11.12.1974
Efri deild: 19. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

95. mál, vegalög

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil á sama hátt og þeir aðrir hv. þm., sem hér hafa tekið til máls á eftir hæstv. samgrh., þakka honum fyrir greinargóðar upplýsingar um væntanlega varanlega slitlagslagningu á vegi, sem mér skildist, ef ég man rétt, ná yfir 500 km til viðbótar við aðra vegalagningu og vegaviðgerðir að sjálfsögðu líka. Hann kom víða við og talaði m.a. um þann áfanga, sem ég held að Stór-Reykjavíkursvæðið bíði nú hvað mest eftir að verði lagður, þ, e. Kópavogur – Engidalur, talaði um að það kostaði 200 millj. kr., sem er gríðarlega há upphæð. Þetta er nú fjölfarnasti vegarkafli landsins. Ég vona að hann komist í notkun sem allra fyrst. Eins ef brú yfir að Borgarnesi styttir vegalengdina um 30 km, þá skil ég að sjálfsögðu eins og allir aðrir þörfina og hagkvæmnina í því að byggja þá brú.

En það, sem kemur mér til að standa upp, er fjármögnunarleiðin sem hæstv. ráðh. minntist á. Það er happdrættisskuldabréfalán til að leysa þennan vanda að upphæð 5–6 þús. millj. kr., ef vel ætti að vera. Ég vona að ég fari þar ekki rangt með, en alla vega talaði hann um happdrættisskuldabréfalán. Nú vitum við að ríkissjóður á í gríðarlegum erfiðleikum með að standa í skilum vegna happdrættislána sem tekin voru fyrir 10 árum. Eins og komið hefur fram hafa hverjar 100 þús. kr. hækkað á þessum 10 árum í 1200 þús. kr. Og hvort það er sagt í gríni eða alvöru, þá getur ríkissjóður ekki staðið í skilum við handhafa þessarar skuldabréfa á gjalddögum. Hann þarf þess vegna að gefa út ný happdrættislánaskuldabréf. Þetta getur verið sagt í gríni en ég hef tekið það sem staðreynd þegar ég hef heyrt þetta sagt.

Ég er hræddur við þessi happdrættislánaskuldabréf og hef hingað til talið rétt, áður en lengra er gengið á þeirri braut, að láta fara fram athugun t.d. á vegum fjmrn. eða hagdeildar Seðlabanka Íslands, hvað peningakerfi þjóðarinnar þoli af slíkum lánum, sem tekin eru í samkeppni við hið almenna lánakerfi þjóðarinnar og hljóta á einhvern hátt að hefta eðlilega sparifjármyndun í peningastofnunum. Framkvæmdir þær, sem gerðar eru með slíkum lánum eins og happdrættisskuldabréfalánum, eru til viðbótar þeim framkvæmdum, sem þjóðarbúið getur staðið undir af eðlilegu framkvæmdafé, eins og er áætlað í fjárl. hverju sinni. Ég held að við séum að gera hér of mikið á of skömmum tíma fyrir of lítið eigið fé og e.t.v. fyrir of dýrt fé.

Ég held að það sé hættulegt að vera í samkeppni um sparifé þjóðarinnar á þann hátt sem hér er að staðið, að mínu mati er það stórhættuleg stefna. Ég hef áður komið að þessu máli á sama hátt í þessari hv. d. og ég vildi gjarnan að sú könnun, sem ég minntist á að færi fram á vegum fjmrn. eða hagdeildar Seðlabanka Íslands, yrði látin fara fram áður en við tökum of mikið af lausafjármunum þjóðarinnar og festum varanlega og eigum svo við vanda að etja eftir á, sem við komumst ekki út úr, a.m.k. ekki með eigin afli.

Ég tel alveg nauðsynlegt að gert sé myndarlegt átak í vegamálum og á þann hátt sem hæstv. ráðh. minntist á áðan, og ég mun standa að því með honum á allan þann hátt sem ég tel mér mögulegt. En mér þætti eðlilegri aðferð við þær stórframkvæmdir, sem vegagerð um land allt er, að að henni yrði staðið á sama hátt og að stórvirkjunum okkar hingað til, það yrði gerð myndarleg áætlun um vegi með varanlegu slitlagi um allt land. Við gætum takmarkað það við einhvern ákveðinn km-fjölda, hvort við hefðum það 2 000, 3 000 eða 5 000 km., og það yrði gerð kostnaðaráætlun og þá fyrir alla landsfjórðunga í einu og síðan boðið út á alþjóðamarkaði á sama hátt og við höfum gert hingað til og eðlilegt er þegar svona stór mannvirki eru í framkvæmd, sem sagt að þessu staðið á sama hátt og við gerum með okkar stórvirkjanir. Ég álít að með slíkum vinnubrögðum væri hægt að vinna varanlega vegagerð á Íslandi á ekki meira en 5–10 árum, miðað við að eitt stórt verktakafyrirtæki fengi verkið eða þá tvö eða fjögur minni, ef eitt verktakafyrirtæki væri í gangi í hverjum landsfjórðungi og öll á sama tíma.

Ég gerði það að gamni mínu áður en ég kvaddi mér hljóðs að hringja út í Seðlabanka og tala þar við einhvern úr hagdeildinni og biðja um upplýsingar um gengi bandaríska dollarans eins og hann stóð á þessum degi 1964. Gengi bandaríska dollarans þá var 43,06 kr., sölugengi. Gengi bandaríska dollarans í dag er 117,70, sölugengi. Gengi 100 þús. kr. í þessum happdrættislánaskuldabréfum 1964 var 100 þús. kr., í dag er það 1200 þús. kr. Það segir sig sjálft að það hlýtur að vera miklu ódýrara fyrir okkur að taka erlent lán og gera stórátak um allt landið í einu og borga þá á 10 árum þrisvar sinnum stofnkostnaðinn, heldur en að taka innlent lán og borga 12 sinnum stofnkostnaðinn að 10 árum liðnum.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri. Ég ætla bara að vona að hæstv. samgrh. sé mér sammála um það að endurskoða þurfi fjármögnunarleiðina, að átakið sé stórt og myndarlegt, sem hann hefur hér lagt fram, hef ég viljað leggja til að það verði enn þá stærra og öðruvísi að staðið, á sama hátt og okkar virkjanir eru, og að erlent lán verði tekið. Ég álít það vera a.m.k. helmingi ódýrara, ef ekki meira, heldur en happdrættislánaskuldabréfin. Að öðru leyti lýsi ég ánægju minni með það, sem fram kom í ræðu hæstv. ráðh., og mun styðja hann í hans góða starfi í þessa átt.