10.12.1974
Sameinað þing: 21. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

50. mál, virkjun Suður-Fossár á Rauðasandi í Vestur-Barðastrandasýslu

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Virkjun Suður-Fossár hefur á undanförnum árum komið mjög til orða og verið athuguð. Á sínum tíma var áætlun um hana lögð til hliðar vegna Mjólkárvirkjunar. Ég held hins vegar að Suður-Fossá sé álitleg virkjun og æskilegt að þar gæti af framkvæmdum orðið.

Í þessari till. er gert ráð fyrir því að heimila ráðh. að fela Vestfjarðavirkjun eða öðrum aðila framkvæmdir í málinu. Ég geri ráð fyrir því að ef þessi till. yrði samþ. mundu Rafmagnsveitur ríkisins hanna framkvæmdir að sínu leyti eins og um virkjun Mjólkár og hafa þetta mál með höndum, þangað til Vestfjarðavirkjun yrði stofnuð. Hins vegar er eðlilegt að að því sé unnið að koma á slíku fyrirtæki — sem yrði þá væntanlega eign heimamanna, sveitarfélaga þar og ríkisins saman — eins og unnið er að því að koma á fót Norðurlandsvirkjun sem virkjunaraðila fyrir Norðurland. En þangað til slíkt fyrirtæki væri stofnað, væri eðlilegast að Rafmagnsveitur ríkisins hefðu málið með höndum.

Nú er það svo að sumir hugsa fyrst og fremst um að virkja í stórum stíl, um stórvirkjanir og leiða svo rafmagn út um byggðir landsins frá þeim. Auðvitað er mikil nauðsyn að framkvæma stórvirkjanir sem oft framleiða tiltölulega ódýra orku. Hins vegar má alls ekki leggja til hliðar hugmyndir um smærri virkjanir heima í héruðum af mörgum ástæðum, m.a. vegna öryggis, því að í okkar veðráttu þekkjum við allt of mörg dæmi þess þegar háspennulínur, sérstaklega sem liggja yfir heiðar og fjöll, bila, að þá er mikil trygging í því að hafa virkjanir heima í héruðunum.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þessa till., en vil mæla með því að hún verði samþ. á Alþ. og þá mundi að sjálfsögðu hafist handa með þessum hætti, sem ég gat um, að undirbúa og framkvæma þá virkjun. Það er að sjálfsögðu rétt að sú n., fjvn. væntanlega, sem fær málið til meðferðar, kanni hvort möguleikar eru á því að ljúka henni fyrir árslok 1976. Ég geri ráð fyrir að það mundi fyrst og fremst velta á afgreiðslutíma á vélum og rafbúnaði, en sjálfsagt er að hraða verkinu eins og tök eru á. Ég mæli því með samþykkt þessarar till.