11.12.1974
Neðri deild: 18. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

79. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Þegar fjallað var um l. um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni í des. á s.l. ári voru gerðar fjölmargar breytingar á veiðiheimildum, eins og öllum þm. er kunnugt. Áður hafði verið heimilt að stunda togveiðar á minni skipum á tveim svæðum við suðurströndina upp að landi, þ.e. á Grindavíkursvæðinu, sem einkennt er með D. 6 í núgildandi l., og á því svæði, sem hér um ræðir. Grindavíkursvæðið var áfram opið, en þessu umtalaða svæði var lokað, enda fékkst ekki nein samstaða um það í hv. sjútvn. að hafa það opið áfram.

Nú hafa formenn í Vestmannaeyjum, einkum á minni bátunum, en þeir bátar eru margir, um 40 talsins og flestir gamlir og geta varla stundað fjarlæg mið, — formenn á þessum bátum hafa lýst miklum áhyggjum yfir lokun svæðisins og hafa mjög ákveðið farið fram á að það verði opnað aftur þótt ekki sé nema tvo mánuði ársins. Helstu mótbárur þeirra manna, sem ekki vildu halda svæðinu opnu á sínum tíma, voru þær að hér væri um smáfiskveiði að ræða og ekki kæmi til mála af þeim sökum að opna upp í land. Því er til að svara að af þessu svæði kemur að langmestu leyti góður fiskur, enda eru formenn þessir fullkomlega á því að fiskifræðingar hafi eftirlit með að ekki verði um smáfiskadráp að ræða, enda hafa sjómenn í Vestmannaeyjum löngum beitt sér fyrir verndun fisks, m.a. með því að hvetja til friðunar netasvæða og stækkunar á möskvum veiðarfæra, svo að eitthvað sé nefnt.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv., en ég treysti því, herra forseti, að þetta mál fái fljóta og góða afgreiðslu.