10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

59. mál, vegarstæði yfir Þorskafjörð

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég fór ekki út í það í máli mínu hér áðan að fara að tíunda hvað ég hefði gert í þessu máli eða við hverja ég hefði talað. Ég gæti svo sem sagt frá því að mér barst í hendur áætlun um þetta verk í gær frá kunnáttumanni sem athugaði það. Samkvæmt þeirri áætlun er reiknað með að þetta kosti 250 millj. kr.

Ég undrast það að hv. 2, þm. Vestf. skuli vera mér ósammála um að það skuli athuga þetta mál sjálfstætt, án tillits til þess hvort framtíðarvegur verður yfir Þorskafjarðarheiði eða Kollafjarðarheiði. Ég undrast það vegna þess að þá gleymir þessi hv. þm. því hvað þessi framkvæmd er mikilvæg fyrir byggðirnar sem liggja að þessu svæði.