05.11.1974
Sameinað þing: 5. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Á tímum efnahagslegs öngþveitis og stjórnarfarslegrar upplausnar viða um lönd er hollt að hugleiða, hve lítill hluti þjóða heims býr við raunverulegt lýðræði. Formlegar kosningar á nokkurra ára fresti eru aðeins ytri búningur lýðræðislegs stjórnarfars. Innri styrkleiki þess er fólginn í gagnkvæmu trausti fólksins og valdhafanna: Stjórnmálamennirnir standa við þau heit, sem þeir gefa kjósendum, stefna þeirra og loforð séu gulls ígildi. Slíkur trúnaður milli þjóðar og forustumanna er forsenda þess, að lýðræði verði annað og meira en innantómt form, sem með markleysi sínu byði heim stjórnleysi eða einræði.

Sú hætta er ætíð fyrir hendi, að í lýðræðisríkjum komist til valda menn, sem með orðum sinum og athöfnum rýra innri styrk lýðræðisins. Þeir líta á stefnu og fyrirheit í kosningum sem sjónhverfingar, sem einungis eigi að þjóna þeirra eigin valdabaráttu. Stjórnmál eru að þeirra dómi ekki umbótastarf grundvallað á raunverulegum gagnkvæmum trúnaði milli fólksins og fulltrúa þess, heldur fyrst og fremst spilamennska um völd og frama. Slíkir menn geta á upplausnartímum valdið lýðræðinu miklu tjóni. Þeir eyðileggja traust fólksins á stjórnkerfinu.

Þegar formaður Framsfl. stóð í sept. frammi fyrir flokksmönnum sinum á Hótel Sögu að loknu því einstæða afreki að mynda stjórn fyrir íhaldið, opinberaði hann afdráttarlaust, að hann og Framsfl. legðu siðferði spilamennskunnar til grundvallar í stjórnmálastarfi sínu. Formaður Framsfl. lýsti lýðræðishugsjón sinni þannig, að það ætti ekki að segja fyrir kosningar, hvernig flokkurinn mundi vinna eftir kosningar. Orðrétt sagði formaðurinn með leyfi hæstv. forseta: „Slíkt er ekki pólitík, slíkt er heimska, því að hann er þá alveg úr leik á annan veginn og getur litla kosti sett á hinn veginn. Þannig geta menn ekki spilað. Það er eins og að leggja spilin á borðið fyrir andstæðinginn, áður en farið er að spila úr þeim.“

Svo mörg voru orð hæstv. dómsmrh., formanns Framsfl. „Þannig geta menn ekki spilað.“ Þessi einkunnarorð munu lifa um ókomin ár. Þau munu forða öllum heiðarlegum lýðræðissinnum frá fylgi við framsóknarforustuna. Þau afhjúpa siðferði hennar á einfaldan hátt. Kjósendum er ekki boðið trúnaðarsamband, það er aðeins spilað með þá. Pólitískt nóló flokksforustunnar hefur algeran forgang.

Síðan 1956, í nær tvo áratugi, hafa þúsundir vinstri manna fylgt Framsfl. í trausti þess, að hann væri að verða raunverulegur vinstri flokkur, jafnvel forustuflokkur vinstri aflanna, höfuðandstæðingar íhaldsins. Þessir vinstri menn verða nú að horfast í augu við þá staðreynd, hversu bitur og þungbær sem hún kann að vera, að þessi trú á vinstra hlutverk Framsfl. hefur reynst blekking, því miður. Hinn blákaldi veruleiki talar sínu máli. Vilji þessar þúsundir vinstri manna hætta að láta spila með sig, verða þær að draga lærdóm af reynslunni, láta atburði síðustu mánaða sér að kenningu verða. Sannir vinstri menn og samvinnumenn eru andvígir því, að íslenskt lýðræði verði skollaleikur spilamanna. Við viljum heiðarlegt umbótastarf í anda félagshyggju og gagnkvæms trausts fólksins og fulltrúa þess.

Við skulum nú um stund horfast í augu við staðreyndir, veruleikann sjálfan.

Miðstjórn Framsfl. felldi á s.l. vori, að gengið yrði til kosninga undir kjörorðinu: Áfram vinstri stjórn. Það mátti ekki gefa nein skýr fyrirheit. Slíkt væri ekki í samræmi við lögmál spilamennskunnar.

Í kosningabaráttunni slógu frambjóðendur Framsfl. sífellt úr og í. Sumir nefndu aldrei vinstri stjórn. Aðrir tæptu á henni með ýmsum fyrirvörum. Markmiðið var að gefa vinstri sinnuðu fólki nægilega undir fótinn án þess að loka nokkrum leiðum til íhaldsins. Þegar þessi tvískinnungur var á góðri leið með að afhjúpa spilamennskuna, var í lokahríð kosningabaráttunnar tilkynnt, að valið væri milli stjórnarforustu Framsfl. annars vegar og stjórnarforustu Sjálfstfl. hins vegar. Þetta væri þó skýrt. Forðast var að benda á, að þessi formúla gat falið í sér samstjórn við íhaldið undir forustu framsóknarformannsins, sem kannske var hinn stóri draumur.

En svo undarleg eru nú stjórnmál spilamennskunnar, að þeir, sem lofuðu þjóðinni fyrir kosningar að koma í veg fyrir stjórnarforustu Sjálfstfl., létu sig hafa það eftir kosningar að búa til sérstaka ríkisstj. fyrir Sjálfstfl. og voru í fjölmiðlum að verki loknu bara montnir af. Þannig eiga menn greinilega að spila.

En þótt hin nýja íhaldsstjórn sé enn aðeins tveggja mánaða gömul, hefur þegar komið í ljós, að hún er í veigamiklu atriði frábrugðin fyrri helmingaskiptastjórn Framsóknar og íhalds. Í núv. ríkisstj. hefur helmingaskiptareglan aðeins náð til valda og aðstöðu. Hún tekur greinilega ekki til stefnumála. Þau hefur Sjálfstfl. fengið öll í sinn hlut. Yfirlýsing ríkisstj. í sumar og stefnuræða forsrh. í kvöld sýna ótvírætt, að viðhorf Sjálfstfl. eru alls ráðandi. Hæstv. utanrrh., varaform. Framsfl., hefur að eigin sögn tekið að sér að framkvæma stefnu Sjálfstfl. í varnarmálum. Hæstv. utanrrh. var í 3 ár að reyna að framkvæma yfirlýsingu flokksþings Framsfl. um brottför hersins — 3 ár, en án árangurs. En það tók hæstv. utanrrh. hins vegar aðeins 3 vikur að framkvæma stefnu Sjálfstfl., ljúka endurskoðuninni, semja um áframhaldandi hersetu, stórframkvæmdir á Keflavíkurflugvelli og annað góðgæti handa fjármálamönnunum að baki ríkisstj. Þessi fyrsta reynsla utanrrh. sýnir, að það hefur verið rétt hjá ráðh. Framsfl. að láta Sjálfstfl. eftir öll stefnumálin. Þeim gengur greinilega mun betur að framkvæma stefnu Sjálfstfl. en það, sem sagt er að sé stefna Framsfl. Enda sýnir stefnuræða forsrh., að hinir ráðh. Framsfl. ætla sér að feta dyggilega í fótspor hæstv. utanrrh.

Í stefnuskrá ríkisstj., sem hæstv. forsrh. hefur í kvöld kynnt þjóðinni, var varla, að frátöldu sigurhrósinu um utanríkisstefnuna, minnst einu orði á þá málaflokka, sem ráðh. Framsfl. fengu í sinn hlut. Hásetakjör framsóknarráðh. á íhaldsskútunni eru þegar í upphafi orðin lakari en jafnvel Alþfl. lét bjóða sér eftir 12 íhaldsvertíðir. Hæstv. menntmrh. verður að láta sér lynda, að í stefnuræðu forsrh. var ekki minnst einu orði á menntamál, og hæstv. landbrh. virðist una því vel, að í þeim hluta stefnuræðunnar, sem ber heitið „Efling atvinnuvega“, er ekki orð um landbúnað. Hæstv. dómsmrh., sjálfur ættfaðir þessarar íhaldsstjórnar, komst ekki á blað hjá forsrh. Sem yfirmaður viðskiptamála fékk hæstv. ráðh., formaður Framsfl., aðeins eitt verkefni í stefnuræðunni: að undirbúa afnám verðlagseftirlitsins og veita kaupmönnum frjálsræði í álagningu. Slík eru örlög manna, sem ganga íhaldinu á hönd. Slíkur er hásetahlutur Framsfl. á þessari fyrstu vertíð hjá Sjálfstfl. Jafnvel Alþfl. hefðu ofboðið slíkir kostir á hinum langa viðreisnarferli.

Forusta Framsfl. hefur aðeins bent á eitt atriði í stefnuskrá ríkisstj., sem á að vera afkvæmi Framsfl.: 2% af ríkisútgjöldum í Byggðasjóð. Hvað þetta atriði snertir leika spilamennirnir líka lögmál sannleikans grátt. Þegar Gísli Guðmundsson flutti þessa stefnu fyrst, fékk hún daufar undirtektir í þingflokki Framsfl., og tvö síðustu ár hefur verið fellt í miðstjórn Framsfl. að veita ákveðinn hundraðshluta í Byggðasjóð. Þáv. fjmrh., Halldór E. Sigurðsson, hótaði jafnvel að segja af sér fjmrh.-dómi, ef slíkt yrði samþ. Það hefur hins vegar í nokkur ár verið stefna Sjálfstfl. hér á Alþ., að 2% ríkisútgjalda skuli renna í Byggðasjóð. Þetta atriði í stefnuskrá ríkisstj. er því miður einnig blóm Sjálfstfl. Hitt ber að lofa, að Halldór E. Sigurðsson, hæstv. landbrh., skyldi sýna þá stefnufestu og manndóm að standa við fyrri yfirlýsingar og neita að vera áfram fjmrh., fyrst Sjálfstfl. fékk því fram gegnt, að ákveðinn hundraðshluti rynni í Byggðasjóð.

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ég hef talið nauðsynlegt að sýna fram á, hvernig forusta Framsfl. hefur í anda spilamennskunnar blekkt þær þúsundir vinstri manna, sem í síðustu kosningum veittu henni traust. Við, sem stóðum að F-listanum, vöruðum við þessum blekkingum. En því miður reyndust sjónhverfingar spilamannanna áhrifaríkari en varnaðarorð okkar. Hinn harði skóli reynslunnar hefur hins vegar sýnt, að við höfðum lög að mæla. Framsóknarforustan greip fyrsta tækifærið til þess að ráða sig á íhaldsskútuna. Vinstri stjórn var ekki mynduð vegna þess, að F-listinn hlaut ekki nægilegt fylgi. Vinstri menn sjá nú svart á hvítu, að framsóknarforustunni verður ekki treyst. Lögmál spilamennskunnar móta ein aðgerðir flokksins. Íslenskir vinstri menn, sem þúsundum saman hafa fylgt Framsfl., eru knúnir til að endurmeta afstöðu sína, draga lærdóma af hinni bitru reynslu.

Í lok þessa mánaðar mun stuðningsfólk F-listans koma saman til landsráðstefnu og tengjast þar skipulögðum böndum. Sú ríkisstj. íhaldsaflanna, sem nú er við völd, gerir nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr, að allir raunverulegir vinstri menn taki höndum saman og myndi breiða fylkingu, fyrst til varnar og síðan til sóknar. Okkar biður mikið starf, andstaða við samstjórn mestu íhaldsafla þessa lands.

Ég heiti á þá, sem í síðustu kosningum veittu hinni afdráttarlausu vinstri stefnu F-listans brautargengi, að halda ótrauðir áfram starfi. Ég heiti á þá, sem í síðustu kosningum voru okkur stefnulega sammála, en stigu ekki skrefið til fulls, að láta atburði síðustu mánaða sér að kenningu verða. — Góða nótt.