10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (504)

18. mál, lagning byggðalínu milli Norður- og Suðurlands

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég tók það fram áðan, að þegar vinstri stjórnin var mynduð í júlí 1971 þá lá það fyrir að ekki mundi verða um frekari framkvæmdir við Laxá að ræða. Þetta held ég að öllum hafi verið ljóst. Þá hefði auðvitað þegar í stað þurft að byrja á því að undirbúa aðra virkjunarmögur leika. Það tel ég að hafi ekki verið gert.

Fyrrv. iðnrh. segir að hann hafi lagt fram frv. um virkjun Kröflu strax þegar undirbúningi var nægilega langt á veg komið. Má vel vera að það sé rétt. En hvers vegna tók undirbúningurinn svona langan tíma? M.a. vegna þess, að fyrrv. ríkisstj. og þingmeirihluti neitaði um fjárveitingar, sem gerðar voru till. um hér á Alþ. tvö ár í röð, um aukið fé til þess að hraða þessum rannsóknum. M.ö.o. vegna þess að rannsóknirnar fengu of lítið fé og gengu þess vegna of hægt hefur þetta mál dregist.

Varðandi fjárveitingarnar til byggðalínunnar er hægt að skýra aðeins nánar frá, en raunar gerði fyrrv. fjmrh. því skil áðan. Málið liggur þannig fyrir, að í fjárlögum fyrir 1974 var veitt heimild til að taka 300 millj. kr. að láni vegna þessarar byggðalínu. Á miðju ári var ákveðið, að nota aðeins 25 millj., en ekki 300 millj. til byggðalínunnar, og því skyldi varið til hönnunarkostnaðar. Þetta liggur fyrir í skjölum frá fjmrn. (Gripið fram í: Var það ákveðið af ríkisstj.?) Þetta liggur fyrir í bréfi frá fjmrn. (Gripið fram í: Fjmrn., en ekki frá ríkisstj.) Ég get ekki blandað mér í það, hvaða deilur hafa veríð innbyrðis á ráðherrafundum eða ríkisstjórnarfundum með hæstv. ráðherrum. Þetta liggur fyrir frá ráðuneytisstjóra fjmrn. í bréfi til iðnrh. frá 10. júlí s.l., að vegna fjárhagsvandræða Rafmagnsveitna ríkisins hafi þeim lánsmöguleikum, sem þarna var um að ræða, verið beint að verulegu leyti til annarra þarfa í raforkumálum. Hann segir að það hafi verið till. ráðuneytismanna í fjmrn., hagsýslustjóra o.fl. að fresta byggðalínunni milli Norður- og Suðurlands að öðru leyti en tekur til hönnunarkostnaðar, 25 millj. kr., þar eð viðræður við Seðlabankann leiddu í ljós að þess var enginn kostur að afla frekara fjármagns af láni en gert var. Ráðuneytisstjórinn segist hafa skilið niðurstöður þessara samtala svo að þessi niðurskurður í 25 millj. væri ákveðinn, og síðan segir hann að efniskaup til þeirrar línu séu ekki möguleg að svo stöddu. Ég skal ekkert segja um hvað hafi farið fram á ráðherrafundum, hvort ágreiningur hafi verið milli fjmrh. og iðnrh., það veit ég ekki um, þeir geta borið saman bækurnar sjálfir. En hitt er staðreynd, að svona var þetta ákveðið a.m.k. af hálfu fjmrn. og þegar fyrrv. iðnrh. lét af störfum hafði hann ekki tryggt fé til þessarar línu, aðeins þessar 25 millj. til hönnunarkostnaðar, annað ekki.