12.12.1974
Sameinað þing: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég skal fúslega taka undir það sem hv. 11. þm. Reykv. sagði hér áðan að það er vitaskuld mikið vandamál sem þessir bátar syðra eiga við að stríða. En vandamál þeirra verður ekki leyst á þann hátt að þeir flykkist til staða þar sem veiðar eru háðar leyfum og þar sem er takmarkaður afli. Ef við fjölgum þessum bátum verulega á þessum svæðum, þá er afkoma þeirra, sem fyrir eru, hrunin, enda hefur ekki gengið á öðru, frá því að ég kom í sjútvrn., en bréfum og sendinefndum frá þeim svæðum við Húnaflóa sem hafa stundað rækjuveiðar og rækjuvinnslu. Þeir hafa bent hvað eftir annað á þá miklu hættu sem er samfara því að fjölga verksmiðjum og fjölga bátum verulega frá því sem verið hefur, að þá sé í húfi þeirra afkoma. Og ég verð að segja það að þeir, sem eru brautryðjendur í rækjuveiðunum við Húnaflóa, eru strandamenn, eins og hv. 2. þm. Vestf. gat um, aðallega hólmvíkingar. Þessir menn þraukuðu mörg aflaleysisár við óskaplega erfiða afkomu og loksins þegar rækjan finnst þarna, þá byggist þeirra atvinnulíf upp að nýju. Síðan kemur Drangsnes, þar á eftir kemur Skagaströnd sem átti sína miklu erfiðleika og svo síðast Hvammstangi. Svo kemur hér einn þm., sem var í framboði á Vestfjörðum, landsk. þm., og er alveg undrandi á að það skuli ekki vera gert allt í senn — fjölgað sem sagt verksmiðjum og bátum, öllu eftir hentugleikum. Og auðvitað tekur 2. þm. Austf. undir, því að honum finnst lofið gott, að vera talinn eins frjálslyndur og hann hefur fengið að heyra frá kapítalistunum að undanförnu. Hv. 8. landsk. þm. spurði: Verður þessu ákvæði beitt gagnvart Djúpuvík, að banna stækkun verksmiðjunnar? Hv. 2. þm. Vestf. hefur nú leiðrétt það, þar er engin verksmiðja fyrir. Mér finnst þetta bera vott um mikinn ókunnugleika hjá mönnum sem búnir eru að vera í framboði í einu kjördæmi. Ég hef ekki beitt neinu ákvæði um að banna þessa verksmiðju á Blönduósi og ekki heldur þar af leiðandi á Djúpuvík, af þeirri einföldu ástæðu að ég hef ekki lagalegt leyfi til þess. Þess vegna er verksmiðjan á Blönduósi komin upp. Ég hélt að þetta væri auðskilið og ég vona að þm. skilji þetta núna.

Hitt er annað mál, samræming vinnslu og veiða verður að eiga sér stað ef á ekki að fara út fyrir allt velsæmi í þessum efnum þannig að það eigi að leggja niður atvinnulífið á þessum stöðum. Það verður ekki byggt upp í einu vetfangi, því skulu menn gera sér grein fyrir. Hér er ekki um neinar þvingunarráðstafanir að ræða. Alþ. er sammála um að beita þeim ákvæðum að þessar veiðar skuli háðar leyfisveitingum samkv. lögum. Þetta hefur verið framkvæmt af mörgum sjútvrh. á alveg sama hátt hvað snertir bátafjölda og allt í sambandi við veiðarnar, og það hef ég gert líka, að öðru leyti en því að þeir hafa aldrei beitt stærðarákvörðunum, en það hef ég sannarlega í huga að gera fyrir næstu vertíð til þess að koma í veg fyrir stórfellda fjölgun þessara báta á öllum þessum svæðum. Við skulum ekki heldur láta það liggja á milli hluta að þessar veiðar hafa verið svæðisbundnar, og það hefur ekki gilt fyrir reykvíkinga eina. T.d. um veiðar við Ísafjarðardjúp, þeir sem átt hafa báta á Súgandafirði hafa ekki fengið rækjuveiðileyfi við Ísafjarðardjúp, hvorki hjá Eggert G. Þorsteinssyni, Lúðvík Jósepssyni né mér. Þetta hefur veríð algjörlega svæðisbundið. Sama er að segja um Arnarfjörðinn. Sama er að segja um Húnaflóann. (Gripið fram í.) Nei, ég var ekki að svara þessum hv. þm. Ég var búinn að því. Þessi svæði eru bundin við heimabáta. En ef við ætlum að hafa einhverja skynsemi og skipulag á sambandinu á milli vinnslu og veiða sem háðar eru sérstökum leyfum, þá sé ég ekki annað fært en að það frv., sem hér liggur fyrir, verði samþ., annað hvort óbreytt eða þá með einhverjum breyt. sem ekki breyta markmiði þess. Ég vænti þess að Alþ. beri gæfu til þess að samþ. slíkt frv. þó að það sé ekkert skemmtilegt að hafa slík ákvæði í höndum. Ég gæti mjög vel fellt mig við að einhver ákveðin stofnun hefði það, en ekki sjútvrn., því að rækjumálin hafa tekið þar allt of langan tíma.