10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

309. mál, þjóðhátíðarmynt

Fyrirspyrjandi (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svör hans. Ég fékk raunar ekki — kannske var það af því að ég vék að sessunaut mínum, að ég taldi mig ekki hafa fengið svar við síðasta líð fsp. minnar um það, hvort ráðstöfun hagnaðarins kæmi fyrir Alþ. Það var þetta sem var mergurinn málsins í minni fsp. (Gripið fram í: Það kom fram.) Það kom fram, þá bið ég afsökunar. En hafi það verið á þann veg að Alþ. yrði ákvörðunaraðili, þá er tilgangi minnar fsp. náð, og ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir. Mér þótti, eins og ég gat um í fyrri framsögu minni, einkennilegt að hvergi væri á það minnst að Alþ. yrði ákvörðunaraðili um ráðstöfun þessa fjár. Það er óneitanlega svo að í okkar þjóðfélagi eru sérfræðingar og embættismenn orðnir óþarflega fyrirferðarmiklir í okkar stjórnsýslu, og ég tel að Alþ. þurfi að gæta þar vissrar virðingar að láta ekki stór fjármunaspursmál fram hjá sér fara. Og ég sé ekki betur en 41. gr. stjórnarskrár Íslands kveði skýrt á um þetta, en þar segir, með leyfi forseta:

„Ekkert gjald skal greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárl. eða fjáraukalögum.“

Ég vil líka minna á, að árið 1968 voru sett sérstök lög eða réttara sagt bráðabirgðaákvæði aftan við lög um gjaldmiðil Íslands vegna útgáfu á minnispeningi um Jón Sigurðsson og var ríkissjóði heimilað með þessu bráðabirgðaákvæði að leggja 50% álag á nafnverð og þeim hagnaði skyldi varið til framkvæmda á fæðingarstað Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri. Þetta m.a. varð til þess að ég spurði mig sjálfa: Væri ekki full ástæða til þess að fara eins að nú og binda með lögum og ákvörðun Alþ. ráðstöfun á þeim miklu fjármunum sem hér er um að ræða.