14.12.1974
Efri deild: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (693)

48. mál, lántökur ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki mörg orð með þessu frv. Eðlilegt er að þetta komi fram og hefði sennilega átt að vera komið fram fyrir alllöngu. Einhver brögð munu hafa verið að því að fyrirtæki á vegum ríkisins hafi fitjað upp á yfirdrætti á viðskiptareikningi í bönkunum án samráðs við sitt rn. Þess vegna er þetta frv. vel tímabært, og ég segi fyrir mitt leyti, að ég vil lýsa þegar yfir stuðningi við frv. og tel eðlilegt að það geti haft greiðan gang í gegnum báðar þd. og orðið að lögum nú fyrir jól.

Það er mjög hvimleitt, eins og við höfum orðið varir við í fjvn., að einstakir forsvarsmenn ríkisfyrirtækja bera sig illa upp um greiðslugetu og ýmislegt og eru í einkafjármagnsútvegunum. Ég tel miklu fremur að þeim beri skylda til að gera greiðsluáætlun og leggja fyrir sitt rn., jafnframt því sem þeim er þá tryggt eðlilegt fjármagn eftir áætlun, sem þeir sjálfir gera fyrir árið, og leggi það fyrir viðkomandi rn.., eins og óskað hefur verið eftir af hálfu fjvn., í tæka tíð, það verði því aðhald á báða bóga bæði af hálfu viðkomandi rn. að tryggja eðlilegt fjármagn eða Alþ., og einnig aðhald frá fjárveitingavaldinu eða viðkomandi ráðh. að tryggja að ríkisfyrirtæki fari ekki út fyrir þann ramma, sem því hefur verið markaður. Þess vegna fagna ég þessu frv. og lýsi yfir því, að ég fellst mjög á að veita því greiðan gang í gegnum nefnd og deild.