11.12.1974
Efri deild: 19. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (575)

95. mál, vegalög

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hv. þm., sem hér hafa talað,fyrir það hvað þeir hafa tekið þessu máli vel, og reyndar vissi ég fyrir fram að því yrði vel tekið, því að hér er um að ræða eitt af mestu málum þjóðar okkar. Næst atvinnumálunum eru samgöngumálin undirstöðuatriði að góðri afkomu í þjóðfélaginu. Það gleður mig að heyra það að undir þetta mál skuli vera tekið svo sem raun ber vitni um hér í hv. deild.

Ég vil í sambandi við þær upplýsingar, sem ég gaf hér áðan, geta þess að ég hefði haft ánægju af því að gefa enn frekari upplýsingar úr þessari merkilegu og vel unnu skýrslu frá Vegagerð ríkisins, sem ég er mjög þakklátur fyrir. Í þeirri áætlun er tekið fram um breytingu vega og annað þess háttar og flokkað niður í einstaka kafla, eins og ég gat um áðan, í sambandi við þá vegakafla sem hugsanlegt væri að leggja á varanlegt slitlag. Hér er unnið að stórri áætlunargerð. Það er vegurinn frá Hvolsvelli að austan hér vestur um og alla leið til Akureyrar, sem er aðalbrautin, unninn hér út í köflum og auk þess er svo til viðbótar tekinn, eins og ég gat um áðan, vegurinn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og stærstu hlutar vegarins um Suðurland til Austurlands. Þetta yfirlit gæti ég látið hv. samgn. fá þegar hún fer að vinna að þessu máli, sérstaklega þó þegar verður farið að vinna að vegáætluninni. Ég vil svo segja það að ég mun í samráði við Vegagerðina leitast við að halda áfram með þennan hring, sem hér er um að ræða, og taka það sem eftir er óunnið af þessu stóra máli.

Mér finnst líka ánægjulegt að heyra að hv. þm. eru sammála um að í þessu máli þurfi að taka heildarstefnu. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að gera slíka áætlun og það gladdi mig að heyra hér frá fleiri en einum þm. að það var síður en svo að þeim yxi þetta verkefni í augum, heldur vildu þeir tímasetja það með ekki minni hraða en ég nefndi hér áðan.

Út af því sem fram kom hér í ræðu hv. 7. landsk. þm., Helga F. Seljans, þá er að alveg rétt hjá honum að það er jafnnauðsynlegt að tengja innanhéraðs eins og milli héraða. En hvorugt má vanrækja og það verður að játast eins og er af okkur sem höfum setið lengi á þingi að við höfum verið meiri áhugamenn um að tengja vegina innan héraðs heldur en heildarveginn. Þetta hefur stafað einfaldlega af því að þegar við komum inn í þessi verk þá var svo mikið ógert í einstökum vegum úti um landsbyggðina að nauðsyn bar til að vinna að því máli. Það hefur verið gert, og eins og hv. 12. þm. Reykv. tók fram áðan höfum við leyst samgöngumálin með undraverðum hraða af svo fámennum hópi í þessu stóra landi. Hins vegar er orðin nú brýn nauðsyn að gera ærlegt átak í aðalveginum þar sem hann er hættur í raun og veru að þola þá umferð sem um hann fer, bæði bilafjöldann og bilastærðina, sem hvort tveggja er orðið allt annað en vegirnir voru byggðir til, bæði vegir og brýr, því að þetta nálgast það að bílarnir taki út í brúarhandriðin og þunginn sé líka ofraun þeim mörgum og svo er einnig með vegina, þess vegna þurfum við að gera um það ákveðna áætlun. Hin atriðin innan kjördæmanna tökum við aftur með venjulegum hætti við afgreiðslu vegáætlunarinnar eins og venja er til, og þess vegna fór ég ekki sérstaklega út í það í sambandi við þetta mál nú.

Það er eitt atriði í þessu frv. sem er nokkuð í samræmi við það, sem hv. 7. landsk., Helgi F. Seljan vék hér að, og það er ákvæðið um þjóðvegi heim í þéttbýliskjarnana sem eru að myndast, t.d. í kringum skólastaði og aðra slíka staði. Þetta hefur verið mikið vandamál. Þarna eru oft komnar margar fjölskyldur, getur verið 50–100 manns sem eru tengd slíkum stöðum, og væri því óeðlilegt að hafa ekki heimild til þess að mega taka þennan veg eins og aðra, þegar um einstaka bæi er að ræða, því að þarna eru oft miklu fleiri heimili en á þeim bæjum sem tengdir eru í enda á þjóðvegi.

Um það, sem hv. þm. sagði um þéttbýlisvegaféð í kaupstöðum og kauptúnum, vil ég í fyrsta lagi segja það að tveir stærstu þættirnir sem hafa verið í sambandi við þetta og fyrst og fremst þó sá stærsti, vegurinn gegnum Kópavog til Hafnarfjarðar, ríkið tók hann að sér að öllu leyti á s.l. ári, þannig að hann er ekki lengur tengdur þessu þéttbýlisfé. En rétt er það að þessi 10% fóru í þessa tvo staði, eins og kemur fram í grg., annars vegar Kópavog og hins vegar Selfoss. Gegnum Selfoss hefur nú einnig verið lokið við að gera varanlegan veg, svo að þessir stærstu staðir eru út úr dæminu og verða því fleiri sem njóta en ella svo að hér er um að ræða meira en tilfærsluna í prósentum. Hitt er svo annað mál að það er auðvitað hugsunin í þessu, eins og kemur fram í frv., að það séu þjóðvegirnir innan þessara kauptúna sem hafi forgang með þessu. Að því leyti er þetta þéttbýlisfé eins og kom fram í hans ræðu, að t.d. eins og á Reyðarfirði og Eskifirði mundi aðalvegurinn í gegnum þessa staði, sem tengdur er við þjóðveginn, verða að hafa þar forgang. En þetta léttir að sjálfsögðu fyrir í þessum byggðarlögum. Með þessari breytingu fá þeir miklu meira fjármagn og eru fljótari að leysa þetta verkefni, sem gerir það að verkum að það er líka auðveldara að fást við önnur verkefni að þeim loknum eða samhliða, eftir því sem hagkvæmt væri. Þess vegna er þetta nú veruleg breyting. Hins vegar það, sem hv. 2. þm. Vestf., Steingrímur Hermannsson, talaði um, að breyta hlutfallinu eins mikið og hann talaði um og miðað við höfðatöluregluna, var ekki talið rétt að lagt yrði til af hálfu rn. Ef það ætti að gerast, þá yrði það að vera í hv. Alþ. En hér er stigið verulegt spor einmitt í þá átt að bæta þarna um og gera kaupstöðunum og kauptúnunum léttara fyrir en ella, auk þess sem tekjurnar eru miklu meiri af hinu almenna gjaldi en áður hefur verið.

Ég tek undir það með hv. þm. Helga F. Seljan, að mér finnst það ekki óeðlilegt verkefni þó Byggðasjóður annaðhvort lánaði eða léti fé til vegagerðar, sem yrði nú sennilega fyrst og fremst lán, því að það eru fá byggðamál fyrir utan sjálf atvinnumálin, eins og ég áðan gat um, sem eru hagkvæmari en góðar samgöngur. Mér finnst því ekki óeðlilegt þótt Byggðasjóður með sínu aukna fjármagni lánaði til vegaframkvæmda í sambandi við ákveðin verk á ákveðnum stöðum til þess að greiða úr þessu máli.

Út af því, sem hv. 7. landsk. þm. sagði um sumarbústaðahverfin þá er hér eingöngu átt við hverfi. Þó að hann eða ég færi að byggja sumarbústað mundi það ekki þýða það að við fengjum veg þangað. Hins vegar væri sýslunefnd heimilt, eins og sýslunefnd Árnessýslu í þessu tilfelli, að taka þátt í kostnaði við veg heim að Ölfusborgum og sýslunefnd Mýrasýslu að taka þátt í kostnaði við vegagerð að Munaðarnesi til hverfanna sem hafa myndast á þessum stöðum. Nú er um þetta sem annað hægt að hafa mismunandi skoðanir. Hinn megum við ekki gleyma að það er verulega mikils virði fyrir héruðin að fá þessi stóru hverfi sem eiga veruleg viðskipti í byggðarlögunum og eru þeim þess vegna nokkur lyftistöng. Ég tel mig þekkja nokkuð til í mínu heimahéraði að þessu leyti og það má ekki gera litið úr því hve mikils virði það hefur verið fyrir héraðið að fá það stóra hverfi sem þarna hefur byggst upp og heldur áfram að stækka. Sama er með Ölfusborgir og slík hverfi, að það er ekki ósanngjarnt þó að sýslunefnd eða sýsluvegasjóður legði eitthvað til þessara mála þegar um slíkt er að ræða.

Ég tek undir með hv. 7. landsk. um myndun kaupstaða, sem sleppa við sýsluvegasjóðsgjöldin. Ég hef yfirleitt verið á móti öllu slíku og hef sagt, kannske í nokkru gríni, en þó held ég í meiri alvöru, að ég vonaðist til að öll mín ráð yrðu búin að vera í mínu heimabyggðarlagi áður en þar yrði gerður kaupstaður. Ég vil láta þessi kauptún vera í tengslum við byggðarlögin. Þessi byggðarlög hafa á margan hátt byggt þau upp og mér finnst sú stefna röng að slíta þau frá á þennan hátt. Ég hugsa að ég verði ekki svo gamall að ég skipti um skoðun á því

Út af því, sem hv. 2. þm. Vestf. sagði, þá nefndi ég einnig Djúpveginn sem þátt í hringvegi, og það er meira að segja svo að það er til fé til þess að halda því verki áfram, sem er afgangur af þeim happdrættisbréfum sem seld voru á s.l. ári.

Ég held að það sé ekki rétt hjá hv. 12. þm. Reykv. að ríkissjóður hafi ekki getað greitt þau ríkisskuldabréf sem hann hefur þurft að innleysa, heldur hafi það verið þannig að það hefur ekki verið áhugi á því að það yrði gert. Eigendurnir hafa gjarnan viljað endursegja þau þótt þeir gætu fengið þau borguð út. Ég veit að þessi lán, sérstaklega spariskírteinalánin, eru dýr því að þau eru tengd byggingarvísitölunni. En hinu er ekki að neita að það er líka óskaplegur kostnaðarmunur hvort við erum að framkvæma uppbyggingu í dag eða við vorum að framkvæma hana fyrir 10 árum eða svo. Á því er orðin geysilega mikil breyting.

Ég vil segja það í sambandi við mál hv. 12. þm. Reykv. sem því miður er hér ekki viðstaddur, að auðvitað er engri loku fyrir það skotið að til komi erlent fjármagn til þessara verka, ekki síst stórverka, og m.a. hef ég fregnað af því að það geti komið til að erlendir aðilar gerðu tilboð í stórverk og hefðu möguleika til að fjármagna það með hagkvæmum hætti. Ég vil ekki hafa neina fordóma í því né öðru. Það verður að fara eftir því sem metið er hagkvæmast og líka hvað hægt er að taka að láni í erlendri mynt.

Út af því, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan, þá tek ég undir það með honum að það er fátt sem fólkið úti á landsbyggðinni hefur meiri áhuga á en vegagerð og góðum samgöngum. Það er svo mikil breyting á þeirra lífi að hafa góðar samgöngur að brýna nauðsyn ber til þess að styðja vel að því máli.

En út af happdrættisbréfunum vil ég geta þess að þau hafa fleiri hliðar, sem ég tel til kosta, heldur en verðtrygginguna. Líka er það nokkur ánægja fyrir fólk að kaupa slík bréf til þess að stuðla að því að greiða fyrir samgöngubótum. Það er ekki nokkur vafi á því, að þetta hefur komið greinilega fram í sambandi við Skeiðarársandsveginn og þetta hefur einnig komið greinilega fram í sambandi við Djúpveginn. Ég held líka að það muni koma fram um einstaka þætti sem verða boðnir út. Að nokkru leyti hefur þetta orðið til þess að auka sparnað. Ég veit að það hefur að einhverju leyti farið í þetta fé, sem að öðrum kosti hefði lagst inn hjá lánastofnunum, en það hefur líka komið fé sem hefði að öðrum kosti ekki verið fest á þennan hátt eins og gert hefur verið. Hitt er ég honum sammála um, að nauðsyn ber til að gera þessi mál almennari. Ég hef löngum verið á þeirri skoðun að það væri afskaplega hæpið að halda áfram þeirri peningapólitík, sem við höfum gert, að hafa verðtryggingu á lánastarfsemi ekki meiri en gert hefur verið. Í því sambandi get ég vel tekið undir með honum um almennan verðbréfamarkað, að það sé skynsamleg leið. Það er svo t.d. með lífeyrissjóði hjá þeim aðilum sem hafa þá í óverðtryggðu fé, að þetta verður ekki að neinu. Því er brýn nauðsyn að taka þessi mál miklu fastari tökum og til alvarlegrar athugunar í framtíðinni. Ég get því verið honum sammála um það, að að þessu leyti er nauðsynlegt að taka þetta mál almennara en verið hefur. En kostur er líka við þessi happdrættislán að fólki þykir vænt um veginn sinn og það er stundum eins og mönnum þyki enn þá vænna um það sem þeir hafa lagt til að einhverju leyti.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar. Ég endurtek þakkir mínar og mun að sjálfsögðu verða til samstarfs við hv. n., þegar farið verður að vinna í þessu máli, og mun taka við ábendingum sem til betri vegar horfa, því að mestu máli skiptir að minni hyggju að ná upp heildarmynd af hinum stærri verkum okkar í vegagerð og gera áætlun um hvað við ætlum að vera fljótir að vinna það verk.