10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

309. mál, þjóðhátíðarmynt

Fyrirspyrjandi (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 78 til hæstv. viðskrh. um sölu og hagnað af útgáfu Seðlabanka Íslands á þjóðhátíðarmynt í sambandi við þjóðhátíð 1974, en fsp. hljóðar svo og er í þrem líðum:

„1. Er sölu þjóðhátíðarmyntar lokið?

2. Hve mikill ágóði hefur orðíð af sölunni?

3. Verður ráðstöfun þess fjár lögð fyrir Alþ. til ákvörðunar?“

Upphaflegt tilefni þessarar fsp. er frétt sem birtist í Morgunblaðinu 27. júlí s.l. þar sem haft er eftir bankastjóra Seðlabankans og aðalféhirði hans, að þá þegar væri búið að selja umrædda þjóðhátíðarmynt fyrir 455 millj. kr., en heildarsöluverðmæti væri 578 millj. Enn fremur kom það fram að ekki væri þá hægt að segja um hvernig hagnaðinum yrði varið, þar sem endanlegar tölur lægju ekki fyrir, en stjórn Seðlabankans mundi í samráði við ríkisstj. Íslands ráðstafa fénu.

Nú er ég raunar að nokkru leyti búin að fá svar við spurningum mínum varðandi þetta mál.

Á ég þar við frétt sem birtist í sama blaði, Morgunblaðinu, nú í byrjun des., fáeinum dögum eftir að fsp. mín var lögð fram á Alþ. Þar er greint frá því að allar gerðir þjóðhátíðarmyntar séu nú uppseldar nema nokkuð af sérsleginni silfurmynt, sem sé enn óseld fyrir nokkra tugi millj. Þar kemur fram einnig að hagnaður af sölu myntarinnar, þegar allt er selt, muni nema 250–300 millj. kr., en ekki sé ákveðið, hvernig þessum fjármunum verði ráðstafað. Er þá enn ósvarað síðasta lið fsp. minnar, hvort ráðstöfun þessarar fjárupphæðar verði lögð fyrir Alþ. til ákvörðunar.

Nú er ég ekki haldin neinni tortryggni um að umræddum hagnaði af sölu þjóðhátíðarmyntar yrði ekki vel og skynsamlega varið af þeim samráðsaðilum, stjórn Seðlabankans og ríkisstj. íslands, sem getið er um í fyrr tilvitnaðri blaðafrétt. Heyrst hefur orðrómur um að fénu skuli varið sem framlagi til byggingar þjóðarbókhlöðu eða á annan hátt til varðveislu íslenskra menningarverðmæta. Væri það sannarlega vel til fallið. En það, sem fyrir mér vakir, er þetta: Ég tel mjög óeðlilegt, að Seðlabankinn ráðstafi svo stórri fjárupphæð, 250–300 millj. kr., utan við fjárlög ríkisins, og jafnvel þótt ríkisstj. kæmi til sem samráðsaðill, þá hefur hún ekki heldur samkv. anda stjórnarskrárinnar heimild til slíkra fjármunaráðstafana án samráðs og samþykkis Alþ. Ég tel nauðsynlegt, að Alþ. láti það koma skýrt fram, að það eitt fer með fjárveitingavald í íslenska ríkinu, og sé vel á verði gegn því að einstakar valdamiklar stofnanir seilist inn á verksvið þess.