11.12.1974
Neðri deild: 18. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

79. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég hef ásamt þeim Garðari Sigurðssyni, hv. 5. þm. Sunnl., og Þórarni Sigurjónssyni, hv. 2. þm. sama kjördæmis, leyft mér að flytja á þskj. 85 frv. til l. um breyt. á l. nr. 102 frá 27. des. 1973, um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni. Frv. okkar gerir ráð fyrir að tekið verði inn í l. ákvæði, sem áður var í gildandi l., um heimild fyrir smærri báta til veiða í sérstöku hólfi við suðurströndina tiltekinn tíma á ári. Þetta ákvæði hljóðar svo í hinum eldri l., með leyfi forseta:

„Skipum, 105 brúttólestir og minni, er heimilt að veiða með botnvörpu og flotvörpu á tímabilinu 15. febr. til 16. apríl upp að suðurströnd meginlandsins á svæði, sem takmarkast að austan af linn, sem dregin er þannig, að Urðarvita og Faxaskersvita beri saman, og að vestan af línu réttvísandi suðvestur frá Þjórsárósi.“

Þannig voru ákvæðin í hinum eldri l. varðandi þetta atriði, og er 1. gr. í frv. okkar shlj. þessu ákvæði að öðru leyti en því, að nú eru austurmörk svæðisins miðuð við Faxaskersvita og austurkant Ystakletts í stað Urðarvita áður, en Urðarviti sá, sem miðað var við, er nú kominn undir hraun og verður því ekki lengur við hann miðað.

Ég vil mjög undirstrika að hér er aðeins um veiðiheimild að ræða í tvo mánuði á ári hverju og að á þessu svæði er hvorki um hrygningarsvæði að ræða né uppeldísstöðvar. Fiskur gengur inn á þetta svæði á vissum tíma að vetri til eins og annars staðar við suðurströndina en stöðvast þar ekki. Sama ákvæði og hér um ræðir er í gildandi l. um tiltekið svæði við Reykjanes, hið svonefnda Grindavíkurhólf, að öðru leyti en því að þar er veiði heimiluð frá 1. jan. til 15. sept.

Frv. það, sem við flytjum hér, er flutt eftir tilmælum Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðandi í Vestmannaeyjum, en veiðiheimildin, ef til kæmi, mundi að sjálfsögðu ná til allra báta hvaðan sem væri af landinu. Það sýndi sig, að meðan þetta svæði var opið til togveiða var það mjög mikilvægt fyrir þá báta sem stunduðu þessar veiðar við suðurströnd landsins. En togveiðar þarna valda engu tjóni, þar sem hvorki er um að ræða uppeldisstöðvar ungfisks né hrygningarsvæði, eins og ég hef áður bent á.

Ég vil í sambandi við þetta mál láta þá skoðun mína í ljós, að ég tel að íslendingar verði að nýta fiskimið sín eftir því sem föng eru á og með þeim veiðarfærum, sem best henta á hverjum tíma og hverjum stað, en gæta þess jafnframt að ofveiði eigi sér ekki stað. En í veg fyrir ofveiði verður að mínum dómi aðeins komið með því að alfriða tiltekin svæði á helstu hrygningarstöðvum ákveðinn tíma meðan á hrygningu stendur, eins og nú er gert t.d. á Selvogsbankasvæðinu, og einnig að alfriða tiltekið svæði á helstu uppeldisstöðvum ungfisksins allt árið, en ekki aðeins lítinn hluta úr ári, tvo mánuði, eins og nú er gert úti fyrir Norðausturlandi. — Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á áliti fiskifræðinga okkar, sem fram hefur komið í fjölmiðlum, að þegar sé um ofveiði að ræða á helstu uppeldisstöðvum ungfisks. Tel ég að Alþ. verði að gefa gaum að þessari aðvörun fiskifræðinga og endurskoða afstöðu sína og auka enn frekar friðun við þessar eldisstöðvar en verið hefur.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.