13.12.1974
Efri deild: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

95. mál, vegalög

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég þarf nú ekki að gerast langorður um þetta frv., sem hér er til umr., við 1. umr. málsins þar sem ég á þess kost að koma fram mínum sjónarmiðum í þeirri n. sem mun fá það til meðferðar. En ég vil aðeins vekja athygli á einu eða tveimur atriðum sem mér sýnist að væri vert að hugleiða um leið og þetta mál er krufið.

Í aths. með frv. er sagt að það sé flutt til þess að efla sýsluvegasjóðina, m.a. vegna breyttrar tækni við mjólkurflutninga, styrkja gerð þjóðvega í þéttbýli og ná betra samhengi í samgöngukerfið. Að sjálfsögðu eru allir sammála um að það beri að keppa að slíku markmiði eins og hér er lagt til. En þetta má gera að sjálfsögðu með ýmsum hætti. Á skipulagningu samgöngukerfisins, samhengið í samgöngukerfinu, finnst mér nokkuð skorta og hef verið að hugleiða það á hvern hátt mætti fullkomna það betur en hér er lagt til. Það er gert ráð fyrir því að gera þá breytingu á sýsluvegum í landinu frá því sem er í gildandi vegal., að sýsluvegir megi ekki ná nær hverju býli en að 50 metrar séu til vegarenda. Þó er um leið sagt að breytingar séu gerðar á l. til þess að styrkja vegakerfið vegna breyttrar tækni í mjólkurflutningum. Þessir 50 metrar sem eru síðastir og næstir mjólkurtankinum sem mjólkin er flutt úr, um þá er ekkert ákvæði, hver eigi að sjá um að þeir séu í lagi. Það má segja að það sé kannske ekki langur spotti að halda við, 50 metra vegur, en þó er hann æðikostnaðarsamur víða um land þar sem langt er að sækja ofaníburð. Um það er ekki rætt í þéttbýli að hinn almenni borgari kosti neinu til um vegagerð og mætti því ætla að í öllu strjálbýli væri þetta á vegum sveitarstjórnanna, og svo ætti það að sjálfsögðu að vera. En það er hvergi lagastafur um að svo skuli gert. Ég held að það sé þetta, sem vantar, að taka upp hið forna ákvæði um hreppavegi sem sveitarstjórnunum sé skylt að halda við.

Ég minnist þess frá því að tankvæðingin svokallaða reið yfir, t.d. í minn sveitarfélagi, þá gerðist það á sama tíma að farið var að flytja fóðurvörur í tankbílum sem eru mjög þungar bifreiðar og olíu til húsahitunar, sem er líka flutt á þungum tankbílum, heim á bæina. Það, sem var langerfiðasta viðfangsefnið í sambandi við að taka við þessum bifreiðum, var að styrkja heim við bæjarvegginn svo vel, að þegar verið var að snúa þessum þungu bílum við, þá færi ekki allt niður. Þess vegna tel ég að það sé mjög mikið atriði að frá þessu sé gengið, ef við á annað borð ætlum okkur að stuðla að því að samgöngukerfið verði í lagi við þá breyttu tækni sem er í flutningunum.

Þetta var höfuðatriðið af því sem ég hafði áhuga á að minnast á hér í sambandi við vegina. Það eru að vísu fleiri atriði sem mér virðist að þyrfti að taka til athugunar, m.a. sýnist mér að það kæmi til greina að setja inn í 12. gr. l., 3. gr. frv., ákvæði um að heimilt væri að taka í tölu landsbrauta ákveðna vegi sem liggja t.d. að björgunarskýlum Slysavarnafélagsins, því sums staðar stendur svo á að það er æðilangt frá opinberum vegi að þessum slysavarnaskýlum, en geysilega mikilvægt að þeir séu færir fyrir björgunarsveitirnar ef eitthvað verður að. Þetta vildi ég líka láta koma fram við þessa umr.

Þriðja atriðið, sem mér finnst vert að hugleiða, er í sambandi við hraðbrautagerðina sem að vísu er ekki komið inn á í þessu frv. En eins og við þekkjum til eru hraðbrautirnar með varanlegu slitlagt að sjálfsögðu fyrst lagðar út frá þéttbýliskjörnunum þar sem umferðin er mest. Þegar slík framkvæmd hefur verið gerð, þá leiðir það til þess að umferðin verður hraðari á þessum vegum heldur en áður var og orsakar um leið að t.d. öll hestaumferð hlýtur að hrökklast út af þessum vegum. Nú er hestasportið langmest einmitt í mestu þéttbýliskjörnunum og ég álít að það sé illa fyrir hlutunum séð ef ekki verður séð fyrir hæfilegum reiðbrautum meðfram hraðbrautunum. Það hlýtur að verða að telja það til hraðbrautaframkvæmda að leggja reiðbrautir, því að ég á ekki von á því að einn einasti maður telji að það sé meiningin með bættu samgöngukerfi, bættum vegum að útiloka einhvern aðila frá því að ferðast um landið. Ég veit að það er öllum ljóst að hestamennskan er orðin það stór liður í tómstundaiðju landsmanna að fram hjá því verður ekki gengið að greiða fyrir því að hana sé hægt að stunda, án þess að stórhættulegt sé fyrir þá sem hana stunda.

Herra forseti. Ég held að það sé ástæðulaust að ég fari fleiri orðum um þetta frv. Þetta eru þeir efnisþættir sem ég sérstaklega vildi benda á á þessu stigi málsins, en mun væntanlega koma með til athugunar fleiri atriði í nefnd.