12.12.1974
Sameinað þing: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (625)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Gils Guðmundsson):

Fleiri hafa ekki kvatt sér hljóðs og er þessum umr. utan dagskrár þar með lokið. — Ég vil þó í framhaldi af þeim, þar sem hinn almenni fundartími hefur nú farið algerlega í umr. utan dagskrár, lýsa þeirri skoðun minni, að ég tel mjög æskilegt, að forsetar Alþingis og formenn þingflokkanna ræddu það mál, með hverjum hætti rétt væri að haga reglum um þessar umr., því að það hefur óneitanlega átt sér stað áður að það hafi komið fram mismunandi sjónarmið alþm. í sambandi við umr. utan dagskrár. Ég tel eftir atvikum rétt að minna á það, sem ég sagði um þetta mál 13. febr. s.l., þar sem skoðun mín er algerlega óbreytt, en ég sagði þá efnislega eitthvað á þá leið, að ég teldi eðlilegt að þegar um væri að ræða mál, sem mjög auðvelt væri að bera fram um fsp. með venjulegum hætti, þá væru umr. utan dagskrár ekki leyfðar eða ef þær væru leyfðar um slík mál, þá teldi ég eðlilegt að svipaðar reglur giltu eins og um almennar fsp., en reynt væri að koma í veg fyrir að umr. utan dagskrár snerust upp í almennar stjórnmálaumr., svo sem óneitanlega hefur átt sér stað, þó að það hafi alls ekki verið í sambandi við tvennar umr. utan dagskrár sem eingöngu snerust um þær fsp. sem óskað var svara við.

Ég vil árétta það, að í þingsköpum eru engin ákvæði um umr. utan dagskrár og þar af leiðandi ekki um það, hvernig þær skuli fara fram. Ég vil árétta það, að ég tel æskilegt að hægt yrði, t.d. af hálfu forseta þingsins og formanna þingflokka, að finna þarna eðlilega og skynsamlega leið til þess að það gæti legið nokkurn veginn ljóst fyrir með hverjum hætti slíkar umr. skuli fara fram. Umr. utan dagskrár eru, að því er ég best veit, mjög gamlar, mjög gömul „tradisjón“ hér á Alþ., og ég hygg, að enginn telji ástæðu til eða rétt að þær leggist niður. Hins vegar hljóta þær að þurfa að vera innan skynsamlegra takmarka og ekki að snúast í það að verða almennar stjórnmálaumr., eins og stundum hefur átt sér stað.

Þess hefur verið farið á leit, að þingfundi verði ekki lengur fram haldið vegna þingflokkafunda, að ég hygg, og verða þess vegna tekin af dagskrá 8.–13. dagskrármál.