10.12.1974
Sameinað þing: 21. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

71. mál, ellilífeyrisgreiðslur til lífeyrissjóðsfélaga

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Með þessari þáltill. er komið inn á mjög stórt mál og aðkallandi, þ.e.a.s. verðtryggingu hinna almennu lífeyrissjóða. Það var strax séð þegar þessir sjóðir voru stofnaðir, fyrst og fremst með samningunum 1969, að eins og gengið var frá þeim málum öllum hlaut þetta vandamál að koma afar fljótt til athugunar, þ.e.a.s. hvernig hægt væri að verðtryggja lífeyrissjóðina. Þessum málum hefur verið hreyft víða síðan og m.a. hér á Alþ., og ég vil minna á að alþb.- menn fluttu hér á þinginu 1971 till., það var ályktunartill. í Nd. um verðtryggingu lífeyrissjóða verkafólks. Hún var þess efnis að ríkisstj. væri falíð að semja frv. til l. um verðtryggingu lífeyrissjóða verkafólks. Sú till, fékk þá afgreiðslu að henni var vísað til ríkisstj. í trausti þess að ríkisstj. léti fara fram athugun og undirbúning að frumvarpsgerð um verðtryggingu lífeyrissjóða. Þá var Viðreisnarstjórnin sæla við völd og upp úr þessu var sett á laggirnar heilmikil n. sem að mestu leyti hefur setið síðan og fjallað um þessi mál og önnur sem varða viðskipti lífeyrissjóðanna og ríkisvaldsins, en kannske fyrst og fremst verið eins konar samningsstofnun um, hvernig fé lífeyrissjóðanna yrði notað í þágu ýmissa framkvæmda í landinu, sem sagt til fjárfestingarsjóðanna. Það hefur nú kannske verið hennar aðalstarf, en einnig fjallað um önnur mál. Sömuleiðis hefur í samningunum við atvinnurekendur síðan verið fjallað um þessi mál og síðast í samningunum í febr. s.l. vetur voru samningsaðilar sammála um og undirrituðu þar um yfirlýsingu að vinna að því að almennu lífeyrissjóðirnir yrðu verðtryggðir og að þessu skyldi unnið í samráði við ríkisvaldið. En sem sagt, nú má segja að ekki hefur enn mikið gerst. Þó ber að segja það að sjóðirnir hafa núna á þessu líðandi ári möguleika til þess að kaupa verðtryggð skuldabréf fyrir um 20% af ráðstöfunarfé sínu.

Þessi till., sem hér liggur fyrir markar út af fyrir sig ekki mikla stefnu, ekki er þar um stórar ákvarðanir að ræða. Hún er fyrst og fremst um það að þessi mál verði könnuð, og að sjálfsögðu er þess þörf en meira verður til að koma. Eins og nú er háttað eru annars vegar þeir lífeyrissjóðir sem hafa ágæta verðtryggingu, þ.e.a.s. lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna og nokkrir aðrir sem má segja að séu vel settir, en svo hins vegar hinir óverðtryggðu lífeyrissjóðir. Hér voru nefnd dæmi um hvernig þessi mismunur kemur út og verður úr hróplegt ranglæti, ranglæti, sem ekki getur viðgengist. Auðvitað er það höfuðtilgangur þessara lífeyrissjóða að tryggja fólki lífeyri á elliárunum. Það má eiginlega segja að nú sé hlutverk þessara óverðtryggðu sjóða, almennu lífeyrissjóðanna, í raun og veru allt annað. Það er ekki sjáanlegt, án þess að verðtrygging komi til, að þeir geti staðið undir því hlutverki sínu að vera lífeyrissjóðir. Það er aðallega tvennt sem þeir þjóna í þjóðfélaginu í dag. Það er annars vegar að vera helsta uppspretta sparifjármyndunarinnar í þjóðfélaginu og svo hins vegar lánastofnun fyrir sjóðfélagana. Það er þetta tvennt sem má segja að sé þeirra aðalverkefni í dag. Sparifjármyndunin kemur náttúrlega þjóðfélaginu mjög að notum og eins kemur hún að sjálfsögðu að notum þeim sjóðfélögum sem fá lán úr þessum lífeyrissjóðum, að svo miklu leyti sem þeir sjóðfélagar festa það fé í varanlegri eign.

Hér var áðan af frsm. bent á hugsanlegar leiðir í þessum efnum. Það var líka getið um, hvað það kostar ríkissjóð í dag að halda uppi verðtryggingu sjóða opinberra starfsmanna. Þá mætti að sjálfsögðu spyrja: Hvað mundi kosta á sama hátt að verðtryggja almennu lífeyrissjóðina? — Ég heyrði tryggingafræðing fyrir stuttu giska á hvað það mundi kosta í dag, þ.e.a.s. ef sjóðfélagarnir í almennu sjóðunum ættu réttindi á borð við þá í opinberu sjóðunum, þá mundi það kosta ríkissjóðinn í dag sennilega milli 5 og 6 milljarða á einu ári og sjá þá allir hvað lagt væri á skattþegnana.

Það er að sjálfsögðu margt sem hér kemur til greina og ég ætla ekki að fara að telja upp hugsanlega möguleika en ekki held ég að sé rétt að þessi mál séu rædd án þess að sá möguleiki, sem manni kannske virðist liggja mest í augum uppi, sé einnig nefndur og það er að þessu kerfi verði gerbreytt, það verði ekki eins og nú er byggt á sjóðsmyndun fjármagns sem síðan missir verðgildi sitt á skömmum tíma, heldur verði þetta fé notað jöfnum höndum til þess að greiða tryggingarnar. Það má segja, að þá haldi það sínu verðgildi nokkurn veginn. Í þessu efni kemur náttúrlega einnig inn í hvort ekki er rétt að búa til eitt kerfi sem á við alla landsmenn og inn í væru einnig felldar núverandi almannatryggingar.

Eins og háttað er í þjóðfélaginu í dag, þá virðist í raun og veru þetta vera það eina sem vit væri í. En ég ætla ekki að fara að gera lítið úr þeim erfiðleikum sem sigrast þyrfti á til þess að koma þessu öllu í kring. Lífeyrissjóðirnir eru sumir orðnir gamlir og viðhorf sjóðfélaganna til þessara sjóða er á þann veg að það er ekkert vafamál að þarna yrði margt vandasamt skref að stiga áður en þessi leið væri gengin til enda.

En sem sagt, ýmislegt annað getur komið til mála. Sjóðirnir geta fyrstu árin tekið á sig verðtryggingu, en með því móti vel að merkja eru þeir að syndga upp á framtíðina, taka forskot á sæluna ef svo mætti segja, því að að því kæmi, þegar tryggingabyrði þeirra yrði meiri, að þeir gætu að sjálfsögðu ekki staðið undir slíkum tryggingum eins og þeir gætu út af fyrir sig tekið á sig í dag, þegar réttindi sjóðfélaganna eru enn þá mjög takmörkuð, en gætu það á næstu árum. Þetta væri hægt'að gera, en þá leiðir það að sjálfsögðu til þess að endanleg ákvörðun um hvernig þessum málum verði skipað fyrir alla í framtíðinni má ekki bíða, það má ekki bíða lengi að sú ákvörðun verði tekin. Þetta tvöfalda kerfi og mikla ranglæti, sem sjóðfélagar óverðtryggðu sjóðanna búa við, getur ekki gengið; það verða allir að skilja. Og það er náttúrlega alveg jafnljóst að kjör þess fólks; sem í dag er í verðtryggðu sjóðunum, verða ekki skert. Úrlausnarefnið er það eitt að fá hinum ótryggðu lífeyrissjóðsfélögum fullkomið öryggi á borð við þá tryggðu.