13.12.1974
Neðri deild: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

76. mál, nýting innlendra orkugjafa

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að efna það loforð að tala ekki lengi. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson hélt því fram að ég stæði í þeirri meiningu að málmblendiverksmiðjan væri hér á dagskrá. Ég veit, að það er verið að tala um innlenda orkugjafa, en mér skilst nú að það þurfi töluverða orku í málmblendiverksmiðju, svo að ekki er nú óeðlilegt þó að hún blandist inn í slíkar umr. En ég vakti sjálfur á því athygli að það hefðu verið í fleiri en einu og fleiri en tveimur málum sem þetta innanflokksuppgjör hefði farið hér fram á Alþ., sem ég var sérstaklega að ræða um. Hann sagði að það hefði verið í annarri ræðu en um þetta mál sem hann gat þess að ósamkomulag hefði verið á milli ráðh. Alþb. í afstöðunni til málmblendiverksmiðjunnar, hv. þm. Magnús Kjartansson hefði verið með henni en hann á móti. Þetta er út af fyrir sig alveg rétt. En hann hafði sérstaklega orð á því að ég talaði hér þegar Stefán Jónsson hv. þm. væri ekki viðstaddur. En ég spyr hv. þm. Lúðvík Jósepsson: Var Magnús Kjartansson hér viðstaddur þegar þessi ummæli voru látin falla? Var hann viðstaddur hér í þingsölunum? Var hann viðstaddur þegar hv. þm. Stefán Jónsson og Jónas Árnason réðust á hann? Ég veit ekki betur en hann hafi verið fjarstaddur, og þess vegna var tækifærið notað. (LJós: Þetta er slúður að ég hafi ráðist á hann, það er —) Og kannske slúður líka, að Lúðvík Jósepsson hafi gert það. (LJós: Já, já, það er auðvelt að skoða það í þingtíðindum.) Já, já. Það var um hreinsitækin. Þau eru ekki komin upp, það er staðreynd. Við skulum ekkert vera að deila um það neitt frekar. Orkuskorturinn á Norðurlandi er afleiðing vanrækslusynda viðreisnarstjórnarinnar. Síðan liðu 3 ár, ástandið versnar ár frá ári og er orðið geigvænlegt núna að. áliti norðlendinga, og þetta á að vera viðreisnarstjórninni að kenna sem fór frá fyrir 31/2 ári. Nei, menn skilja fyrr en skellur í tönnum, hv. þm. Lúðvík Jósepsson, hvern er verið að ráðast á. Það er ekki verið að ráðast á orkumálaráðh. viðreisnarstjórnarinnar, heldur þeirrar, sem tók við, og þessa kúnst kann þm.

Að lokum var sagt, að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af ástandinu innan Alþb. Þar loksins kom þó sannleikskorn. Ég hef hreint engar áhyggjur af ástandinu innan Alþb. Ég hef haft það stundum áður en nú gleðst ég yfir því að það er aldeilis eins og það á að vera. Alþb. er í upplausn.