin var komin í minni hluta í kosningunum 1971, og með þann arf sat maður uppi. Einmitt þess vegna fór óhemjumikill tími í að jafna þær deilur sem þar voru uppi, en það var forsenda þess að Laxárvirkjun tæki yfirleitt til starfa og framleiddi nokkurn skapaðan hlut að þær deilur yrðu jafnaðar. Það tókst sem betur fer. En ef það hefði ekki tekist væri ástandið á Norðurlandi miklum mun alvarlegra en það er þó nú.

Hæstv. iðnrh. sagði einnig að hönnun byggðalínu hefði ekki verið lokið fyrr en nú fyrir nokkrum vikum. Þetta er ósatt með öllu. Hann skýrði frá því í upphafsræðu sinni að hönnun á þeim kafla sem liggur frá Andakíl að Holtavörðuheiði hefði verið tilbúin í ágúst, og ætlunin var alltaf að hefja það verk 15. sept. Ef það hefði verið gert, væri línan komin að Holtavörðuheiði núna og það hefði getað flýtt verkinu svo mikið að raforku hefði verið hægt að flytja þegar á næsta hausti.

Sitthvað fleira sagði hæstv. ráðh. sem ég hef ástæðu til að gera athugasemdir við, en því miður er ekki möguleiki á því í þessu umræður formi.