12.12.1974
Sameinað þing: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

Umræður utan dagskrár

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir skýr og ágæt svör um þetta efni með litlum fyrirvara. Það kom fram í hans ræðu og hans svari að ástandið í þessum málefnum á Austurlandi og víðar raunar, ef farið er að ræða þetta almennt, er vægast sagt mjög alvarlegt og það getur skollið á neyðarástand hvenær sem er. Það, sem menn óttast kannske hvað mest þar eystra, er að sumar af dísilvélunum, sem notaðar eru til þess að framleiða raforku, eins og t.d. stærstu stöðvarnar eða stærstu vélarnar í Neskaupstað og Seyðisfirði, sem framleiða samtals 3.4 mw., 1700 kw. hvor, ef þær bili, þá geti skapast þarna þegar í stað algert neyðarástand, vegna þess að það tekur nokkuð langan tíma að afla varahluta og gera við ef bilanir verða. Þannig er alveg sýnt að ekkert má út af bera í þessum efnum til þess að algert neyðarástand raunverulega verði í þessum málum. Jafnvel nú þegar álagið er miklum mun minna en það verður, þegar vertíðin er komin í gang, þegar frystihúsin eru farin að vinna með fullum afköstum og af fullum krafti, bæði við vinnslu bolfisks og loðnufrystingu, og síðan þegar 11 síldarverksmiðjur eru komnar í ganginn og farnar að vinna loðnuna er ástandið alvarlegt. Hér er um mjög hættulegt ástand að ræða, sem þarf að gefa mjög glöggan gaum að þegar í stað.

Ég vil enn fremur þakka hæstv. iðnrh. fyrir yfirlýsingu hans um að hann muni beita sér fyrir því að allt verði gert sem unnt er til þess að leysa þann mikla vanda, sem þarna er á ferðinni, og leggja áherslu á það, að eins og mál horfa nú orðið sýnist sú lausn, sem þarna kemur helst til greina, nægilega fljótvirk, þ.e. að festa kaup á þessum dísilvélum, sem hægt er að kaupa í Bandaríkjunum. En þær eru á sérstökum vögnum, sem hægt er að tengja við bíla og keyra á milli staða, þannig að þær eru mjög hagkvæmar til þess að færa til, ef nauðsyn ber til þess. Ég vil vænta þess, að það yrðu þegar í stað gerðar ráðstafanir til að festa kaup á þessum vélum.

Ég minntist á það í fyrri ræðu, að skynsamlegt væri að athuga að nota gamlar vélar, sem setja má upp með sáralitlum fyrirvara og tengja við þær rafal og væru notaðar 11/2–2 mánuði með sæmilegum árangri. Ég kann ekki skil á því, að hve miklu leyti væri hægt að leysa þessi mál á þennan hátt. En mér er kunnugt um að það er þess vert að hyggja að þessum möguleika, þar sem tími er svo mjög skammur.