12.12.1974
Sameinað þing: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

Umræður utan dagskrár

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. undraðist þá lesningu sem ég las upp. Ég las tilvitnun úr grg. eftir borgardómara og breytti ekki einu orði. Það, sem snýr að mér, er saga þessa báts sem heitir nú Aðalbjörg HU 25. Þessi bátur var lengi skráður í Reykjavík og búinn að hafa hér langt úthald. Þá þótti Alþ. hlýða að loka Faxaflóa fyrir bæði þessum bát og mörgum öðrum vegna verndunarsjónarmiða almennt talað. Eigendur þessa báts og margir fleiri töluðu við mig og áreiðanlega fleiri þm. sem eru hér í salnum núna, og við stóðum að því ýmsir eða meiri hl. hér á Alþ. að loka Faxaflóa í þágu almennra fiskveiða. Þá voru þessir menn sjólausir ef svo má segja. Þeir urðu að sækja langt út í Miðnessjó. Síðan reyndu þeir að fiska á Breiðafirði. Þeim var bannað það líka. Síðan reyndu þeir að fiska á Húnaflóa, þessir ungu menn sem standa að þessum bát. Þeim var bannað það líka. Og mælirinn er raunverulega fullur gagnvart þessum mönnum, ekki af því að þeir skilji ekki að það eigi að veiða fiskinn með ákveðnum hætti á ákveðnum tíma. Mér er það alveg nýtt, miðað við það sem þeir hafa talað við mig, ef þeir hlíta því ekki að hætta í dag ef tímabilið er úti í dag. Það er alveg nýtt fyrir mér. Þeir hafa marglýst því yfir í mín eyru að þeir muni sætta sig við það.

Það, sem þeir átta sig ekki á gagnstætt stjórnarskránni, er sú skerðing á atvinnufrelsi og að skipstjórnarréttindi þeirra gildi ekki nema á vissum svæðum. Það kom upp ein spurning, hvort bilstjóri, sem ekur leiðina Akureyri – Reykjavík, þurfi að fá sérstakan bílstjóra sem aki í Húnavatnssýslu. Það er kannske langsótt, en það mætti alveg eins hafa það með sama hætti ef vegirnir í Húnavatnssýslu eru sérstaklega viðkvæmir. Þessir menn eiga ekki svo auðveldan leik og þetta var meira gert til þess að vekja athygli á málinu varðandi framtíðina, með hvaða hætti við komum því fyrir, að þessum mönnum séu tryggð eðlileg starfsskilyrði við landið, — þessum mönnum sem eru á smábátum, — þegar það þykir rétt að binda þetta við búsetu og margt fleira. Alþ. verður að gera sér grein fyrir því að þessir menn hafa enn þá full starfsréttindi eða eiga að hafa. Hins vegar hefur þótt hlýða að loka vissum svæðum í heild, en ekki úthluta þeim á ákveðnar verksmiðjur eða ákveðna báta varðandi ákveðið aflamagn. Og verksmiðjan, sem um er rætt hérna, var viðurkennd síðar. Ég veit ekki annað en Fiskmat ríkisins hafi viðurkennt hana sem fullgilda vinnslustöð, og þá ætti það að vera frjálst. Þessi bátur og þessir tveir, sem aðallega er nú rifist um, hafa landað til skiptis á Hvammstanga og Skagaströnd og hafa þá þegar brotið af sér ef þeir hafa aðeins átt að landa á einum stað.

Þetta vildi ég að kæmi fram, herra forseti, jafnframt því sem ég þakka fyrir að mér skyldi vera gefinn kostur á að vekja athygli á þessu máli.