10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

59. mál, vegarstæði yfir Þorskafjörð

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir svar hans. Það ber með sér að það er unnið að þessum málum, og á það verður að leggja ríka áherslu. En ég tel að það beri að vinna sjálfstætt að þessu máli án tillits til þess hvaða framtíðarleið verður valin úr Ísafjarðardjúpi suður yfir hálendið, hvort það er Þorskafjarðarheiði eða Kollafjarðarheiði sem talað er um. Hér er um hið þýðingarmesta mál að ræða í báðum tilfellum og ég vil mega vona að þannig verði unnið að athugun þessa máls, því að ég tel að undir öllum kringumstæðum verði að halda svo á málum að við verðum viðbúnir því að leggja í þessa mikilvægu framkvæmd.