13.12.1974
Neðri deild: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

111. mál, Hitaveita Suðurnesja

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með þeim, sem fagna því að þetta frv. er komið fram. Hér er um ákaflega veigamikið mál að ræða að mínu mati. Ég hef oft gert grein fyrir því, að ég lít svo á að það stórvirki, sem íslendingar þurfa að einbeita sér að á næstu árum sé að nýta sína eigin orkugjafa sem allra mest í stað þess að flytja inn olíu, sem er orðin ákaflega dýr og þar sem hætta er á pólitískum vandamálum í tengslum við hana. Ég tel, að þessi mikli áfangi, hitaveita á Suðurnesjum, þurfi að falla inn í heildaráætlun, sem okkur beri að gera, eins og fyrrv. ríkisstj. lagði til og till. hefur verið gerð um á þessu þingi, þannig að við einbeitum okkur að því verkefni að nýta jarðvarmann hvar sem hann er tiltækur, en hraða eins og við erum menn til að flytja næga raforku til annarra landshluta, sem ekki eiga kost á jarðvarma, og það á fyrst og fremst við um Vestfirði og Austfirði og ýmsa smærri staði á Norðurlandi og víðar.

Þetta frv. var að verulegu leyti undirbúið í tíð fyrrv. ríkisstj. og í því eru ekki ákvæði, sem ég tel mig þurfa að ræða neitt sérstaklega. Hins vegar er vissulega farið fram á ákaflega mikið, þegar óskað er eftir því, að Alþ. afgreiði þetta mál á einni viku innan um önnur stórmál, sem þarf að fjalla um, eins og fjárlög og ýmis slík mál. Mér finnst þetta mál sem sé koma fram undarlega seint. Ég átti von á því, að það kæmi fram þegar í þingbyrjun, þannig að Alþ. fengi ráðrúm til að fjalla um það á venjulegan hátt. Hins vegar skil ég ákaflega vel áhuga þeirra suðurnesjamanna á að fá sem fyrst tök á því að hefja þarna framkvæmdir og mun fyrir mitt leyti stuðla að því að frv. verði afgreitt hér á þingi eins fljótt og hægt er.

Í þessu sambandi hefur verið minnst á 14. gr. frv., þar sem ráðh. er veitt heimild til þess að leyfa Hitaveitu Suðurnesja að taka eignarnámi jarðhitaréttindi, vatnsréttindi, lönd og mannvirki og önnur réttindi o.s.frv., eins og í gr. stendur. Í þessu sambandi kom hv. þm. Gils Guðmundsson með fsp., sem hæstv. ráðh. hefur ekki svarað enn. En ég vil í sambandi við þessa gr. minna á það, að fyrir þessu þingi liggur frv. til l. um breyt. á orkulögum, þar sem er að finna alveg ný ákvæði um háhítasvæðin svokölluðu, sem skilgreind eru sérstaklega í frv., og eitt þessara háhitasvæða er Svartsengi. Í þessu frv. segir svo um þessi svæði:

„Ríkið á allan rétt til umráða og hagnýtingar jarðhita á háhitasvæðum og uppleystra efna og gastegunda, sem háhita og gufu fylgja, þó með takmörkunum, sem í lögum þessum greinir.“

Ég hygg, að það væri ákaflega skynsamlega að verki staðið hjá Alþ. að afgreiða þessi tvö mál samhliða. Ég hygg, að það mundi leysa ærið mikinn vanda sem kann að koma upp á Suðurnesjum ef búið væri að afgreiða frv. eða ef það yrði afgreitt jafnhliða frv. um háhítasvæðin. Ég býst við, að það mundi geta falið í sér umtalsverða fjármuni, bæði fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum og ríkissjóð, sem stofnkostnaður yrði ódýrari en ef annað hvort yrði að sæta þeim kröfum, sem eigendur þarna gera sér hugmyndir um, sem mér er kunnugt um að eru mjög háar, eða leggja málið undir mat dómkvaddra manna, því að við höfum reynslu af því að slíkt mat er yfirleitt mjög hátt. Ég tel að þarna sé um að ræða sameign, sem er algerlega augljós, og að hin almennu eignarréttarákvæði í þjóðfélagi okkar eigi ekki að ná til verðmæta af þessu tagi.

Ég held að það gildi einu hvaða afstöðu menn hafa til eignarréttar almennt. Þessi orka, sem er í iðrum jarðar og hvorki verður könnuð né nýtt nema almannafé og forusta ríkisins komi til, er þess eðlis, að einstaklingar geta ekki átt rétt á stórum fjárhæðum fyrir nýtingu hennar. Það er eðlilegt, að þeir eigi sinn almenna rétt hvað varðar landið og annað slíkt, en að þeir eigi rétt á stórfelldum fjármunum fyrir það að verið er að nýta orku jarðar í þágu alþjóðar tel ég vera algerlega rangt. Lagadeild Háskólans hefur úrskurðað að hún telji að ákvæði frv. um háhitasvæði stangist ekki við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, og hv. d. er búin að fjalla um þetta mál svo gaumgæfilega, að það eiga ekki að þurfa að verða nein vandkvæði á því, að iðnn. þessarar d. afgreiði þessi mál samhliða. Ég held, að slík afgreiðsla sé forsenda þess, að unnt sé að tryggja það, að hægt verði að stofna Hitaveitu Suðurnesja á eins hagkvæman hátt og kostur er, ella séum við að tefla í tvísýnu hvað þetta atriði varðar. Þar er bæði um að ræða fjárhagslegt atriði og siðferðislegt atriði að minni skoðun.

Ég vil sem sé mælast mjög eindregið til þess við hæstv. ráðh., að hann beiti sér fyrir því að þessi mál verði afgreidd samhliða, vegna þess að ég fæ ekki betur séð en frv. um háhitasvæði sé hreinlega forsenda þess að skynsamleg lausn fáist á eignarréttarvandamálum í sambandi við Hitaveitu Suðurnesja.