10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

308. mál, atvinnulýðræði

Fyrirspyrjandi(Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Á þskj. 65 leyfi ég mér að flytja svo hljóðandi fsp. til hæstv. dómsmrh.:

„1. Hvernig hefur verið staðið að framkvæmd reglugerðar nr. 263 frá 3. des. 1970 um alþjóðlegt fiskveiðieftirlit utan landhelgi og fiskveiðilögsögu?

a) Hversu mörg skírteini eftirlitsmanna, sbr. 7. gr. reglug., hafa verið gefin út, hvenær voru þau gefin út, og hverjir hafa þau með höndum?

b) Hversu oft hefur verið farið um borð í erlend fiskiskip við Ísland skv. ákvæðum 8. gr. til þess að kanna búnað veiðarfæra, hverra þjóða hafa þau skip verið og hver urðu málalok? Sérstaklega er spurt um þessa framkvæmd á árunum 1972, 1973 og það sem af er árinu 1974.

c) Hafa íslenskir eftirlitsmenn verið hindraðir í störfum sínum og ef svo er, hver hafa þá verið viðbrögð stjórnvalda?

2. Hefur verið farið um borð í erlend fiskiskip innan 50 mílna lögsögunnar eða í höfnum á Íslandi í þeim sérstaka tilgangi að kanna hvort um löglegan búnað veiðarfæra sé að ræða? Ef svo er, þá hversu oft og hverra þjóða hafa þau skip verið? Sérstaklega er spurt um framkvæmd þessa á árunum 1972, 1973 og það sem af er árinu 1974.“

Ég geri mér grein fyrir því, að þessi fsp. er töluvert ítarleg og e.t.v. erfitt að svara henni í stuttu máli. En ég vænti þess þó fastlega að hæstv. ráðh. svari henni eftir því sem tök eru á.

Eins og þm. er kunnugt hafa verið settar tvær reglugerðir um þetta efni sem í gildi eru. Það er annars vegar reglug. frá 16. maí 1974 um möskvastærðir botnvörpu og um lágmarksstærðir fisktegunda, sem gildir um eftirlit, sem hér er spurt um, innan íslensku fiskveiðilögsögunnar. Á hinn bóginn er það reglugerð nr. 263 frá 3. des. 1970 um alþjóðlegt fiskveiðieftirlit utan landhelgi og fiskveiðilögsögu, en sú reglug. er sett í framhaldi af samþykkt Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar um takmarkanir á möskvastærðum og annað þar að lútandi sem ég hef hér í enskum texta, en tel ekki ástæðu til að rekja frekar.

Það fer ekkert á milli mála, að það er rík þörf á því að í heiðri sé haft það verndunarsjónarmið, sem fram kemur í þessum tveimur reglugerðum. Hins vegar er uppi rökstuddur grunur, meðal sjómanna sérstaklega, um að það eftirlit sem samkv. reglug. á að framkvæma sé ekki framkvæmt sem skyldi. Ég segi að þetta sé rökstuddur grunur, m.a. vegna þess að það hefur oft borið við að íslensk fiskiskip hafa fengið slitur úr veiðarfærum erlendra fiskiskipa á línu í önnur veiðarfæri sem sýna það og sanna að þeir, sem veitt hafa með þeim, hafa haft ólöglegan búnað á sínum veiðarfærum. Í þessu sambandi vil ég — með leyfi forseta — vitna í nýjustu frétt um þetta efni, sem kom í Morgunblaðinu 6. des. s.l. Þar segir svo í fyrirsögn:

„Þjóðverjar klæða vörpuna með 45 mm neti.“ Í fréttinni segir, að Morgunblaðið hafi haft tal af Erlingi Guðmundssyni skipstjóra á m.b. Örvari BA 14. Segir Erlingur að hann hafi fengið í línu skipsins stykki af neti u.þ.b. 32 sjómílur norðvestur af Blakk. Netið er mjög smáriðið, aðeins 45 mm riðill. Telur Erlingur að þýskir togarar klæði poka á vörpum sínum með þessum netum, og brýtur það að sjálfsögðu í bága við öll ákvæði um möskvastærðir í Norður-Atlantshafi.

Þetta er ekki eina fréttin um svipuð mál sem upp hefur komið í blöðum. Margar fréttir væri hægt að rekja og mér er kunnugt um það úr mínu kjördæmi að þar er rökstuddur grunur um að sérstaklega erlend fiskiskip virði ekki þær reglur um búnað veiðarfæra sem settar hafa verið. Er kvartað mjög undan því að eftirlit með þessu sé slælegt. Ég er ekkert að draga dul á að uppi eru ýmsar flugufregnir þar um ástæðurnar fyrir því, að skírteini til eftirlitsmanna hafi veið seint og illa útgefin.

Ástæðan fyrir þessari fsp. minni er að fá svar við þeim spurningum, m.a. til þess að það komi fram sem rétt er og satt í þessu máli.