12.12.1974
Sameinað þing: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

Umræður utan dagskrár

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég hef beðið um orðið utan dagskrár vegna þess að undanfarna daga hefur sérstæður atburður verið að gerast norður í Húnaflóa, sem sprottið hefur af tilraunum sjútvrn. til að koma í veg fyrir starfrækslu rækjuvinnslunnar á Blönduósi.

Við umr. á Alþ. 5. febr. s.l. sagði þáv, sjútvrh., Lúðvík Jósepsson, að hann teldi óvinnandi veg að kveða upp úr um það að tilteknir menn eða tiltekin fyrirtæki á ákveðnu svæði sætu ein að afla. En núv. hæstv. sjútvrh. virðist hins vegar vera á annarri skoðun og telja sér mögulegt að úthluta sameiginlegum náttúruauðlindum til einstakra fyrirtækja, m.a. með því að binda rækjuveiðileyfi tveggja Blönduósbáta því skilyrði að þeir legðu ekki upp afla sinn hjá vinnslustöð í heimahöfn. Ýmsir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, hafa komið til mín og efast um lögmæti slíkra einokunarsjónarmiða nú á dögum. Eins og fram kom í sjónvarpinu nýlega hefur verið samin lögfræðileg álitsgerð um þetta efni að tilstuðlan þessara manna og hef ég aflað mér hennar. Hún er samin af hlutlausum aðila, Magnúsi Thoroddsen borgardómara, og fjallar um eftirfarandi spurningu:

„Er lögmætt að binda rækjuveiðileyfi skv. 10. gr. 1. mgr. 2. tölul. l. nr. 102/1973 því skilyrði að afli verði eða verði ekki lagður upp til vinnslu hjá tiltekinni vinnslustöð?“

Svar borgardómarans er á þessa leið, með leyfi forseta, en það er stutt:

„Samkv. hinu tilvitnaða lagaákvæði getur ráðh. veitt undanþágu til að stunda rækjuveiðar á tilteknum svæðum innan fiskveiðilandhelginnar. Skal binda leyfin þeim skilyrðum sem nauðsynleg þykja. Einnig er heimilt að miða leyfisveitingar við ákveðnar stærðir báta.

Við túlkun á því, hvaða skilyrði fyrir leyfisveitingu þyki nauðsynleg, ber að hafa í huga, hver er tilgangur l. nr. 102/1973, um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni. Tilgangur l. er tvímælalaust sá að vernda fiskistofna, þ. á m. rækjustofninn hér við land, gegn ofveiði. Því væri löglegt að setja í veiðileyfin þau skilyrði sem nauðsynleg eru til að ná þeim tilgangi, svo sem um gerð veiðarfæra, stærð skipa og fjölda, hámarksafla á skip, hámarksafla á tilteknu veiðisvæði eða skilyrði um fjölda úthaldsdaga eða togtíma svo að einhver hugsanleg skilyrði séu nefnd, en þó hvergi nærri tæmandi talin, enda mörg önnur skilyrði upp talin í þeim eyðublöðum sem rn. notar er það veitir leyfi þessi. Þegar hins vegar er farið að veita veiðileyfi með því skilyrði að afli verði ekki lagður upp til vinnslu hjá tiltekinni veiðistöð, þá getur það skilyrði ekki talist sett til að þjóna þeim tilgangi l., því að það þjónar engum verndunartilgangi, hvort rækjubáturinn A leggur upp afla sinn hjá vinnslustöð B eða C. Þá er tilgangurinn með skilyrðinu orðinn sá að vernda atvinnulíf á ákveðnum stað eða stöðum, en ekki sá að vernda fiskistofna. En slíkt skilyrði, sem er utan tilgangs l., tel ég óheimilt að setja í leyfi nema það byggðist á öðru settu lagaákvæði er heimilaði að setja slíkt skilorð. Þessi skoðun byggist fyrst og fremst á því að í 69. gr. stjórnarskrár Íslands, nr. 33 17. júní 1944, segir: „Engin bönd má leggja á atvinnufrelsi manna nema almenningsheill krefji, enda þarf lagaboð til.“ Með vísan til þessa stjórnarskrárákvæðis ber að skýra þröngt allar lagaheimildir sem leggja bönd á atvinnufrelsi manna.

Í grg. með frv. til l. nr. 102/1973, þar sem fjallað er um 2. tölul. 10. gr. l., er varðandi skilyrði einungis tekið fram:

„Hér er þó kveðið skýrt á um heimild ráðh. til þess að binda leyfin þeim skilyrðum sem honum þykja nauðsynleg, m.a. að miða leyfisveitingar við ákveðnar stærðir báta.“

Þetta er eðlilegt skilyrði og í samræmi við tilgang laganna. Á hitt er hvergi minnst að ráðh. hefi heimild til þess að setja skilyrði í veiðileyfi er miði að því að vernda rækjuvinnslu tiltekinna sjávarplássa sem atvinnugrein, enda væri slíkt annarlegt skilyrði miðað við tilgang laganna.

Þá er rétt að benda á það að í auglýsingu sjútvrn. þetta ár varðandi umsóknir um rækjuveiðileyfi á Húnaflóa og fleiri stöðum er þess getið að veiðileyfin verði bundin skilyrðum. Nokkur þeirra eru talin upp, en ekkert minnst á það að sett kunni að verða skilyrði eins og það sem hér er um að tefla. Enn fremur má á það benda að framangreint skilyrði fer í bága við grundvallarreglur um jafnræði þegnanna þar sem ekki er vitað til að rn. hafi bundið önnur rækjuveiðileyfi nefndu skilyrði.

Að endingu má á það benda að í svari sjútvrh. á hinu háa Alþ. 5. febr. 1974, sbr. Alþingistíðindi þar um, út af fsp. um rækjuvinnslu á Húnaflóasvæðinu kemur fram að sjútvrn. telur sig þá ekki hafa heimild til þess að barna mönnum að setja á stofn rækjuvinnslustöðvar. Þessi ummæli sjútvrn. eru til þess fallin að skapa góða trú hjá forsvarsmönnum Særúnar h.f. um það að sjútvrn. mundi ekki banna þeim að vinna rækjuafla á Blönduósi ef þeir kæmu sér upp vinnslustöð.“

Þá er tilvitnunum lokið, en ég hef borið þessa fsp. fram vegna þess að þeir menn, sem hér eiga hlut að máli, telja að þeir njóti ekki atvinnufrelsis samkv. stjórnarskrá landsins.