11.11.1974
Efri deild: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

8. mál, almannatryggingar

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég vil strax lýsa því yfir, að ég tel að hér sé um mikið réttlætismál að ræða. Það er á fleiri sviðum en þessu, sem mér finnst að hafi gætt nokkurs misræmis um hvernig menn hafa verið afgreiddir af tryggingunum, ekki aðeins milli fólks, sem býr úti á landsbyggðinni og í þéttbýlinu, heldur almennt.

Þessi mál voru á síðasta reglulegu þingi lögð fyrir þingið, eins og kom fram hjá frsm., eftir að vera búin að vera í endurskoðun. Ég flutti þá ásamt hv. 6. þm. Sunnl. frv. um breyt. á þessum l., sem gekk í þá átt að leiðrétta verulega vissan þátt í almannatryggingal. í sambandi víð sjúkratryggingarnar, og taldi að átt hefði að samþykkja þá breytingu eins og hún var í því frv. Sá hv. þm., sem nú talaði fyrir þessu réttlætismáli, studdi mig ekki til þess þá að koma þeirri leiðréttingu á, sem ég taldi að væri sjálfsagt í sambandi við sjúklingana, en hún var í þá átt að þeir, sem ekki ættu þess kost að vera á sjúkrahúsum og þyrftu að ganga til sérfræðinga og læknis, fengju ekki síður fyrirgreiðslu frá almannatryggingunum heldur en þeir, sem hefðu aðstöðu til að fá að vera undir sérfræðingahendi á sjúkrahúsunum. Þetta var ekki samþ. á síðasta reglulegu Alþ., þar sem þetta var lagt fyrir. En ég verð að viðurkenna þó, að það var gengið nokkuð í átt til þess að jafna það misræmi og misrétti, sem þar er um að ræða.

Sannleikurinn er, að það er ýmislegt fleira en þetta, sem þyrfti og væri rétt að leiðrétta í tryggingalöggjöfinni. Hún hefur verið að smáfærast í áttina til meira réttlætis á mörgum undanförnum árum, og mætti segja mér, að þessi breyting næði fram að ganga núna, því að satt að segja hafa öll stærstu skrefin, sem stigin hafa verið í endurbótum á almannatryggingalöggjöfinni, verið stigin þegar Sjálfstfl. hefur verið í ríkisstj. Það er merkilegt, að t.d. þegar hin fyrri vinstri stjórn var við völd hér á landi, þá var ástandið þannig í tryggingamálum, að landsmenn sátu ekki allir við sama borð, þeim var skipt i tvo flokka. Þeir, sem áttu heima i höfuðborginni og þéttbýlinu, fengu hærri greiðslur. Það var ekki fyrr en sú ríkisstj. fór frá, að sú leiðrétting komst á, að allir landsmenn sátu við sama borð í þessum efnum. Þannig hefur þetta verið leiðrétt stig af stigi. Ég vil taka undir það, að enda þótt sú vinstri stjórn, sem nú er nýlega farin frá, hafi ekki komið í framkvæmd að gera nokkra bót á í þessum efnum, þá verði hægt að líta á þetta frv. og koma a.m.k. að einhverju leyti til móts við það fólk, sem hér á hlut að máli.