12.12.1974
Sameinað þing: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (624)

Umræður utan dagskrár

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég hef borið fram formlega fsp. varðandi þetta mál í þinginu, og ég vænti þess að þessi mál liggi ljósar fyrir þegar sú fsp. kemur til umr.

Í sjálfu sér er það vandamál, sem blasir við á Austurlandi, ofureinfalt. Það er þannig háttað, að fyrir stuttu, þegar var fjögurra stiga frost, var raforkuþörfin 8 mw. á Grímsársvæðinu. Það afl, sem er til staðar á þessu svæði, er 7 mw. í dísilafli, og það er ekki hægt að vænta þess að meira afl en 1 mw verði til staðar í vatnsafli, þannig að það er rétt svo að þeirri þörf sé fullnægt sem nú er til staðar. En þegar vertíðin fer þar í gang og þær loðnuverksmiðjur, sem eru á þessu svæði, komast í gagnið, þá þurfa þessar verksmiðjur um það bil 2 mw., þannig að ef ekki kemur til frekara afl, þá er það í sjálfu sér ósköp einfalt, að það er ekki hægt að skammta þetta rafmagn annars staðar en hjá þessum sömu loðnuverksmiðjum. Það kemur ekki til, að það verði hægt að skammta 2 mw. í venjulegri neyslu, þannig að það er ekkert annað sem blasir við en það, að þessar sömu verksmiðjur fari hreinlega ekki í gang. Þetta er vandamálið, stórkostlegt vandamál, en liggur mjög ljóst fyrir. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu.