13.12.1974
Neðri deild: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

76. mál, nýting innlendra orkugjafa

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það er ótrúlegt að það þurfi nú að slíta í sundur ræðu mína hér aftur. Það hefur gerst allmerkilegur hlutur í þessu máli. Það er sýnilegt að hv. 4. þm. Norðurl. v. hefur farið hér málavillt, hann talar um allt annað mál en það, sem er á dagskrá, og vitnar hér í umr., sem voru um allt annað mál en það, sem hann hélt að hann væri að tala um. Hann segir í sinni ræðu, að þegar svo hafi verið komið í þessum umr., að 3. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, hafi verið „dauður“, eins og talað er um í umr. eða hafi ekki haft rétt til þess að tala hér áfram, þá hafi ég kvatt mér hljóðs í þessu máli. (Gripið fram í: Er það ekki rétt?) Leyfið mér að halda áfram, þá ferð þú að skilja samhengið því að þú ert ruglaður enn þá. En til þess auðvitað að koma nú, eins og hann segir, höggi á Magnús, þegar hann gæti ekki borið hönd fyrir höfuð sér, þá hafi ég sagt hver mín afstaða væri til málmblendiverksmiðjunnar o.s.frv. Þetta er mesti misskilningur. Hv. þm. getur lesið allan þann hluta af minni ræðu sem ég flutti um þetta mál, og þar er hvergi minnst einu einasta orði á þetta, sem hann er að segja, ekki einu einasta orði, af því að þetta mál var alls ekki á dagskrá. Hann er að rugla hér saman tveimur málum og því, sem ég sagði hér um allt annað mál. Þá var hér til umr. í þinginu fsp. frá Jónasi Árnasyni í sambandi við málmblendiverksmiðjuna. Þær umr. höfðu farið hér fram samkv. þingsköpum. Ég kvaddi mér þá hljóðs rétt í lok þeirra umr. og gerði þar smáaths. og greindi þar m.a. frá því hver hefði verið afstaða mín allan tímann til málmblendiverksmiðju. Ég sagði í þessum stutta fsp.tíma, þar sem ég mátti ráða yfir tveimur mínútum, að ég vildi óska þess, að ríkisstj. hlutaðist til um að umr. um þetta stórmál gætu farið hér fram með eðlilegum hætti í þinginu sem fyrst svo að mér og öðrum gæfist kostur á því að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. En ég sagði það í einni setningu, að frá fjárhagslegu sjónarmiði, teldi ég þetta einstaklega vitlaust fyrirtæki og óhagstætt. Ég hef hins vegar ekki fengið neitt tækifæri til þess að gera grein fyrir því í umr. um þetta mál á hverju ég byggi þessa afstöðu mína.

Þetta er sem sagt alger misskilningur hjá hv. þm. að þetta hafi ég sagt, sem hann segir hér í sambandi við þessar umr. og þessa stöðu Magnúsar Kjartanssonar, þegar umr. var komið það langt um þetta mál, að Magnús Kjartansson átti ekki kost á því að tala hér lengur. En ég var flm. með honum að þessari till., sem hér var til umr. og er til umr., og því tók ég hér til máls til þess að ræða frekar við fulltrúa ríkisstj., sem höfðu haldið uppi sínum sérstaka málflutningi í þessum efnum, og vék að því sem þeir höfðu sagt, m.a. á þann hátt, sem ég var að gera hér áðan og þessi hv. þm. auðvitað hafði ekkert um að segja, ekkert. Hann grautar því hér saman óskyldum málum og heldur, að hér sé málmblendiverksmiðjumálið á dagskrá. En það er nú ekki því að heilsa að málið sé þannig. Það kemur hér væntanlega á dagskrá, og þá gefst okkur tækifæri til þess að ræða um það. Hitt kemur svo auðvitað engum á óvart, ekki a.m.k. mér, að þessi hv. þm. þarf ekki að heyra annað í einu miklu máli en það að einhver ráðh. eða einhverjir hafi talað við útlendinga t.d. um að kaupa af okkur orku og þá er sjálfsagt að verja það mál og halda uppi vörnum fyrir hann og bjóða honum liðstyrk á allan hátt, hann þarf ekki meira. Þannig stillir hann upp málinu.

En hans málflutningur var svo býsna sérstæður hér á annan hátt en þann að rugla þessum málum svona saman. Svo kom hann hér auðvitað með hinar svæsnustu árásir á Magnús Kjartansson, eftir að hann var búinn að taka það fram, að nú gæti Magnús ekki lengur talað í þessu máli, og sagði, að hann hefði hindrað í 3 ár raforkuframkvæmdir á Norðurlandi og því væru menn þar skildir eftir við geigvænlegt ástand, hörmulegt ástand o.s.frv., og svo auðvitað þegar hann var búinn að ryðja öllum þessum stóru ásökunum út úr sér, þá sagði hv. þm.: „Ekki ætla ég nú að ásaka Magnús Kjartansson.“ Svona var allur málflutningurinn. Þetta er þessi venjulegi málflutningur sem við þekkjum svo vel úr Morgunblaðinu. En þetta var auðvitað þarna flest á höfði hjá hv. þm. Hann veit mætavel að þeir erfiðleikar, sem nú eru fyrir hendi í raforkumálum á Norðurlandi, eru afleiðingar frá því sem við var tekið af viðreisnarstjórninni á sínum tíma. Það vissu allir að bað var ráðist í mjög dýrt orkuver við Laxá sem átti að leysa þessi raforkumál á Norðurlandi. Og sú stjórn hélt áfram með þau mál út í algerar ógöngur, þó að hún sæi að þetta gæti aldrei farið á annan veg en illa. Vinstri stjórnin tók við þessu erfiðleikamáli og hún stóð í því alllangan tíma að reyna að ná þar samkomulagi, og þetta varð auðvitað til þess að framkvæmdir í raforkumálum á Norðurlandi drógust, af því að þeir menn, sem höfðu með framkvæmdir í raforkumálum á Norðurlandi að gera, stóðu áfram í þessari deilu og vildu halda deilunni áfram. Það er vitanlega ekki á færi ríkisstj. að ákveða að ráðast í framkvæmdir í raforkumálum á Norðurlandi þvert gegn vilja þeirra sem með þau mál hafa að gera þar í fjórðungnum, eins og t.d. stjórnar Laxárvirkjunar, sem hélt áfram þessari deilu. Þetta veit auðvitað þessi hv. þm. mætavel, þó að hann kjósi nú frekar, sérstaklega með tilliti til þess að Magnús Kjartansson hefur hér takmarkaða aðstöðu til þess að taka til máls, þótt hann óski eftir því, að snúa þarna sannleikanum gersamlega við.

Á svipaða lund var hjá honum sannleikurinn þegar hann fór að ræða um það, hvað Magnús Kjartansson hefði gert í sambandi við viðtöl hans við forsvarsmenn Alusuisse. Hann veit mætavel um þau viðtöl, sem Magnús Kjartansson á sínum tíma átti við þessa aðila, af því að það hefur komið fram opinberlega. Hann veit, að þar var fyrst og fremst verið að reyna að losa um þann vandræðasamning sem fyrrv. ríkisstj. hafði gert í raforkusölu til þessa fyrirtækis, sem hefur kostað okkur ekki aðeins hundruð millj., heldur þúsundir millj. í töpuðu fé, vegna þess að orkan er þar seld á óheyrilega lágu verði. Það voru gerðar tilraunir til þess að losa um þessa samningagerð og það fannst möguleiki á því, vegna þess að hinir erlendu aðilar urðu að viðurkenna það að samningarnir væru þeim svo hagstæðir að það væri full ástæða til að taka þá til endurskoðunar. Hv. þm. veit mætavel að þessi viðtöl voru á þessum grundvelli.

En það smekklega við ræðuhald þessa þm. var eins í öllum greinum. Hér þuldi hann svo langan lestur um afstöðu Jónasar Árnasonar í sambandi við málmblendiverksmiðjumálið, hvað hann hefði sagt og skrifað, vitandi það að Jónas Árnason er hér ekki á þingi og hefur enga aðstöðu til þess að svara honum á neinn hátt og vitandi það einnig að væntanlega kemur þetta stóra ágreiningsmál til umr. í þinginu með eðlilegum hætti innan skamms og mönnum gefst þá kostur á því að gera grein fyrir afstöðu sinni.

Eitt af því sem hv. þm. sagði hér um afstöðu Magnúsar Kjartanssonar var að hann hefði horfið frá því að skylda álverksmiðjuna í Straumsvík til þess að setja upp dýr hreinsitæki. Þetta er auðvitað þveröfugt við það sem liggur fyrir. Ég hygg meira að segja að Morgunblaðið hafi á sínum tíma skýrt nokkurn veginn rétt frá því sem gerðist í málinu, en þessi hv. þm., sem jafnframt er ritstjóri Morgunhlaðsins, vill auðvitað ekki hafa hið sanna í þessu máli, sérstaklega með tilliti þess að hann er að koma þarna höggi á Magnús Kjartansson, sem ekki getur talað við hann í þessum umr., og svo segir hann á eftir: Auðvitað er ég að verja Magnús Kjartansson fyrir Lúðvík Jósepssyni. Ja, þvílík öfugmælavísa!

Það kemur að sjálfsögðu í ljós þegar umr. verða hér um málmblendiverksmiðjuna á Grundartanga, hver hefur verið og hver er afstaða mín til þess máls og væntanlega einnig afstaða Jónasar Árnasonar og annarra manna úr Alþb. og Magnúsar Kjartanssonar. Magnús Kjartansson hefur staðið að því að flytja tillögu á okkar landsfundi í Alþb., þar sem því er slegið föstu að hann telji, eins og okkar flokkur, ekki rétt, miðað við þær aðstæður, sem við búum við nú, að eyða fjármunum okkar eða raforku til þessarar verksmiðju. Ég geri fyllilega ráð fyrir því að Magnús muni gera hér grein fyrir sinni afstöðu til þessa máls þegar þar að kemur, og er í rauninni alveg óþarft að ætla að draga það inn í þessar umr. Mig langar mikið til þess að fá tækifæri til þess hér á Alþ. að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Það verður alls ekki gert á þessum 15 mínútum, ég þarf nokkrar 15 mínútur til þess að fara yfir þetta mál.

Ég tel mig geta sannað það á alveg óumdeilanlega hátt að samningar á þeim grundvelli, sem liggja nú fyrir í sambandi við þessa verksmiðjubyggingu, séu okkur óhagkvæmir, fjárhagslega, óhagkvæmir, miðað við það að við ráðstöfum þeirri orku, sem gert er ráð fyrir að selja til þessarar verksmiðju, á annan veg. En það bíður að sjálfsögðu að ræða það mál.

Ég vil svo segja það að það er algerlega óþarfi af hv. 4. þm. Norðurl. v., Eyjólfi K. Jónssyni, að hafa neinar áhyggjur af ástandinu innan Alþb. og það trúir því víst enginn nú og hann ekki sjálfur þó að hann reyni að stagast á því að hann sé þar að taka upp hanskann fyrir einn eða annan í sambandi við málarekstur innan okkar flokks. Við tókum það skýrt fram allan tímann, og þá ekki síst Magnús Kjartansson í tíð fyrrv. ríkisstj., að Alþb. sem flokkur hefði ekki tekið sína flokkslegu afstöðu til þess hvort rétt væri að ráðast í byggingu þessarar verksmiðju eða ekki. Það höfðu reyndar aðrir flokkar ekki heldur gert þá. Hér fór fram sérstök könnun á því í viðræðum við erlenda aðila hvort hagkvæmt væri að selja tiltekinn hluta af orku hins nýja orkuvers á þennan hátt. En nú sem sagt höfum við, og þannig hygg ég að sé ástatt með flesta aðra flokka, — við höfum tekið afstöðu til þessa máls og að sjálfsögðu út frá þeim forsendum, sem nú liggja fyrir, og okkar afstaða er þarna mjög skýr. Ég efast hins vegar ekkert um það, að í máli eins og þessu, eins og reyndar mörgum öðrum málum, leggja hinir einstöku aðilar innan flokksins misjafna áherslu á það, hvað þeir telja þýðingarmest. Ég hef þá afstöðu fyrir mitt leyti, til þessa máls, að ég tel frá efnahagslegum sjónarhól séð, að þátttaka í þessari verksmiðju og samningar um orkusölu til hennar séu óhagkvæmir. Það er eitt höfuðatriði að ég tel að við eigum að nota okkar orku þarna á annan veg. Jónas Árnason hefur lagt áherslu á það, eins og fram kom í þeim upplestri, sem hv. þm. hafði hér með höndum úr viðtali Jónasar Árnasonar við tiltekið blað, — hann leggur hér mikla áherslu á ýmsa aðra þætti, sem vissulega ber að taka tillit til einnig, en ég fyrir mitt leyti legg höfuðáherslu á þetta sem ég sagði.

Það er líka gersamlega út í bláinn, að það sé innan Alþb. einhver meginágreiningur, það séu einhverjar deilur á milli mín og Magnúsar Kjartanssonar. Allt slíkt er bara bull út í bláinn. Engu slíku er til að dreifa. Það kann vel að vera að það komi upp ýmis mál, sem við getum haft skiptar skoðanir á. Það er ekkert nýtt.

Ég vildi svo aðeins segja það, ef frekari umr. eiga að verða hér um þetta mál, þá vildi ég óska eftir því að menn ræddu það mál, sem er á dagskrá, en ekki eitthvert allt annað mál, nema til þess sé ætlast af stuðningsmönnum ríkisstj., að við tökum hér upp undir þessum dagskrárlið almennar umr. um málmblendiverksmiðjumálið. Þá getum við auðvitað gert það. En þá viljum við fá fullan ræðutíma til þess. Það verður ekki tekið upp, þegar við erum búnir að tala okkur út í þessu máli, undir þessum dagskrárlið. Við viljum fá fullan ræðutíma til þess.

Ég vil svo að menn taki eftir því að hv. 4. þm. Norðurl. v. hafði í rauninni ekkert um það mál að segja sem á dagskrá var, en kastaði sér út í allt annað mál.