13.12.1974
Neðri deild: 19. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (652)

48. mál, lántökur ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja

Frsm. (Ólafur G. Einarsson):

Hæstv. forseti. Álit fjh.- og viðskn. er á þskj. 123. N. hefur athugað frv. á nokkrum fundum sínum. Hún fékk til fundar við sig Þorstein Geirsson deildarstjóra í fjmrn., og veitti hann n. ýmsar upplýsingar. N. mælir með því að frv. verði samþ. óbreytt. Ég held ég verði að láta fylgja hér örfá orð til viðbótar.

Eins og ljóst er er tilgangur frv. sá að koma betri skipan á fjármál einstakra ríkisfyrirtækja og lántökur þeirra sérstaklega, enn fremur að tryggja það að fjmrn. hafi á einhverjum tímayfirsýn yfir þær lántökur, sem þessir aðilar stofna til, en á það hefur nokkuð skort án þess ég sjái ástæðu til að ræða það sérstaklega nánar.

1. gr. frv. er í samræmi við 40. gr. stjórnarskrárinnar og reyndar bein útfærsla á henni, en hún kveður á um að ekki megi taka lán er skuldbindi ríkið nema lagaheimild sé fyrir hendi. 1. gr. kveður því á um að ríkissjóði og stofnunum, er greinir í A-hluta ríkisreiknings, sé óheimilt að taka innlend lán, eða stofna til skulda innanlands nema til þess séu heimildir í sérstökum lögum eða fjárl. Þó er heimilt að stofna til skulda í tengslum við kaup á fasteignum, enda séu fasteignakaupin samþykkt af fjmrn. Þetta ákvæði mun einkum vera vegna þess að við slík fasteignakaup þarf oft að yfirtaka áhvílandi lán.

Um 3. gr. urðu nokkrar umr. í n. og var nokkur ótti meðal nm. um að þessi ákvæði mundu verða nokkuð þunglamaleg í framkvæmd, en þar er kveðið á um að ríkisfyrirtækjum og sjóðum í ríkiseign, sem um getur í B-hluta ríkisreiknings, — þar eru fyrirtæki eins og Áburðarverksmiðjan, Sementsverksmiðjan, Síldarverksmiðjurnar o.fl. — sé óheimilt að stofna til skulda eða taka lán nema til þess sé heimild í sérstökum l. eða fjárl. eða fyrir liggi sérstakt samþykki viðkomandi rn. og fjmrn., eins og segi í gr. Slíkar heimildir þarf þá til samninga um yfirdrátt á viðskiptareikningi í bönkum o.fl. þess háttar, t.d. sölu á víxlum. Ég vek athygli á því, að í aths. við þessa gr. frv. segir, að framkvæmd ákvæða gr. þessarar sé fyrirhuguð þannig að rn. setji viðkomandi stofnunum meginreglur, sem þær starfi eftir. Þetta þýðir raunverulega að það þarf að setja sérstakar reglur fyrir hvert einstakt fyrirtæki vegna þess að það getur ekki átt það sama við alls staðar. Það getur ekki átt það sama við um, svo að ég nefni dæmi, Síldarverksmiðjur ríkisins og Ríkisútvarpið og fleira mætti þannig telja.

Í 5. gr. er gert ráð fyrir því að fjmrh. setji reglugerð um þessi viðskipti.

Í 4. gr. eru ákvæði um að aðilar, sem um ræðir í 3. gr. ok hafa lántökuheimild er samkv. sérstökum l., skuli, eigi síðar en 1. nóv. ár hvert, gera viðkomandi rn. og fjmrn. grein fyrir áformuðum lántökum á næsta fjárlagaári.

Það er öllum ljóst að það getur verið mjög erfitt fyrir einstök ríkisfyrirtæki að gera nákvæmar áætlanir á þessum tíma og þar á það sama við og ég nefndi áðan að það er ákaflega ólík aðstaða hinna einstöku ríkisfyrirtækja. Ég get enn tekið dæmi um Síldarverksmiðjurnar annars vegar, sem eiga vissulega erfitt með að gera nákvæmar áætlanir svo löngu fyrir fram, áður en vitað er um aflabrögð og áður en vitað er um sölumöguleika á afurðunum, en aftur auðveldara fyrir aðrar stofnanir, eins og t.d. Ríkisútvarpið, svo ég nefni það aftur. Ég legg áherslu á að rn. það, eins og segir í 4. gr., er með mál fyrirtækis eða sjóðs fer og fjmrn. geta breytt slíkri lántökuáætlun. Þannig á það að vera tryggt að það sé hægt að breyta fyrri áætlunum ef nauðsyn krefur.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en eins og ég sagði í upphafi leggur n. til að frv. verði samþ. óbreytt.