12.12.1974
Sameinað þing: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

Umræður utan dagskrár

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það verður vitanlega ekki ofsögum sagt af því alvarlega ástandi sem ríkir nú í orkumálum Austurlands. Nú á fyrstu frostdögum að kalla eftir einmunatíð, a.m.k. að því leyti að úrkoma hefur verið töluverð á liðnu hausti, þá er svo komið að raforkuskortur er til þeirra þarfa, sem nú eru fyrir hendi. Ekki er einvörðungu að það blasi við að um algeran skort sé að tefla til þeirra hluta, sem þörf er á í sambandi við vinnslu sjávarafurða á loðnuvertíð. Það er þegar hafin skömmtun á rafmagni og ástandið er blátt áfram að segja hættuástand, að vísu ekki enn í jafnstórum stíl og varð í Austur-Skaftafellssýslu á orkuveitusvæði Smyrlabjargaár á s.l. hausti. En það eru öll teikn á himni um að svo kunni að verða innan tíðar.

Þær upplýsingar, sem nú komu fram frá hæstv. iðnrh. um ástandið í Austur-Skaftafellssýslu, ern ekki til þess að vekja mönnum bjartsýni, þar sem nú, þrátt fyrir tíð sem verið hefur miklu betri en var í fyrra, er rétt um það bil svo komið að vatnið er að verða búið í gömlu stíflunni og í hinni nýju er aðeins vatnsmagn til hálfs mánaðar orkugjafar.

Það er auðvitað hryggilegt, að svo skuli hafa til tekist varðandi Lagarfossvirkjunina sem raun ber vitni um. Í apríl 1973 kom hér til umr. fsp. frá mér til hæstv. þáv. iðnrh., hv. núv. þm. Magnúsar Kjartanssonar. Þar tók ég það fram að þær fréttir hefðu borist frá tæknimönnum að fullkomin ástæða væri til að óttast, að um drátt á afgreiðslu véla til virkjunarinnar yrði að tefla frá Tékkóslóvakíu. Í svari sínu þennan dag upplýsti þáv. iðnrh, að engin þau atvik hefðu upp komið, að nein ástæða væri til að ætla að þetta þyrfti að óttast, þannig að við þá afgreiðslu yrði staðið sem um hefði verið samið, miðað við 1. júlí 1974. Nú upplýsir hæstv. iðnrh., sem hann hefur áður gert, þá staðreynd að hér verður um verulega seinkun að tefla fram á vetur, enginn veit nema það verði fram á vor, þannig að e.t.v. verður hér um seinkun allt að einu ári að ræða. Er auðvitað ástæða til að ætla að það geti brugðið til beggja vona, þar sem það tekur ráðh, í Tékkóslóvakíu mánuð að svara skeyti, eins og fram kom.

Ef betur hefði til tekist um þetta mál væru ástæðurnar allt aðrar á Austurlandi en menn hafa nú fyrir augum, þar sem hér hefði þá bæst inn á nýtt afl, 7.5 mw., að segja ef Lagarfljót hefði þá skilað því vatnsmagni sem þarf til að knýja vélasamstæðuna, skilað því afli, sem um getur. En það er allt annað mál, að því miður hafa komið nýjar upplýsingar um, að mikil hætta sé á að á vetrarlagi að um allt of lítið vatnsmagn verði að ræða í Lagarfljóti til þess að nokkur líkindi séu til að þessu afli verði skilað.

Ég fagna þeim ummælum hæstv. iðnrh., að allt verði gert sem mögulegt er til þess að bægja frá því hættuástandi, sem blasir við í þessum málum á Austurlandi, og lögð verði megináhersla á, eins og hann sagði, að gera allt sem í hans valdi og rn. stendur:til þess að forða því, að slík ókjör dynji yfir eins og við höfðum fyrir augum í fyrra í Austur-Skaftafellssýslu, sem öll teikn eru um nú að kunni að endurtaka sig um allt Austurland.