12.12.1974
Sameinað þing: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. sagði áðan að þetta mál hefði tekið mikinn tíma í hans rn. Það skal mig ekki undra, ef það er rétt, eins og virðist hafa komið fram við þessar umr., að hann skilur ekki um hvað málið fjallar, því að í þessum umr. hefur hann talað þvert á það sem við hinir höfum verið að segja. Hann hefur talað algjörlega í kross við okkur. Hann er alltaf að fjasa um það, að ég og aðrir, sem hér hafa tekið til máls og gagnrýnt þessar ákvarðanir hans, viljum opna öll rækjumið fyrir öllum bátum. Hann fjasaði um þetta þegar það frv. var til umr. hér í þinginu, sem hefur dregist inn í þessar umr., og hann fjasar um það enn, en það er alls ekki um það sem við erum að tala. Við erum ekki að fara fram á að öll rækjumið séu opnuð öllum bátum. Hér er um það að ræða að sjútvrn. virðist ætla að ráða því hvar rækjuafli er unninn án þess að hafa til þess lagalega heimild. Það er málið, sem verið er að ræða um, og Flóabardagi hinn nýi, eins og hann hefur verið kallaður, stendur um það, hvort sjútvrn. eigi að standa í vegi fyrir nýrri rækjuverksmiðju á Húnaflóasvæðinu. Ef sjútvrh. hefur eitthvað misskilið þetta, þá er hægt að leggja fyrir hann hreina og klára fsp., sem mundi hljóða svo:

„Hefur ráðh. á móti því, að þeir bátar, sem þegar hafa fengið veiðileyfi í Húnaflóa og uppfylla öll skilyrði, semji við rækjuvinnslustöðina á Blönduósi um vinnslu síns rækjuafla?“

Ástæðan fyrir því að ég tók til máls hér áðan, var sú, að á sama tíma og rn. grípur til þessara aðgerða gegn nýrri rækjuverksmiðju á Húnaflóasvæðinu, verksmiðjunni á Blönduósi, er önnur ný verksmiðja að taka til starfa í Djúpuvík, og ég spurði hvort ætla mætti að sjútvrn. beitti sömu aðferðum gagnvart þeirri nýju verksmiðju við Húnaflóa og það hefur beitt gegn hinni nýju verksmiðju á Blönduósi.

Hv. 2. þm. Vestf. talaði um mikla afkastagetu verksmiðjanna sem fyrir eru á Húnaflóasvæðinu. Þetta er rangur útreikningur. Hann er miðaður við að verksmiðjurnar séu keyrðar 24 klst. á sólarhring og yfir lengri tíma en vinnslutíminn er. Ég vil taka það fram líka, — ég er alveg að ljúka máli mínu, forseti, — ég vil taka það fram líka, að ég hef í höndum upplýsingar, staðfestar af Hafrannsóknastofnuninni, um afla á Húnaflóasvæðinu, rækjuafla, sem gjörsamlega stangast á við þá fullyrðingu hv. 2. þm. Vestf., að þar sé um ofveiði að ræða. Á s.l. 4 árum, segja þessar tölur okkur, að rækjuaflinn hafi farið vaxandi ár frá ári yfir veiðitímann og ár frá ári á togtíma, og það bendir ekki til þess að stofninn sé í hættu, og það bendir ekki til þess að sjútvrn. eigi að gripa til þeirra ráðstafana gegn verksmiðjunni í Djúpuvík á Ströndum að nota sömu aðferðir gegn henni eins og nú er verið að nota gegn verksmiðjunni á Blönduósi.