14.12.1974
Efri deild: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Jón Árm. Héðinsson:

Hérna forseti. Ég er efnislega með þessu frv., en vildi þó gera nokkrar athugasemdir eða fsp. réttara sagt og vildi þá byrja á því að fjalla um 4. gr. þar sem segir svo: „Skuldabréfin eru verðtryggð og undanþegin framtalsskyldu, vextir og vinningar eru skattfrjálsir.“ Ég man nú ekki betur en lengi hafi verið deilt um þetta atriði, að ekki skyldi vera sett á nafn, þegar talað var um verðtryggð bréf í mun minna mæli en hér er fjallað um. Ég vildi spyrja hæstv. samgrh. og fyrrv. fjmrh. af hverju við setjum ekki á nafn hér. Þegar við erum að fjalla um upphæð sem er um 2 þús. millj. kr., tveir milljarðar. Þetta er ávísun á framtíðina og miðað við þá verðbólgu, sem verið hefur undanfarið, er hér um nærri því óútfylltan víxil gagnvart framtíðinni að ræða. Það þarf einhver beita að vera fyrir þá, sem kaupa þessa upphæð, en þó að um nokkra beitu sé að ræða og á ég þar við verðtrygginguna, þá ætti ekki að vera gefinn kostur á því að hafa af þessu aukagagn og þurfa ekki að telja fram nafn sitt í sambandi við kaupin á bréfunum. Ég legg því persónulega á það sérstaka áherslu að þarna verði bætt inn í, að bréfin skuli skráð á nafn kaupanda. Þegar við erum að ráðstafa svona gífurlegum upphæðum fyrir framtíðina og binda með því verulegan bagga fyrir fjárveitingavaldið fyrir fram, þá tel ég að eigi að vera á hreinu hvernig bréfunum er ráðstafað og hverjir kaupa þau, afdráttarlaust. Ég tel þetta nærri forsendu fyrir stuðningi í því efni. Í annan stað sé ég breytingu á þskj. 141 og er með vangaveltur um það af hverju sé verið að úthluta vissum skömmtum á hringveginn þegar við erum hér með sameiginlegu átaki fyrir alla þjóðina, af því að við höfum hækkað upphæðina. Upphaflega var þetta ákveðinn áfangi og þá miðað við miklu minni upphæð, nú hafa allir sameinast um að leysa þetta mál, sem ég tel út af fyrir sig vel. En þá finnst mér að við eigum að líta á landið sem eina heild og miða við almennar þarfir, ekki að úthluta landinu fyrir fram í slík svæði, eins og þessi till. gengur út á.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu og heyra viðhorf samgrh., vegna þess að hér mun áreiðanlega koma til að allir landsmenn þurfa að standa í skilum þegar að greiðsluskyldu kemur, sem eigi verður síðar en innan 10 ára, eins og segir í 2. gr. Að öðru leyti vil ég lýsa yfir efnislegum stuðningi við frv., en vildi vekja athygli á þessum þáttum.