10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

18. mál, lagning byggðalínu milli Norður- og Suðurlands

Landbrh, (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fyrirspurn frá hv. 5. þm. Norðurl. e., Stefáni Jónssyni, vil ég segja það, að ég lýsti því yfir á fundinum á Leirá að einmitt byggðalínan væri tengd verksmiðjunni á Grundartanga og það gerði hana miklu hagkvæmari en aðrar línur sem voru athugaðar til flutnings á rafmagni norður, enda mun það vera svo að byggðalínan er talin frá Hvalfirði en ekki lengra. Það er þó ljóst að flutningur á rafmagni til Hvalfjarðar og yfir hann, annað hvort, eins og talað er um, beint frá Sigöldu eða yfir fjörðinn sjálfan, verður að koma til til þess að þessi lína nýtist að fullu eins og fyrirhugað er í framtíðinni. Þetta hef ég tengt saman og hafði komið inn í þær umr., sem fóru fram um þetta mál í ríkisstj.

Í öðru lagi út af því sem sagt hefur verið um fjármálin, þá er það rétt að heimilað var í fjárlögum að taka lán til þessara framkvæmda sem og til margra fleiri verka á sviði rafmagnsmála. Þegar komið var fram á sumar var ljóst að óhugsandi var að koma öllum þeim verkum áfram með því framkvæmdafé sem heimiluð var lántaka til. Af þeim ástæðum lét ég athuga möguleika á því hvað hagkvæmast væri talið og yrði að ljúka á þessu ári af þeim verkum sem átti að vinna. Kom í ljós að þegar búíð var að stilla því dæmi upp var búið að ráðstafa þessum 300 millj. og meira en það. Þetta liggur fyrir og frá þessu skýrði ég í umr. bæði í ríkisstj. og ég veit ekki betur en það hafi veríð haft samráð við iðnrn. um þetta. Hins vegar skal það skýrt tekið fram að þáv. iðnrh. játaði ekki að það væri sín ákvörðun að þessu yrði frestað, það skal undirstrikað. Hins vegar skýrði ég einnig frá því í umr. um stjórnarmyndunina að til þess að koma þessu verki í framkvæmd yrði að útvega meira fé en heimild hefði veríð til á gildandi fjárlögum. Ég sem ráðh. í ríkisstj. sem hafði ekki meiri hl. á Alþ. taldi mig ekki hafa möguleika eða rétt til þess að útvega meira fé en fjárlög heimiluðu.