10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

308. mál, atvinnulýðræði

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég hef óskað eftir upplýsingum frá Landhelgisgæslunni varðandi þá fsp., sem hér liggur fyrir. Hefur hún sent mér svo hljóðandi bréf, sem dags. er 25 nóv., það er nokkuð síðan fsp. kom fram, en það er ekki mín sök að henni hefur ekki verið svarað fyrr.

„Með vísan til fsp. frá Sighvati Björgvinssyni alþm. til hæstv. dómsmrh., sem lögð hefur verið fram á Alþ. um eftirlit með veiðarfærabúnaði erlendra fiskiskipa við Ísland.“ Og síðan eru svörin, tekin í þeirri röð, sem fsp. eru settar fram og merktar með stöfum á þskj. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka þær, þar sem fyrirspyrjandi las þær upp.

1. a. Alls hafa 8 menn verið þjálfaðir til þess að framkvæma fyrrnefnt eftirlit og tilkynntir skrifstofu Norðaustur-Atlantshafsnefndarinnar í London. Frá Landhelgisgæslunni eru þessir: Benedikt Guðmundsson stýrimaður, sem vinnur að mestu leyti að þessum störfum í landi, Ólafar V. Sigurðsson stýrimaður, Ásgrímur Ásgeirsson stýrimaður, Hálfdán Henrýsson stýrimaður, Baldur Halldórsson stýrimaður. Frá Hafrannsóknastofnuninni: Sæmundur Auðunsson skipstjóri, Sigurður Árnason skipstjóri. Benedikt Guðmundsson hefur haft skírteini frá því árið 1970, þrír aðrir síðan snemma á þessu ári og skírteini hinna eru tilbúin. Fleiri af stýrimönnum Landhelgisgæslunnar eru í þjálfun.

1. b. Um borð í erlend fiskiskip í sjó við Ísland hefur verið farið sem hér segir: 1972 ekkert í sjó, aðeins í höfnum. 1973 tveir breskir togarar, gerð athugasemd við útbúnað veiðarfæra beggja. 1974 8 belgískir togarar, tólf athuganir á þessum 8 og gerð athugasemd við útbúnað veiðarfæra í 9 skipti. 9 breskir togarar, athugasemd við útbúnað veiðarfæra í þremur tilfellum. 3 færeyskir togarar, fjórar athuganir, athugasemd gerð í eitt skipti.

1. c. Íslenskir eftirlitsmenn hafa aldrei verið hindraðir í störfum sínum við veiðarfæraeftirlit.

2. Á undanförnum 3 árum hefur verið farið um borð í erlend veiðiskip til athugunar á veiðarfærum sem hér segir: 1972 athugaðir 14 breskir togarar, 6 vestur-þýskir togarar, 3 belgískir togarar. 1973 2 breskir togarar (landhelgisdeilan hindraði eðlilegar athuganir). 1974 9 breskir togarar, 10 belgískir togarar, 3 færeyskir togarar.“

Og undir þetta ritar Pétur Sigurðsson. Þetta eru nokkrar tölur og ég get að sjálfsögðu látið fyrirspyrjanda í té afrit af þessu. Ég gef aðeins þessar upplýsingar, en ræði að öðru leyti ekki það málefni sem hér er um að ræða þar sem það er ekki vettvangur til þess í fyrirspurnartíma.