13.12.1974
Neðri deild: 19. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Frsm. (Eyjólfur K. Jónsson):

Hæstv. forseti. Ég nýt þeirrar ánægju að vera frsm. sameinaðrar fjh.- og viðskn. í því mikla og merka máli, sem hér er til umr., þ.e. frv. til l. um happdrættislán ríkissjóðs f.h. Vegasjóðs vegna framkvæmda við Norðurveg, sem raunar er gert ráð fyrir að bera muni heitið: „Lög um happdrættislán ríkissjóðs f.h. Vegasjóðs vegna framkvæmda við Norðurveg og Austurveg,“ ef Alþ. samþ. frv., sem ég vissulega vona og treysti, því að hér er á ferðinni mál, sem marka mun þáttaskil í samgöngumálum landsmanna, ef að lögum verður, og þm. allir hafa vissulega mikinn áhuga á, líklega meiri en flestum málum öðrum sem starfsfé þjóðarinnar er til varið.

Eins og að líkum lætur spunnust miklar umr. um mál þetta er það var til fyrstu meðferðar hér í d. Fjallaði málið þá einungis um fjáröflun til Norðurvegar og ræðumenn allir lýstu skilningi á því að hraða framkvæmd við gerð þess vegar, en bentu margir á brýn og aðkallandi verkefni við vegagerð annars staðar. Síðan hafa miklar viðræður farið fram um málið á nefndarfundum og í viðræðuhópum alþm. En loks auðnaðist í gærmorgun að ná fullri samstöðu í hv. fjh.- og viðskn. um breyt. á frv. og stuðning allra nm. við framgang þess. Leyfi ég mér að vænta þess að aðrir hv. þdm. séu málinu samþykkir og það geti jafnvel fengið lokaafgreiðslu hér í hv. Nd. nú í dag.

Ég mun nú gera grein fyrir breyt. þeim sem n. leggur til að gerðar verði á frv., en brtt. eru að finna á þskj. 135.

Fyrst er þess að geta, að lagt er til að í stað 1200 millj. í 1. gr. frv. komi 2 milljarðar, og að í stað orðanna „á næstu árum“ komi „á næstu 4 árum“. Það er sem sagt lagt til að boðnar verði út 2000 millj. kr. á næstu 4 árum í happdrættisskuldabréfum.

Við 7. gr. er gerð breyt. og er lagt til að hún verði efnislega orðuð á þann veg að fjármunir, sem koma inn fyrir sölu happdrættisskuldabréfanna, skuli renna til Vegasjóðs og 2/3 hlutar fjárins skuli fara til Norðurvegar, en 1/3 hluti til Austurvegar milli Reykjavíkur og Egilsstaða um Suðurland. Önnur efnisbreyting er ekki í þeirri brtt.

Þá er loks 3. brtt. að við fyrirsögn bætist orðin „og Austurveg“.

Eins og brtt. þessar bera með sér, hefur samkomulag náðst um það annars vegar, að hækka verulega upphæð þá, sem aflað verður með útgáfu happdrættisskuldabréfa, eða úr 1200 millj. í 2 milljarða, og er þá gert ráð fyrir 4 ára tímabili þannig að heildarútboðið nemi 500 millj. kr. ár hvert. Hins vegar er nú gert ráð fyrir, að því viðbótarfjármagni, sem aflað verður með þessum hætti, verði varið til tveggja meginverkefna í stað eins, þ.e. Norðurvegar og Austurvegar, en ekki til fyrrgreindu framkvæmdarinnar einnar. Skulu 2/3 þess fjár, sem aflað verður, eða 1333 millj. kr. renna til Norðurvegar, en 1/3 til Austurvegar eða 667 millj. kr. Við flm. frv. getum vel við þessa niðurstöðu unað, því að upphæð sú sem til Norðurvegar rennur hækkar fremur en lækkar, því að í okkar frv. var gert ráð fyrir 1200 millj. kr., eins og áður segir.

Rétt er að leggja á það áherslu, að hugmyndin hefur ætíð verið sú, að því fé, sem með þessum hætti er aflað, sé varið til sérstakra meiri háttar verkefna, án þess að skipting vegafjár á vegalögum raskist. Þannig var það um Skeiðarársand og Djúpveg og þannig geri ég ráð fyrir að enn verði. Þó er skylt að geta þess, að sumir kusu fremur að fjáröflunin með happdrættisskuldabréfum yrði miðuð við hringveginn svonefnda allan, en ég og fleiri lögðum á það megináherslu að við útboð væri miðað við ákveðin, afmörkuð verkefni. Vera má að eðlilegt geti talist við gerð vegáætlunar til næstu ára að taka sérstakt tillit til þess kafla hringvegarins, sem frv. þetta nær ekki til, t.d. aðalvegarins austur frá Akureyri og í vesturátt frá Egilsstöðum, og á sama hátt þess hluta hringvegar hins meiri, sem um Vestfirði á að liggja, og tengingu þess landshluta við Norðurland og Vesturland.

Hitt er að mínu mati mjög mikilvægt, og þá skoðun hafa margir tekið undir, m.a. hér í þessum ræðustól, að happdrættisútboð sem þetta eigi að vera einskorðað við ákveðnar vegaframkvæmdir, þannig að fólk hafi það ekki á tilfinningunni að það sé að verja fé sínu í hina svokölluðu ríkishít, heldur ráði það hvað af fjármununum verður. Ég tel sjálfsagt að haga útboðum samkv. væntanlegum lögum um Norðurveg og Austurveg þannig, að sérstök bréf væru boðin út vegna Norðurvegarins og önnur vegna Austurvegar, jafnvel þótt útboð færi fram á sama tíma. Menn gætu þá ráðið því til hvorrar framkvæmdarinnar þeir verðu fé sínu, og jafnvel gæti skapast heilbrigð samkeppni um að ljúka útboði hvors flokksins um sig. Í frv. er þó ekki tekin ákvörðun um þetta efni, en framkvæmd öll lögð í hendur stjórnvalda.

Vegagerð ríkisins hefur að undanförnu unnið að áætlun um fullnaðargerð Norðurvegar milli Akureyrar og Reykjavíkur annars vegar og hins vegar Austurvegar frá Reykjavík að Hvolsvelli og mun ég nú gera þeirri áætlun nokkur skil, en víkja síðan að öðrum verkefnum á Suðausturlandi og Austurlandi.

Áætlunin sem hér um getur, er gerð í okt. s.l. og kannar, eins og ég sagði, leiðina Akureyri–Reykjavík og Reykjavík-Hvolsvöllur. Á fyrri leiðinni er slitlag komið á kaflann frá Reykjavík í Kollafjörð og þeirri síðari á kaflann Reykjavík — Selfoss og unnið að áframhaldi þaðan að Skeiðavegamótum, svo að athugunin beinist í raun réttri að Kollafirði til Akureyrar og Skeiðavegamótum að Hvolsvelli. En áætlunin er miðuð við kostnað í ágúst s.l. Er gert ráð fyrir því að framkvæmdum verði hagað þannig að slitlag sé ekki lagt á sama ár og uppbygging er gerð, heldur sé umferð látin þjappa fyllingar. Vegurinn er ýmist 71/2 m á breidd eða 8 1/2 og á einstökum köflum 10 metrar, þ.e.a.s. hér næst Reykjavík og út frá Akureyri. Heildarkostnaðaráætlun við veginn sem talinn er munu verða 405 km, er 5 milljarðar 338 millj. að viðbættum brúm, sem eru 1 milljarður 604 millj. Heildarkostnaður nálgast því 7 milljarða og skiptist hann þannig: Í Kjósarsýslu er 41 km og vegurinn kostar þar 733 millj., en brýr 219. Í Borgarfjarðarsýslu eru 45 km, vegur kostar 666 millj., en brýr 700 millj. Í Mýrasýslu eru tæpir 70 km, vegur kostar 1 milljarð 60 millj., en brýr 135 millj. Í Strandasýslu eru 15 km, vegur kostar 270 millj., brýr 54. Vestur–Húnavatnssýsla, þar eru 64 km, vegur kostar 630 millj., brýr 97. Austur-Húnavatnssýsla, 65 km, kostnaður við veg 733 millj., en við brýr 114. Í Skagafjarðarsýslu eru 53 km, kostnaður við veg 610 millj. og við brýr 242. Í Eyjafjarðarsýslu eru 52 km, þar er kostnaður við veg 634 millj. og við brýr 41. Að því er aftur á móti varðar veginn austur að Hvolsvelli þá á að ganga endanlega frá honum. Þar er um að ræða í Rangárvallasýslu 31 km, kostar vegurinn 350 millj. og brýr 18 millj., og í Árnessýslu 3 km, og þar kostar vegur 41 millj. eða samtals 509 millj. eða um það bil. Þess er getið sérstaklega að ýmsir kaflar séu nú þannig byggðir að hægt sé þegar að leggja á þá slitlag, sem væri hægt að vinna strax á næsta ári og líklegt væri og heppilegt væri að gera. Er þar helst um að ræða um 8 km í Hvalfirði, 5 km undir Hafnarfjalli, síðan eru 13 km í Hrútafirði og 7 aðrir í Vestur-Húnavatnssýslu, en þar er umferð ekki svo mikil að ástæða væri til að hraða þar olíumöl. En hins vegar eru 25 km tilbúnir undir slitlag beggja vegna Blönduóss og virðist sjálfsagt að hraða framkvæmdum við lagningu bundins slitlags þar því að þar er mjög mikil umferð. Og síðast en ekki síst er svo vegurinn út frá Akureyri, tæpir 10 km, sem þegar á næsta ári mætti leggja á bundið slitlag.

Ef þessir kaflar yrðu teknir, sem ég nefndi sérstaklega, þ.e.a.s. 8 km í Hvalfirði og 25 km við Blönduós og tæpir 10 km út frá Akureyri, þá mundi kostnaður við það vera nálægt 315 millj. og mundi þá mestur hluti þess fjár, sem aflað er samkv. þessum væntanlegu lögum, renna til þessara framkvæmda. En auðvitað yrði samhliða að hraða uppbyggingu annarra vega og búa þá undir að á þá verði lagt slitlag á þar næsta ári. Þá yrði það auðvitað fyrst og fremst út frá Akureyri, miðsvæðis í Skagafirði, nálægt Hvammstanga, í Borgarfirðinum, Hvalfirði og svo auðvitað hér á Kjalarnesinu, en þar er ekki unnt að leggja slitlag á næsta ári, þar sem vegur hefur ekki verið undirbyggður.

Þetta eru megindrættir þessarar áætlunar.

Á Vegamálaskrifstofunni hef ég aflað mér upplýsinga um kostnað við þau verkefni, sem brýnast er að vinna á Austurvegi, auk þess verkefnis að ljúka veginum að Hvolsvelli, sem ég hef áður gert grein fyrir.

Þá er það fyrst Mýrdalssandur. Þar eru á kafla allþung snjóalög oft og það þarf að hækka veginn, en framkvæmdir þar eru ekki ýkjadýrar. Er gert ráð fyrir að allur kaflinn frá Blautukvísl og austur að Skálm mundi verða hækkaður og þar mundu brýr kosta 13 millj., en uppbygging 25 millj. eða samtals 38 millj. kr. Í Skaftártungum er líka lélegur og erfiður vegur. Þar er gert ráð fyrir að byggja hann mun neðar en hann nú er og brúa Kúðafljót þar niður frá. Sú brú mundi kosta 115 millj. og vegur 43 millj. eða samtals 158 millj. kr. En þegar þessi vegur væri kominn má segja að allt frá honum í Eldhraunið og austur yfir Skeiðarársand yrði kominn mjög góður og fullkominn vegur. Breiðamerkursandur, að byggja veginn upp þar kostar 56 millj. kr. Það er ekki dýrari framkvæmd en svo, að í hana ætti að vera hægt að ráðast strax á næsta ári ef frv. þetta verður samþ. Og síðan er Lónsheiðin margumrædda. Þar er rætt um að fara fyrir Hvalneshorn og mundu brýrnar kosta 35 millj., en vegurinn sjálfur 138 millj. eða samtals 173 millj. kr. Þessi 4 meginverkefni, sem mundu hafa gífurlega þýðingu fyrir Austfirðinga og raunar landsmenn alla, mundu þess vegna kosta um 425 millj. kr. Það er ekki stærri upphæð. Hins vegar gat ég um að það mundi kosta um 508 millj. kr. að ljúka fullnaðarfrágangi vegarins að Hvolsvelli. Hér er því um að ræða framkvæmd upp á 933–934 millj., en þar að auki væri eðlilegt að reyna að leggja slitlag á næsta nágrenni Egilsstaða. Ef við hugsum okkur að það kostaði 60–70 millj., þá er hér um einn milljarð að ræða, en samkvæmt frv. þessu er gert ráð fyrir aukafjárveitingu til viðbátar við fjárveitingar á vegalögum, sem nemur til Austurvegar 667 millj., svo að ljóst er að unnt ætti að vera á þessu tímabili að ljúka öllum þessum stórverkefnum sem vissulega mundi gleðja landsmenn alla og þá austfirðinga alveg, sérstaklega. Þetta er ekki stærra átak en svo að við eigum vel að geta lokið því á næsta vegáætlunartímabili.

Í grg. frv., eins og það upphaflega var fram lagt, var gert ráð fyrir því að samhliða þessari fjáröflun, framlögum á vegalögum og á samgönguáætlun Norðurlands yrði leitað erlends lánsfjár til að hraða framkvæmdum.

Von mín er sú að samþykkt þessa frv. muni leiða til þess að íslendingar aki innan tiltölulega fárra ára á fullkomnum vegi milli Akureyrar og Reykjavíkur og Reykjavíkur og Hvolsvallar, samhliða því sem hinar þýðingarmestu vegarbætur verða gerðar á Austurvegi. Auðvitað deila menn ætíð um framkvæmdaröð og við því er ekki nema gott eitt að segja. Sjálfur hef ég verið þeirrar skoðunar, að fjárveitingar til vegaframkvæmda yrði að takmarka, svo illt sem það er, á meðan verið er að byggja upp trausta atvinnuvegi. Nú hygg ég hins vegar að svo sé komið að þau atvinnutæki, sem fyrir eru í landinu, og þau áform, sem uppi eru um atvinnuuppbyggingu og útfærslu landhelginnar í 200 mílur á næsta ári, vonandi ekki síðar en á miðju næsta ári, nægi til að tryggja atvinnuöryggið á næstu árum ef rétt er á haldið, þess vegna sé röðin komin að stórframkvæmdum í samgöngumálum og þar muni hvert stórvirkið verða unnið af öðru í nánustu framtíð.

Ekki er því að leyna, að raddir hafa heyrst um það, að óeðlilegt sé að skerða sparifé í bönkum með skuldabréfaútgáfu á borð við þá sem hér um ræðir. Sumir segja að verðtryggð lán séu allt of dýr fyrir ríkissjóð. Mín skoðun er sú að hvort tveggja sé á misskilningi byggt. Í fyrsta lagi er heilbrigt að nokkur hluti framkvæmdafjár ríkisins sé fenginn að láni hjá borgurunum. Þeir hafa þá eignarráð á því fé, gagnstætt því sem vera mundi ef ríkið heimti fé með skatti, og fjárhagslegt sjálfstæði borgaranna verður meira en ella. Skuld ríkissjóðs við einstaklinga þjóðfélagsins má gjarnan vaxa nokkuð ár frá ári eftir því sem umsvif aukast í þjóðfélaginu, og einmitt bréf sem þessi geta orðið grundvöllur viðskipta á frjálsum verðbréfamarkaði þar sem þau ganga kaupum og sölum fyrir skráð gangverð.

Þá er einnig ósýnt að mikið af því fjármagni, sem varið er til þessara kaupa, mundi kyrrt liggja í bönkum og sparisjóðum. Hættara er við hinu, að því yrði varið til kaupa ýmiss konar innflutts varnings, t.d. bifreiða og annars. Það yrði eyðslufé, en ekki sparifé.

En er féð þá of dýrt fyrir ríkið? Verða vegirnir of dýrir, þegar endurgjalda verður lánið með verðtryggingu. Skoðun mín er sú, og til þess bendir óneitanlega reynsla undangenginna ára, að vegagerðarkostnaður hækki mun meira en vísitölutryggingunni nemur þannig að vegirnir yrðu ríkinu enn dýrari, ef frestað væri lagningu þeirra, heldur en er þrátt fyrir allt með slíkri lántöku og er þá ekki metinn hinn geysilegi sparnaður, sem allir bifreiðaeigendur njóta er vegakerfið batnar. Allt ber því að sama brunni að hér sé um að ræða það verkefni sem alþýða hefur hvað mestan áhuga á að hrinda í framkvæmd og að hér sé um sparnaðarmál að ræða, að varanleg vegagerð sé í senn mál þjóðþrifa og þjóðarmetnaðar.

Á miðju þjóðhátíðarári var hringvegur opnaður um landið. Það fer vel á því í lok ársins að taka ákvörðun um mestu stórframkvæmdir í samgöngumálum hingað til og sameinast um að hrinda þeim í framkvæmd á næstu árum.