13.12.1974
Efri deild: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (628)

95. mál, vegalög

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Samgöngumál þjóðarinnar eru áhugaefni allra landsmanna og þess vegna vil ég nota tækifærið að lýsa yfir ánægju með ýmsar breytingar sem koma fram í þessu frv.

Í fyrsta lagi kemur í ljós við lestur þessa frv., að það er áætlað og reiknað með að áætlunargerð Vegagerðarinnar verði bætt að nokkru leyti. Það má segja að Vegagerð ríkisins hafi riðið á vaðið með allgóða áætlunargerð ríkisstofnana hér á landi og hefur orðið allmikið ágengt í þeim efnum, en þetta frv. ber það með sér samkv. 2. gr. að meiri sveigjanleiki verður í áætlunargerð, þannig að ekki er eins rígbundið við þá upphaflegu áætlun sem gerð er.

Eins vil ég fagna því að sýslusjóðir verða undanþegnir verulegum kostnaði í sambandi við gerð vega, og eins er ákvæði í 11. gr. um varanlega gatnagerð í þéttbýli verulega til bóta. Ég vil því koma því á framfæri við þá n. sem fær þetta frv. til athugunar, að það verði tekið til athugunar að lækka enn 200 íbúa markið, t.d. niður í 100, vegna þess að ég tel mjög erfitt að binda markið við 200 íbúa. Það gætu komið þarna inn örfá þorp sem ekki eru mjög fjölmenn, en ættu að mínum dómi verulegan rétt á að koma inn.

Vandamál sveitarfélaga við lagningu varanlegra gatna í þéttbýli eru mjög mikil. Þetta frv. mun að sjálfsögðu, ef það verður að 1., bæta þar allmikið úr. Ég tel þó nauðsynlegt að til viðbótar þessu komi til breyting á skiptingu þéttbýlisvegafjár, og í öðru lagi tel ég eðlilegt að Byggðasjóði verði heimilað að lána til sveitarfélaga vegna varanlegra gatna í þéttbýli. Ég tel að hlutverk Byggðasjóðs eigi að vera fyrst og fremst að efla atvinnulíf úti á landsbyggðinni. Ég tel þó að það komi mjög til álita að hann láni til þessara framkvæmda, þ.e.a.s. varanlegrar gatnagerðar í þéttbýli sem ekki kemur undir þessi lög.

Það var allmikið rætt um það við þá umr., sem fór fram á síðasta fundi d., að það væri mjög nauðsynlegt að leggja varanlegt slitlag á vegi landsins og það mundi spara þjóðinni stórkostlega fjármuni. Ég vil að sjálfsögðu taka undir það. En ég vil einnig geta þess, að það mun einnig spara þjóðinni stórkostlegt fé ef lagðir verða vegir um þau höft og þær eyður sem eru í vegakerfinu. Það er viða búið að gera góða vegi úti um land, en það er hörmulegt að sjá þær eyður sem víða eru í vegakerfinu og verða þess valdandi að sú fjárfesting, sem búið er að leggja í, nýtist alls ekki sem skyldi. Þess vegna mun það verða til þess, ef fyllt verður í þessar eyður, að spara þjóðfélaginu verulegar upphæðir. Ég vil aðeins geta þessa vegna þess að mér finnst rétt að líta ekki siður á þessa hlið málsins heldur en að leggja áherslu á lagningu varanlegs slitlags á helstu vegi landsins.

Það hefur verið rætt allmikið um happdrættisskuldabréf ríkissjóðs. Hefur verið rætt um að hér sé um stefnu að ræða sem sé hættuleg þjóðfélaginu vegna þess að fjármagn sé dregið út úr bankakerfinu. Ég vil mótmæla þessum fullyrðingum, vegna þess að ég tel að þessi happdrættisskuldabréf stuðli verulega að sparnaði í þjóðfélaginu. Sparnaður í þjóðfélaginu kemur ekki eingöngu þannig fram að menn leggi peninga í banka. Það eru ýmsir sem spara sitt fé á þann hátt að leggja t.d. í íbúðarhúsnæði, og að mínum dómi er það alger hártogun að halda því fram að allir þeir peningar, sem fara í happdrættisskuldabréf, færu endilega inn í bankastofnanir. Einstaklingar verða að fá að ráða því á hvern hátt þeir spara sitt fjármagn. Ég er þess fullviss að mikið af því fjármagni, sem fer í happdrættisskuldabréf, færi annars í ýmiss konar fjárfestingu, íbúðabyggingar og jafnvel hreina eyðslu, þannig að ég tel þarna um algera rangtúlkun að ræða.

Það er orðið mjög algengt meðal annarra þjóða að einstaklingar í þjóðfélaginu eigi þess kost að kaupa hluti í fyrirtækjum í atvinnulífi þjóðarinnar. Slíkir kostir eru ekki hér á landi. Að mínum dómi er mjög eðlilegt að almenningi í landinu sé gefinn kostur á því að fjárfesta í því mikilvæga fyrirtæki sem samgöngunet þjóðarinnar er, þannig að ég tel það alls ekki vera rétt að hér sé um hættulega stefnu að ræða. Ég tel hér um rétta stefnu að ræða sem stuðli að auknum sparnaði í þjóðfélaginu.

Það hefur komið fram frv. í Nd, um útgáfu happdrættisskuldabréfa fyrir hönd Vegasjóðs vegna framkvæmda við Norðurveg. Í sjálfu sér taldi ég þetta frv. vera óþarft, en þó hefur orðið allmikil bót á því í n., þ.e.a.s. þær brtt. sem fjh.- og viðskn. hefur lagt til, að hluti af þessu renni einnig í Suðurlands- og Austurlandsveg. Ég tel þó vera aðalatriði að þetta fjármagn á að fara í allan hringveginn, Hringvegurinn er allur jafn nauðsynlegur og á í sjálfu sér ekki að þurfa að afmarka það. Ég vil leggja áherslu á það, að ég tel ekki rétt að varanleg gatnagerð miðist eingöngu út frá Reykjavíkursvæðinu þó að það sé vissulega nauðsynlegt líka. Ég tel eðlilegast að í þetta sé farið á þann hátt að byrjað verði á varanlegri gatnagerð út frá allflestum fjölmennustu þéttbýliskjörnum í landinu.