10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

308. mál, atvinnulýðræði

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi gat um, fluttu þm. Alþfl. till. til þál. um þetta mál á þinginu 1972–73. Fyrsti flm. þess var Benedikt Gröndal, en ekki Gylfi Þ. Gíslason, eins og kemur fram í skipunarbréfi n. Þessu frv. var vísað til ríkisstj. 10 apríl 1973. 30. ágúst sama ár skipaði félmrh. Björn Jónsson n. til að semja frv. til l. um atvinnulýðræði. Í n. áttu sæti: formaður var Hallgrímur Dalberg, ráðuneytisstjóri, 3 menn tilnefndir af ASÍ voru þeir Baldur Óskarsson, Jón Snorri Þorleifsson og Óskar Hallgrímsson, 2 tilnefndir af Vinnuveitendasambandi Íslands, Jón H. Bergs og Ólafur Jónsson, og einn nefndarmanna tilnefndur af Vinnumálasambandi SÍS, Skúli Pálmason. Í skipunarbréfinu er tekið fram að n. skuli m.a. hafa hliðsjón af ákvæðum málefnasamnings stjórnarflokkanna frá 14. júlí 1971, löggjöf og reynslu á þessu sviði á öðrum Norðurlöndum og till. til þál. um atvinnulýðræði, sem áður er getið. Ég hef beðið n. að láta í té umsögn um þessa fsp., og er svar n. á þessa leið:

Hæstv.. félmrh. hefur óskað þess að n. sú, sem skipuð var af félmrh. 30. ágúst 1973 til þess að semja frv. til l. um atvinnulýðræði, svaraði tveimur fsp. frá Sighvati Björgvinssyni alþm. um nefnt frv.

Fyrri fsp. er svo hljóðandi. „Hvernig miðar störfum n. er félmrh. skipaði 30. ágúst 1973 til að semja frv. til l. um atvinnulýðræði?“

Svar: Tveir bókaðir fundir voru haldnir í n. í sept. 1973 auk óbókaðra viðræðufunda. Í október sl. ár (þ.e. 1973) var ákveðið að gera ótímabundið hlé á störfum n., svo að fulltrúar ASÍ, Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna gætu athugað nánar hvernig samtök þeirra teldu réttast að staðið yrði að afgreiðslu þessa máls. Var mál þetta m.a. til meðferðar hjá aðilum vinnumarkaðarins við gerð kjarasamninganna á sl. vetri. Líklegt má telja að fundir hefjist bráðlega að nýju í n. Í n. eiga sæti 3 menn tilnefndir af ASÍ. Einn þeirra flutti fyrir nokkru af landi brott, en ASÍ mun tilnefna mann í hans stað mjög bráðlega. Þá eiga enn fremur sæti í n. tveir menn tilnefndir af Vinnuveitendasambandi Íslands, einn tilnefndur af Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og loks einn tilnefndur af félmrh. og er hann formaður nefndarinnar.“

Síðari fsp. er svo hljóðandi: „Er þess að vænta að ríkisstj.. leggi slíkt frv. fyrir þing það, sem nú situr að störfum?“

Svar: „N. getur að sjálfsögðu ekki svarað til um það hvort þess sé að vænta að ríkisstj. leggi slíkt frv. fyrir þing það sem nú situr að störfum. Hins vegar vill n. lýsa því yfir að hún mun stefna að því að ljúka störfum og skila niðurstöðum sínum til félmrh. svo fljótt sem verða má.“

Þetta var svar n. Ég vil svo aðeins bæta því við að í niðurlagi svars n. kemur ekki fram hvort hún muni skila frv. til 1. eða skila niðurstöðum sínum í öðru formi. Áður en það liggur fyrir er ekki hægt neitt um það að segja hvort ríkisstj. muni leggja frv. frá n. fyrir þetta þing. En rétt er að taka það fram, að mér er kunnugt um að það er álit a.m.k. sumra manna í þessari n. að æskilegra sé að aðilar vinnumarkaðarins semji um fyrirkomulag þessara mála heldur en að löggjöf sé um þau sett. Með þessu vil ég ekkert um það segja, hver niðurstaðan kann að verða, en að því er ríkisstj. snertir tel ég rétt að bíða eftir niðurstöðum n. sem ég vænti að hljóti að koma áður en langt um líður.