11.12.1974
Efri deild: 19. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

95. mál, vegalög

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vildi með örfáum orðum lýsa ánægju minni með þær upplýsingar, sem fram komu í ræðu hæstv. ráðh., og þó kannske sérstaklega ánægju minni með þann stórhug, sem þar kom fram um vegagerð í landi okkar. Ég er honum sammála. Það þarf að vinna að þessu máli með áætlun til lengri tíma, og ég get tekið undir það sem hann sagði um varanlega vegagerð. Þetta er orðið ákaflega aðkallandi með þeim mikla bifreiðafjölda, sem landsmenn eiga nú orðið. Undir þetta get ég allt tekið.

Ég get þó ekki annað en minnt hæstv. ráðh. á það að einnig eru til Vestfirðir. Þar er ekki enn lokið hringvegi. Að vísu er að því unnið og við metum það sem þar störfum. En þar er ákaflega mikið átak enn ógert, eins og m.a. kom fram í sambandi við fsp. á Alþ. í gær. Þetta þarf að leysa um leið og rætt er um hringveg um landið. Við annað getum við ekki unað.

Ég tek, eins og ég segi, undir það að hrinda ætti því í framkvæmd að gera áætlun um meiri háttar átak í vegamálum okkar. Ég sé ekkert að því að taka erlent lán til slíkra framkvæmda á því er enginn vafi að það sparast óhemju í viðhaldi bifreiða sem allt er sparnaður á erlendum gjaldeyri.

Að öðru leyti kvaddi ég mér hljóðs til þess að ræða um þéttbýlisféð og gera grein fyrir því, sem byggðanefnd hefur um það fjallað, en síðasti hv. ræðumaður hefur gert það að verulegu leyti og skal ég reyna að forðast að endurtaka það. Ég get tekið undir allt það sem hann sagði um þann þáttinn. Þó vil ég geta þess að byggðanefnd fjallaði um tvær leiðir til þess að auka þann hluta vegafjár sem renna mætti til varanlegrar vegagerðar um landið án höfðatölureglunnar. Ég veit að hv. þm. þekkja það að nú er varið 90% af þessu þéttbýlisfé til slíkra framkvæmda eftir höfðatölureglu, því er skipt eftir höfðatölureglu, en 10% eru til ráðstöfunar að till. vegamálastjóra til meiri háttar framkvæmda. Byggðanefndin taldi að sumu leyti eðlilegra að skipta þessum 90%, en láta þessi 10% vera, því að skiljanlegt er að slíkt fjármagn þarf að vera fyrir hendi til að grípa til í ýmsum tilfellum. því var það megintillaga byggðanefndar að hluta af þessum 90%, t.d. 40% af þessum 90%, yrði skipt á milli landshluta til varanlegrar vegagerðar eftir þörfum þeirra. Mætti þá orða það: í öfugu hlutfalli við það sem gert hefur verið af slíkum framkvæmdum í viðkomandi landshlutum. Til vara settum við fram þá till. að auka þessi 10% verulega, a.m.k. upp í 40%, eins og raunar kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni, — hann ræddi að vísu um 35%, en ég hygg að við höfum rætt um 40%. Við getum að vísu fallist á annað í þessu sambandi, aðrar en þessar till. voru settar fram við hæstv. samgrh., sem var annar en nú er, og settar fram einnig í ræðu hér á þingi.

Ég vil því fyrir mitt leyti áskilja mér rétt til að skoða þessa gr. vandlega og jafnvel flytja við hana brtt. í þeim anda, sem ég hef nú lýst. Ég held að það sé óumdeilanlegt að þörfin hjá hinum smærri sveitarfélögum sé orðin gífurleg og raunar, ef ég má orða það svo, úr öllu hlutfalli við það sem er á hinum stærri stöðum, eins og t.d. Reykjavíkursvæðinu, þar sem betur fer, hefur tekist að ná upp miklum hala og vinna stórvirki að þessu leyti. Það er margt sem knýr á, ekki aðeins krafa, sjálfsögð krafa íbúanna sjálfra, sem ekki vilja lengur una við það að þurfa að vaða aurinn upp að hnjám í minnstu úrkomu, heldur einnig krafa þjóðfélagsins, þ.e. krafa þjóðfélagsins til hollustuhátta í sambandi við frystihúsin. Þarna er átak sem verður að leysa ekki eingöngu vegna íbúa þessara staða, heldur vegna þjóðfélagsins í heild. Við fáum ekki lengi flutt út okkar sjávarafurðir án þess að yfirborð gatna í nágrenni við vinnslustöðvar verði bundið, það vitum við og sýnist mér þetta jafnvel eitt réttlæta að verulega meira sé af mörkum lagt til þessara framkvæmda en verið hefur og gert er ráð fyrir í þessu frv.

Mér sýnist einnig að síðustu setninguna þurfi að athuga, þar sem svo segir, með leyfi forseta: „þar sem sérstök ástæða þykir til að ljúka ákveðnum áfanga, eða til að stuðla að hagkvæmari vinnubrögðum.“ Þetta er takmarkað. Ég tek undir það sem fram kom hjá síðasta hv. ræðumanni. Ég held þetta þurfi að víkka út.

Að öðru leyti vil ég endurtaka ánægju mína með það, sem kom fram hjá hæstv. ráðh, Það er einlæg von mín að unnið verði að þessum málum eins og hann lýsti.