13.12.1974
Efri deild: 21. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

84. mál, útvarpslög

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Eins og kunnugt er er það frv., sem hér um ræðir, flutt í þeim gagngera tilgangi að losna við nokkra óþæga einstaklinga úr útvarpsráði, sem löglega hafa verið til þess kjörnir til 4 ára og eiga því enn eftir 1 ár af kjörtíma sínum. Þetta er sem sagt aðaleinkenni þessa máls, sem hér er til umr. Hitt virðist einnig einkenna þetta frv., að flm. þess virðist liggja meira en lítið á, það má ekki fá eðlilega og sjálfsagða meðferð hér í þinginu, heldur er allt kapp á það lagt að þræla því í gegnum þingið með írafári og óþinglegum vinnubrögðum.

Á miðvikudagsmorguninn var boðaður fundur í menntmn. Ed. Þá stóð svo á að ég var veðurtepptur norður í landi, hafði skroppið þangað kvöldið áður, en á miðvikudag lögðust flugsamgöngur víðast hvar á landinu niður vegna snjókomu, svo að ég átti þess engan kost að komast suður þennan dag. En það voru fleiri en ég sem gátu ekki komið á umræddan nefndarfund þennan morgun, svo að hann féll niður. Hins vegar var nýr fundur boðaður að loknum deildarfundum þennan sama dag. Áður en til þess fundar kom var ég búinn að hafa samband í gegnum síma við nokkra meðnefndarmenn mína í menntmn. Ed. til að koma á framfæri eindreginni ósk minni, að á þessum fundi yrði málinu frestað og því yrði vísað til umsagnar nokkurra aðila, þ. á m. stjórnar Blaðamannafélags Íslands.

Hér er um að ræða viðkvæmt ágreiningsmál, sem eins og kunnugt er mætti harðri andstöðu þm. úr þremur flokkum, þegar það var rætt við 1. umr. í Ed. Það er ljóst að hér er verið að kollvarpa þeim leikreglum, sem allir stjórnmálaflokkar höfðu komið sér saman um að gilda skyldu við kjör manna í útvarpsráð og höfðu verið samþ. einróma hér á Alþ. Og það sem meira er, þetta er verið að gera í þeim gagngera pólitíska tilgangi að pota ákveðnum erindrekum stjórnarflokkanna inn í útvarpsráð einu ári fyrr en þeir eiga rétt til lögum skv. Þegar slík mál eru á ferðinni, sem er sem betur fer ekki oft, þá er það algert lágmark að menn fái tækifæri til að ræða þessa breyt. í n. og eigi þess kost að fá um hana umsagnir aðila utan þingsins, en á nefndarfundi menntmn. s.l. miðvikudag gerðist sá óvenjulegi og furðulegi atburður að meiri hl. n., 4 hv. þm., ákveða að báðum fulltrúum stjórnarandstöðunnar fjarstöddum að neita að fresta afgreiðslu málsins og neita að fá um það nokkra umsögn. Þetta ákveður sem sagt 4 manna meiri hl. n. enda þótt 5. stjórnarþm., hv. þm. Vestf., Þorv. Garðar Kristjánsson væri ekki heldur mættur á fundinum, en hann hafði einmitt lýst andstöðu sinni við frv. við 1. umr. málsins og reyndar var hann sá eini af stjórnarþm. í menntmn., sem hafði fyrir því að taka til máls við 1. umr. og lýsa skoðunum sínum.

Nei, það leynir sér ekki, að stjórnarflokkunum er heldur en ekki brátt í brók að koma tryggum erindrekum sínum inn í útvarpsráð og það sem allra fyrst. Það má sem sagt ekki viðhafa þingleg vinnubrögð og senda málið til umsagnar. Það má ekki einu sinni fresta málinu um einn dag þegar ófærð í lofti hamlar för manna á nefndarfund. Nei, það má greinilega engan tíma missa að koma réttum mönnum með réttan hugsunarhátt í útvarpsráð, og dettur manni þá einna fyrst í hug að það hljóti að vera dagskráin um jólin eða um nýárið, sem stjórnarflokkarnir vilja fyrir hvern mun tryggja að verði nægilega NATO-sinnuð og pólitísk stemmd fyrir íhaldsöflin í landinu. Hvað annað veldur þessum óvenjulegu og óþinglegu vinnubrögðum? A.m.k. leynir sér ekki að það er einhvers staðar þrýst á hak við tjöldin af miklum pólitískum þunga. Ég er sannfærður um að formaður n., sem er þekktur að hæversku og háttprýði, gerir það ekki með neinni ánægju að viðhafa þvílík vinnubrögð. Það er greinilegt að ákveðnir forustumenn flokksins hafa ákveðið, að málinu skuli hraðað eins mikið og nokkur kostur sé, og formaður n. er þá tilneyddur að taka að sér það skítverk að kreista málið út úr n. með forgangshraða.

Þessi hamagangur allur er ekki síður athyglisverður fyrir þá sök að nú á vikunni gerðist sá einstæði atburður að einn af þm. stjórnarflokkanna varð fyrir harðri árás í ritstjórnargrein í eigin flokksblaði fyrir afstöðu sína í þessu máli. Satt að segja man ég ekki eftir því á seinni árum að nokkur þm. hafi orðið fyrir þvílíku, að vera opinberlega hirtur í ritstjórnargrein í aðalstuðningsblaði sínu, meira að segja sérstaklega nafngreindur, en þetta gerðist nú fyrir fáum dögum, og sá sem fékk þessa óþokkalegu skvettu yfir sig úr eigin herbúðum var enginn annar en hæstv. forseti þessarar d. og framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstfl., hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson. Slíkur er nú ofsinn og ófyrirleitnin, sem liggur að baki flutningi þessa máls. Sem sagt þegar einn af hv. þm. Sjálfstfl. leyfir sér að segja persónulega skoðun sína á þessu máli og talar þar af þekkingu og reynslu sem fulltrúi í útvarpsráði um langt skeið, þá er honum ekki svarað hér í þinginu á málefnalegan hátt. Það stendur ekki upp einhver forustumaður Sjálfstfl. til þess að rökræða málið og leiða honum fyrir sjónir að hann hafi hugsanlega rangt fyrir sér. Nei, flokksforustan kann önnur ráð til þess að setja ofan í við óþæga þm. Það er sem sagt einn hælbíturinn í ritstjórnarstól Morgunblaðsins sendur á vettvang, og hann er í ritstjórnargrein látinn tyfta hæstv. forseta þessarar deildar, refsa honum í áheyrn alþjóðar, fyrir að vera ekki reiðubúinn til þess að fallast á það pólitíska ofstæki, sem felst í þessu frv.

Ég vil að lokum segja það, að mér finnst satt að segja óhugnanlegt, hvað Morgunblaðinu hefur tekist vel að æsa liðsmenn sína gegn núv. útvarpsráði. Það er t.d. óspart reynt að nota dagskrá stúdenta 1. des. s.l. til áróðurs gegn núv. meiri hl. útvarpsráðs. Það er eins og aldrei fyrr hafi heyrst pólitísk dagskrá 1. des. en núna 1974. Sú var nú tíðin, eins og margir muna, að hægri menn voru í meiri hl. meðal stúdenta í Háskóla Íslands. Þetta voru að vísu heldur ömurlegir 1. des., ekki eitt ár eða tvö, heldur mörg ár í röð. Þá voru stórpólitískar ræður fluttar af forustumönnum úr Sjálfstfl. og Alþfl., t.d. eitt árið man ég um nauðsyn þess að fella gengi krónunnar og flytja fjármagnið til í þjóðfélaginu til þeirra, sem fyrir athafnalífinu stæðu, og frá þeim sem minna mega sin, annað árið um nauðsyn þess að hafa hér her um varanlega tíð í landinu og þriðja árið um nauðsyn þess að gera samning við breta um landhelgismálið. Ég minnist þess, að þessi grófi áróður var fluttur á sínum tíma í gegnum útvarp beint frá fullveldishátíð stúdenta 1. des. og hneykslaði marga. En að sjálfsögðu datt þá engum í hug að koma í veg fyrir, að þessum áróðursræðum hægri manna væri útvarpað, jafnvel þótt mönnum líkaði þær ekki. Og enn siður datt mönnum í hug að blanda pólitískt kjörnu útvarpsráði inn í þær deilur, sem nú er óspart gert af pólitískum skriffinnum Morgunblaðsins og Vísis. Það var að vísu síðasta innlegg í þessu máli að koma fram sem húsmæður í Vesturbænum.

Nei, staðreyndin er auðvitað sú, að núv. útvarpsráð hefur talið sjálfsagt að gæta þess vandlega að mismunandi skoðanir og ólík sjónarmið ættu jafnan og greiðan aðgang að útvarpi og sjónvarpi, og það er þetta sem útvarpsráð er sakfellt um að hafa gert. En þannig verður þetta að vera og þannig á það að vera. Hitt er svo annað mál, að áhrifaaðstaða hægri afla í landinu yfir sjónvarpi og ríkisútvarpi hefur augljóslega verið mjög mikil frá gamalli tíð, eins og oft hefur komið í ljós. Mér er t.d. minnisstætt, þegar undirskriftasöfnun Varins lands stóð yfir á s.l. vetri og birtar voru í sjónvarpinu auglýsingar dag eftir dag, þar sem skorað var á landsmenn að rita undir undirskriftalista Varins lands. Þessar auglýsingar voru algjört lögbrot. Þær sem sagt stönguðust á við skýr ákvæði reglugerðar útvarpsins um sjónvarpsauglýsingar, þar sem bannað er að birta auglýsingar með pólitísku efni. Ég minnist þess, að þegar Samtök herstöðvaandstæðinga á sínum tíma vildu halda þó ekki væri nema einn lítinn fund, þá var þeim algjörlega meinað að koma auglýsingum á framfæri í sjónvarpinu. En þegar svo Varið land fór af stað og þurfti að hvetja landsmenn til þess að undirrita sína undirskriftalista, þá gátu auglýsingar af því tagi dunið í sjónvarpinu dag eftir dag, án þess að við þeim væri blakað. Og það þurfti talsvert átak, — ég skal viðurkenna að ég tók þátt í því átaki, — en það þurfti talsvert átak til þess að fá þetta lögbrot stöðvað. En þá hafði Varið land fengið sitt fram með því að koma þessum auglýsingum á framfæri um allmarga daga. Menn geta svo rétt ímyndað sér hversu tröllsleg viðbrögð Morgunblaðsins hefðu orðið, ef hlutverkum hefði verið skipt og Samtök hernámsandstæðinga hefðu átt í hlut í þetta sinn. Menn þurfa svo sem ekki að efast um það, að Ríkisútvarpið og forusta þess í útvarpsráði hefði verið hundelt með þessum venjulegu ósvifnu glósum og kommúnistastimplum í anda kalda stríðsins og Mac-Cartys, sem öll þjóðin þekkir svo vel.

Nei, ég þarf ekki að fara mörgum frekari orðum um þetta efni. Um þetta mál má fara mörgum orðum og ég ætla ekki hér að fara að endurtaka röksemdir mínar, sem ég flutti fram gegn frv. við 1. umr. málsins. En ég endurtek það sem ég sagði þá og vil segja enn, að þetta mál ber vott um pólitískt ofríki og ofstæki og er aðstandendum sínum til lítils sóma. Við eigum að halda þær leikreglur, sem allir flokkar hafa komið sér saman um að viðhafa við kosningu í útvarpsráð að vandlega athuguðu máli, og við eigum ekki að fara að hrófla við dagskrárstjórn útvarpsins í hvert sinn sem breytingar verða á skipan Alþ. Það er ekki heilbrigt fyrir þessar stofnanir, að fá kannske yfir sig þrjú útvarpsráð á sama árinu, eins og verður með þessu skipulagi, ef tvennar kosningar verða á sama árinu vegna breytingar á einhverju ákvæði stjórnarskrárinnar. Auk þess mega menn vita, að ef þessi ríkisstj. kemst upp með það að skipta um í útvarpsráði eingöngu í pólitískum tilgangi, þá er með því verið að gefa síðari ríkisstjórnum mjög varhugavert fordæmi.

Er ekki eins líklegt, að næst þegar mynduð verður ríkisstj., sem ekki unir við þá einstaklinga, sem sitja í þáv. útvarpsráði, þá verði lögunum aftur breytt, hvort sem alþingiskosningar eru nýlega afstaðnar eða ekki. Það er alltaf auðvelt að finna einhverjar ástæður til breytinga.

Herra forseti. Ég hef ekki skilað nál. vegna þess að ég átti þess ekki kost að sitja nefndarfund um þetta mál. En ég legg á það áherslu hér, að mergurinn málsins er sá, að ef núv. forustumenn leyfa sér að breyta útvarpslögunum í þeim eina tilgangi að losa sig við óþæga einstaklinga, þá er verið að opna fyrir pólitíska íhlutun af þessu tagi í hvert skipti sem nýr þingmeirihluti er myndaður hér á Alþ. Þeir, sem það vilja, greiða þessu frv. atkvæði sitt, en þeir, sem telja slíka þróun óæskilega og hættulega, sameinast um það, hvaða flokk sem þeir annars fylla, að fella þetta frv.