12.12.1974
Sameinað þing: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég tók eftir því að hæstv. forseti sagði að það væri ekki rétt, sem ég hefði haldið fram, að það hefði ekki verið takmarkaður tími á þennan hátt þegar um umr. utan dagskrár hefði verið að ræða. Það má vel vera að það finnist þess einhver dæmi að slíkt hafði verið gert, en það er líka auðvelt að sýna það, að farið hafa fram á hverju einasta þingi langar og miklar umr. utan dagskrár án þess að tími hafi verið takmarkaður. Og ég held að þessar umr. hafi greinilega leitt það í ljós, að ef um er að ræða umr. utan dagskrár, þá er ekki réttmætt að takmarka þær á þennan hátt. Ég vonast nú til að hæstv. forseti athugi það framvegis að þetta fær illa staðist.

Ég fyrir mitt leyti hef ekki hér tekið neina afstöðu til Húnaflóamálsins sem slíks. Ég get tekið undir það sem hér hefur verið sagt um þörf margra byggðarlaga þar til þess að rétta sig af atvinnulega. Hæstv. sjútvrh. meira að segja leyfði sér að snúa þannig út úr orðum mínum, að ég væri að taka hér undir kröfur um fjölgun báta og fjölgun vinnslustöðva. Allt er þetta auðvitað algerlega út í hött. Ég hef einmitt tekið það fram að ég er sammála um að það verði að takmarka, þegar svo stendur á, fjölda báta og það þurfi að setja skilyrði á svipaðan hátt og rn. setti. Ég lýsti því yfir að ég væri sammála þessu og ég geri mér grein fyrir því að hér er um svæðisbundnar veiðar að ræða. Það, sem ég tel vera kjarnann í þessu máli er ekki það hvernig atvinnulífið á að vera á Skagaströnd, Blönduósi eða Hólmavík. Kjarninn í málinu er: Á að fara að binda veiðiheimildir, veiðileyfi báta við það í hvaða vinnslustöð þeir leggja upp afla sinn, og á að gefa einhverjum ráðh. eða embættismönnum hans heimild til að ákveða að sá afli, sem veiddur er í Ísafjarðardjúpi, sé unninn í tilteknu frystihúsi? Það er sem ég sjái það, ef ég hefði t.d. beitt þessu þannig að rækjuvinnslubátarnir á Ísafirði hefðu átt að leggja allan sinn afla upp í eitt eða tvö frystihús þar, af því að það væri hagkvæmara. Þá er ég nú hræddur um að einhverjir hefðu risið upp. Ég fyrir mitt leyti er á móti þessu. Ég tel það rangt. Ég tel hins vegar eðlilegt að þær lánastofnanir, sem fjalla um það hvort á að veita ný stofnlán til nýrra fyrirtækja, geta neitað að bæta við lánum umfram það sem orðið er. Hitt er í rauninni algjör nýlunda og ég er hræddur um að úr því verði mikil flækja þegar málið verður komið þannig að einn ráðh. eða embættismenn hans geta sett það skilyrði í sambandi við veiðileyfi að mennirnir leggi upp afla sinn hjá tilteknu fyrirtæki, en þannig er einmitt það frv., sem hæstv. sjútvrh. hefur lagt hér fram. Að þessu leyti til er ég á móti þessu frv.