13.12.1974
Neðri deild: 19. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs til þess að þakka hv. fjh.- og viðskn. fyrir afgreiðslu þessa máls og það samkomulag sem þar hefur tekist, sem ég er mjög ánægður yfir. Ég held að það sé ljóst að við, sem höfum áhuga á Vesturlandsvegi og vegi norður til Akureyrar, höfum enga löngun til þess að hinir yrðu afskiptir í þessum efnum, og finnst mér þess vegna þetta mál hafa ráðist vel. Ég veit að þetta mál á því auðveldan gang í gegnum hv. Alþ., og ég er líka sannfærður um að það mun eiga auðveldan gang hjá þjóðinni í framkvæmd.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram í umr. að með þessari leið er ekki eins mikið um það að fé fari út úr bönkum og sparisjóðum og menn vilja vera láta. Það á sér þarna stað verulegur sparnaður. Happdrættisbréfin eru mikið keypt til þess að gefa í sambandi við afmæli, fermingar og alls konar slíka tyllidaga eða atburði í lífi manna og er það mikið ánægjuefni. Svo hefur það aðra þýðingu líka. Það er það að menn hafa áhuga á því að vera þátttakendur í þessum framkvæmdum. Ég hef hitt marga sveitunga mína sem hafa sagt mér frá því að þeir hafi keypt bréf í Skeiðarársandsveginum, og þeir voru glaðir, m.a. vegna þess að þeir höfðu fengið vinninga, þessir menn sem sögðu mér frá þessu, en þeir voru líka mjög glaðir yfir því að hafa átt sinn þátt í því að hrinda þessu stórvirki í framkvæmd og hafa haldið áfram einmitt að nota þá fjármuni og bætt því við sem þeir höfðu þannig eignast í gegnum þessi happdrætti með því að kaupa bréf á nýjan leik. Ég er því sannfærður um að þessi leið er vinsæl og farsæl og ég held að það sé líka ljóst að það eigi að vera hægt að selja þetta miðað við þá reynslu sem af þessu hefur orðið.

Ég skal ekki lengja mál mitt hér að þessu sinni. Ég vil aðeins skýra frá því, að ég gat þess í hv. Ed. í sambandi við frv. um breyt. á vegal. að nú þegar hefur verið gerð athugun á kostnaði við þá vegakafla á leiðinni vestur og norður sem þegar væri hægt að leggja varanlegu slitlagi, þeir eru þannig undirbúnir. Það eru um 100 km tæpir sem þar er um að ræða og mundi kosta um 700 millj. kr. Það hefur einnig verið gerð athugun á því að leggja varanlegan veg austur á Hvolsvöll og kostnaður við það frá Skeiðavegamótunum er um 400 millj. kr., að ljúka varanlegum vegi alveg austur að Hvolsvelli frá Skeiðavegamótunum. Í þriðja lagi hefur verið gerð athugun á kostnaði við að leggja veg yfir Eldhraun að Skálm og á Mýrdalssandi og enn fremur fyrir Hvalneshorn og á Breiðamerkursandi, og er hér um að ræða fjárhæðir sem eru um 450 millj. kr. Það verður haldið áfram að gera athugun á því, hvað kostar að leggja varanlegt slitlag á vegi landsins og liggur hér fyrir frumáætlun um það, hvað mundi kosta að gera varanlegan veg frá Hvolsvelli vestur um land til Akureyrar. Eru það rúmir 7 milljarðar miðað við það verðlag sem nú gildir. Þetta er að vísu gróf áætlun, en gefur þó nokkra hugmynd um þetta. Mér sýnist að það takmark, sem við gætum sett okkur og það kom fram í ræðum hv. alþm. í Ed., sé að ná hringveginum saman úr sæmilega varanlegu efni á svo sem þremur vegáætlunartímabilum eða eitthvað þar í kring. Þá verður haldið áfram að skoða þann hluta landsins þar sem er ekki búið að gera grófar áætlanir um varanlega vegi, — þ.e. frá Akureyri austur um að Hvolsvelli, og það mun verða gert næsta sumar. Enn fremur liggur einnig áætlun fyrir um Reykjanesveginn suður í Engidal og er talið að það muni kosta um 200 millj. að gera þann veg með brúnni á Kópavogslæk sem er nú stærsti liðurinn í þessu.

Hér hafa verið gerðar frumáætlanir um þetta og að sjálfsögðu verða svo fjárhagsmál Vegagerðarinnar til meðferðar við framlenging vegáætlunar, en ég geri ráð fyrir að verði horfið að því að leggja fram nýja vegáætlun sem verður svo unnin á eðlilegan hátt af hv. fjvn. og Alþ. Í þessum athugunum er einnig Djúpvegur, en þar er nokkurt fé eftir af því, sem seldist af happdrættisbréfunum í fyrra, til framkvæmda á næsta ári.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta því að ég hef áhuga á því að málið komist áfram. Ég endurtek þakkir mínar til hv. n. og veit að samstaða mun halda áfram um málið hér í hv. Alþ., enda er enginn vilji til annars en að koma vegamálunum almennt áfram í landinu. Þurfum við að gera heildaráætlun um hvað við ætlum okkur langan tíma til þeirra verka.