13.12.1974
Efri deild: 21. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

84. mál, útvarpslög

Frsm. meiri hl. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. v. hélt uppi gagnrýni um að þetta mál hefði fengið óþinglega meðferð. Ég mótmæli því, að svo hafi verið. Hér var boðað til fundar í n. með eðlilegum hætti og hægt er að benda á fjölmörg hliðstæð dæmi um að slíkt hafi verið gert. Ef talað er um hraða þann stutta tíma sem var liðinn frá því að frv. var lagt fram á Alþ. á mánudag og boðaður fundur á miðvikudag, þá er slíkt ekki óeðlilegt og allra síst á dögum rétt fyrir þinghlé. (Grípið fram í: Af hverju leituðuð þið ekki umsagna?) Herra forseti. Ég hef orðið, er það ekki?

Varðandi gagnrýni um það, að ekki var leitað umsagna um það hvort Alþ. ákvæði að kjörtímabil útvarpsráðs yrði eins og nú er lagt til, þ.e.a.s. að útvarpsráð skuli kosið eftir hverjar almennar kosningar, þá er því til að svara, að árið 1943, þegar nákvæmlega sams konar breyting var gerð, og það er eina tilvikið, sem hægt er að vitna í í þingsögunni þar sem einungis þessi einasta breyting var gerð á útvarpslögunum, þ.e.a.s. varðandi kjörtímabil útvarpsráðs, þá var því máli ekki vísað til umsagnar af n., ekki heldur 1966, þegar fjölgað var í ráðinu úr 5 í 7. Því var ekki vísað til umsagnar, enda er þetta ákvörðunaratriði Alþ., hlýtur að vera. Og að vísa slíku til umsagnar Blaðamannafélagsins, — menn geta haldið slíku fram sem hálfgerðu gamanmáli og ég er ekkert á móti því og tel allt í lagi að menn geri það, ég trúi því ekki að þeir meini raunverulega neitt með því.

Varðandi þinglega meðferð málsins til þessa er það að segja, að það hefur verið farið að nákvæmlega eins og í öðrum málum og varðandi þetta sérstaka atriði nákvæmlega eins og áður hefur verið gert þegar um tiltekna breytingu er að ræða nákvæmlega samhljóða þeirri, sem hér um ræðir.

Það er rétt að það hafa stundum orðið nokkuð víðtækar umr. einmitt um kjör útvarpsráðs og ég vil segja að þær umr., sem eiga sér stað núna, séu komnar kannske aðeins út fyrir efni málsins. Ekki er ég að lasta það, en ekki held ég að því verði á móti mælt að þær umr. hafi aðeins farið út fyrir efnishlið málsins. Í umr. 1939, þegar fyrst var lagt til að Alþ. kysi útvarpsráðsmenn í stað þeirrar kosningar sem áður hafði farið fram þá einmitt héldu fulltrúar Sósíalistafl. uppi mjög svipuðum málflutningi varðandi þetta atriði og nú hefur verið gert og töluðu um málið á ákaflega viðum og breiðum grundvelli. Það er út af fyrir sig ekkert um það að segja. Ég er ekkert að eltast við að svara því sem kemur þessu máli ekkert við.

Ég endurtek: Hér hefur ekki verið um neina óvenjulega meðferð á málinu að ræða eða óþinglega meðferð, því vísa ég algerlega á bug. Hér er um að ræða einfalt mál, að taka upp á ný þann hátt, það fyrirkomulag, sem gilt hefur í 28 ár af 46 ára starfsferli útvarpsráðs.