12.12.1974
Sameinað þing: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (608)

Umræður utan dagskrár

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki teygja lopann í þessum umr. frekar en þegar er orðið, en ég vil aðeins leiðrétta það sem hv. 2. þm. Vestf., Steingrímur Hermannsson, sagði hér áðan og hv. 11. landsk. þm. líka, að hér væri um eitthvert nýtt ákvæði að ræða í lögum um uppsetningu slíkra verksmiðja sem hér um ræðir. Sannleikurinn er sá að þetta er búið að vera um áratuga skeið í gildi í fiskmatslögum og er því ekkert nýtt.

Hitt langar mig til að spyrja hæstv. sjútvrh. um: Ef það er rétt sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson segir, að veiðarnar á þessum svæðum hafi verið komnar á hættustig, var það þá rétt af Framkvæmdastofnuninni, sem þeir áttu báðir sæti í, hæstv. sjútvrh. og hv. þm. Steingrímur Hermannsson, 2. þm. Vestf., að gefa leyfi til byggingar á nýrri verksmiðju á Djúpuvík? Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að þessir menn geri hreint fyrir sínum dyrum. Þeir segja á sömu stundinni að veiðarnar séu á algjöru hættustigi á þessu svæði, en veita jafnframt fjármagn til byggingar verksmiðju á svæðinu sem hlýtur óhjákvæmilega að framkalla auknar veiðar.

Það er rétt hjá hæstv. sjútvrh. að rækjumálin hafa tekið mikinn tíma alls starfsliðs rn. og ráðh. sjávarútvegsmála undanfarin ár. En það hefur alltaf tekist svo giftusamlega til að um þessi mál hefur náðst samkomulag við sérfræðinga á þessu sviði, þ.e.a.s. fiskifræðingana, og hlutaðeigandi verksmiðjur sem eðlilega kalla á aukið hráefni.

Ég tel að það sé nauðsynlegt að þessir tveir þm., hæstv. ráðh. og hv. þm. Steingrímur Hermannsson, svari síðar fyrir það að auka á þessa hættu með Djúpuvíkurverksmiðju og hve mikið þessi hætta eykst með tilkomu Blönduósverksmiðjunnar.