11.11.1974
Neðri deild: 7. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

4. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir til umr., er eitt af þeim, sem hefur fylgt með í hinum almennu efnahagsaðgerðum hæstv. ríkisstj. og er vegna sérstakra ráðstafana í sjávarútvegsmálum. Í rauninni fjallar þetta frv. um fjögur meginatriði:

1. Með því er ákveðið hvað fiskverð skuli vera á tilteknu tímabili eða það sem eftir er þessa árs frá því að 1. voru sett sem brbl. Þarna er um nýlundu að ræða, að ákveða með l. hvert fiskverðið skuli vera, og réttur er þar tekinn af þeim, sem um þessi mál hafa fjallað samkv. lögum.

2. Þá fjallar frv. um það að raska i grundvallaratriðum skiptakjörum sjómanna á fiskiskipaflotanum og er ég þar heldur betur ósammála hæstv. sjútvrh., sem sagði, að með þessu frv. væri þessum skiptakjörum ekki raskað. En það er einmitt eitt meginatriði frv., eins og ég skal víkja að síðar.

3. Þá fjallar frv. um nokkra breyt. á l. um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins.

4. Þá er um að ræða ákvæði varðandi ráðstöfun á svonefndum gengishagnaði.

Ég geri ekki ráð fyrir því, að við þessa umr., 1. umr. um málið, verði umr. hér á mjög breiðum grundvelli um stöðu sjávarútvegsins, en til þess mun gefast betri tími síðar og sérstaklega þegar þetta frv. kemur úr n. Ég skal því ekki fara út i að ræða um þau mál á breiðum grundvelli, heldur halda mig fyrst og fremst við hin beinu efnisatriði þessa frv.

Það er þá fyrsta atriðið, sem um er fjallað í 1. gr. frv., þ.e.a.s. um að binda fiskverðshækkun við 11% á tímabilinu frá 1. sept. til ársloka. Það vekur athygli, að í þessari gr. er beinlínís sagt, að þess skuli gætt, að fiskverðið hækki ekki meira en um 11%. Það er lagt bann við því, að fiskverðið hækki meira. Ég tel að þessi ráðstöfun sé vægast sagt vafasöm og í rauninni ótrúlegt að hún eigi ekki eftir að draga dilk á eftir sér, því að það er augljóst, að með þessu ákvæði er gengið freklega á launakjör sjómannastéttarinnar í landinu. Það liggur sem sagt fyrir, eins og kom hér fram hjá hæstv. sjútvrh., að það hefur orðið talsverð aflarýrnun, einkum hjá bátaflotanum viða við landið. Í þeirri efnahagsskýrslu, sem lögð var fyrir alþm. á miðju ári og mikið hefur verið rætt um, þar sem gerð var áætlun um væntanlega afkomu sjávarútvegsins á komandi ári, var beinlínis gengið út frá því í þeirri áætlun, að það yrði að reikna með 13.5% aflarýrnun, og áætlunin var byggð upp á þeim grundvelli, vegna þess að það lá fyrir, að aflinn hafði minnkað um svipaða prósentutölu. Eins og bent hefur verið á hafði aflarýrnunin á bátaflotanum orðið allmiklu, meiri. T.d. hér á Suðvesturlandi og víðar við landið hafði aflaminnkunin orðið talsvert meiri en þetta. Nú er það líka alveg ljóst, að fiskverð til sjómanna, sem ákvarðar laun sjómanna, hefur staðið alveg óbreytt síðan um áramót. Þar koma ekki til neinar sérstakar hækkanir þeim til handa eins og þær, sem samið var um í hinum almennu kjarasamningum í lok febr., og ekki heldur neinar vísitöluhækkanir, sem hafa orðið síðan um áramót. Sjá því allir, að með því að binda í l., að fiskverðið megi ekki hækka um meira en 11 %, er beinlínis verið að ákveða, að sjómenn, einkum á bátaflotanum, skuli verða að sætta sig við færri krónur í sinn hlut á þessu tímabili en reiknað var með um síðustu áramót að þeir ættu að hafa. Hér er verið að gera ráð fyrir í krónum talið beinni kauplækkun.

Þetta hefur auðvitað ekki farið fram hjá sjómannasamtökunum í landinu, og því hafa þau mótmælt þessu harðlega. Það var svo að heyra á hæstv. sjútvrh., að hann væri einkum ánægður með lagasetninguna af því að allir hefðu mótmælt. Það er út af fyrir sig heldur einkennileg meðmæli. En þessu var ekki svo farið einu sinni, að það mótmæltu allir. Ég held t.d. að togaraeigendur hafi aldrei mótmælt þessari lagasetningu, ekki kannast ég við það, enda þætti mér það heldur einkennilegt. En það var eðlilegt, að það bæri mjög á þessu frá hálfu sjómanna, því að á þeirra hlut er freklega gengið með þessari lagasetningu.

Þá er einnig þess að gæta fyrir utan aflarýrnunina að einmitt á þessum tíma ársins, þ.e.a.s. frá því í sept. og til ársloka, er viðurkennt að hér er um langsamlega veikasta útgerðartímann að ræða svo að segja um allt land, afli yfirleitt heldur minni en á hinum tímum ársins og sjósóknaraðstaða öll miklu erfiðari, og því hefur venjulega þótt erfitt að manna skipin á þessum tíma,:enda stundum gerðar alveg sénstakar ráðstafanir til þess að hækka fiskverð þennan tíma. En nú sem sagt hefur hæstv. ríkisstj. talið það eitt af því þýðingarmesta í öllum þessum ráðstöfunum að tryggja að launakjör sjómanna skyldu þó versna meir en allra annarra, og það beinlínis tekið fram til skýringar, að þetta sé gert til þess að gæta samræmis í launakjörum milli atvinnustétta. En það þýðir auðvitað, að ríkisstj. hefur talið að það væri veruleg hætta á því, að hlutur sjómanna yrði of mikil, að hættan stafaði einkum af þessu og þá auðvitað gamla röksemdin: Af því að hlutur sjómanna yrði góður á þessu tímabili, þá hleypti það góða kaup þeirra öllu af stað í þjóðfélaginu. — Það er sú gamla kenning, að kauphækkanirnar í landi hafi yfirleitt átt sér stað vegna þess að sjómenn hafi drifið allt af s:tað með of háu kaupi. Hér er auðvitað um grundvallarmisskilning að ræða og alveg furðulegt verð ég að segja, að hæstv. núv. sjútvrh. skuli hafa fallið fyrir svona röksemdum, því að honum á að vera það vel kunnugt, að aðstaðan til þess að halda í gangi útgerðinni í landinu var einmitt þannig nú, að það þurfti fyrst og fremst að ýta undir kaupið hjá sjómönnum, til þess að hægt væri að fá góða menn á fiskiskipaflotann, einkum á þessum tíma, og þá alveg sérstaklega á bátaflotann, sem hafði staðið heldur höllum fæti í sambandi við aflann. Ég vil því segja það, að ég er algerlega andvígur 1. gr. frv., sem takmarkar á þennan hátt fiskverðsákvörðunina, og tel að þetta sé óhyggilegt og óréttlátt.

Ég kem þá að annarri meginbreytingunni, sem þetta frv. felur í sér og ég minnist á, en það er sú breyt. sem miðar að því að raska hlutaskiptakjörunum á fiskiskipaflotanum, sem hæstv. sjútvrh. vildi gera lítið úr að verið væri að framkvæma með þessari lagasetningu. En nú vita allir, að hlutaskiptakjörin á fiskiskipaflotanum eru þannig upp byggð, að sjómenn hafa tiltekna hundraðshluta af brúttó aflaverðmæti, og ef raskað er þessu brúttóaflaverðmæti með því að af brúttóaflaverðmæti eru teknar ákveðnar fjárhæðir og þær færðar til og þær koma ekki til skipta, þá er vitanlega verið að raska skiptakjörunum sjálfum. Um þetta hafa deilur staðið yfir i mörg ár, síðan viðreisnarstjórnin á sínum tíma fór inn á þessa braut, — um þetta hafa deilur staðið síðan 1968, að þetta var gert. En nú er sem sagt þessi deila mögnuð á ný með því að hækka á nýjan leik framlög í ýmsa rekstrarsjóði útgerðarinnar af óskiptum afla.

Í fyrsta lagi er hér um að ræða, að framlag:til Stofnfjársjóðs fiskiskipa er hækkað yfirleitt úr 10% af aflaverðmæti í 15%. Þetta er almenna reglan. Vita allir að greiðslur í Stofnfjársjóð ganga til þess að greiða afborganir af bátunum og til þess að greiða vexti af stofnlánum útgerðarinnar. Með því að hækka þetta framlag er veríð að knýja sjómennina til að taka þátt í þessari greiðslu, sem þeir hafa mótmælt og deilur hafa staðið um við þá við gerð kjarasamninga síðan þetta ákvæði var tekið upp. Það er upplýst af hæstv. sjútvrh., að þær breyt., sem felast í þessu frv. varðandi þetta atriði, þ.e.a.s. auknar greiðslur í Stofnfjársjóð, nemi samkv. útreikningum 566 millj. kr. á báta og togara. Þarna er sem sagt verið að taka af óskiptum afla og greiða til annars aðilans, til útgerðarmannsins, þessa fjárhæð umfram það sem áður var. Það auðvitað fer ekkert á milli mála, að með þessu er verið að breyta hlutaskiptakjörunum. En það er ekki aðeins i þessari grein. Einnig er um að ræða ákvæði i þessu frv. um að hækka útflutningsgjöld af sjávarafurðum, sem líka eru tekin af brúttóandvirði, og er gert ráð fyrir því, að greiðslur af útflutningsgjöldum, sem renna í Tryggingasjóð fiskiskipa, sem eiga að standa undir vátryggingakostnaði skipanna, eigi að skila til Tryggingasjóðsins um 285 millj. kr. hærri fjárhæð miðað við ár en áður hefur verið. Það skal að vísu tekið fram, að hluti af þessari upphæð eða 135 millj. kr. stafar beinlínis af gengisbreytingum, og ég geri ráð fyrir því fyrir mitt leyti, að á meðan sjómenn una því kerfi, sem þarna hefur verið í gildi, mundu þeir ekki hafa sagt mikið við því, þó að þarna hefði verið haldið óbreyttu hlutfalli áfram, þ.e.a.s. þó að þær auknu greiðslur, sem renna í Tryggingasjóðinn og stafa beinlínis af gengisbreytingu, hefðu átt sér stað. En hér er um 150 millj. kr. hækkun á útflutningsgjaldinu að ræða auk þessa miðað við áætlun. Þetta miðar líka að því að raska hlutaskiptakjörunum, en það hefur komið fram mjög greinilega við alla samningagerð um kjör sjómanna að undanförnu, að þessu mótmæla þeir harðlega.

Þá er gert ráð fyrir því að leggja á alveg nýtt gjald til þess að greiða niður olíukostnaðinn við rekstur skipanna og er gert ráð fyrir að þetta gjald nemi á ári í kringum 1 230 millj. kr. Þetta er líka tekið af brúttóverðmæti aflans, og á þennan hátt eru auðvitað skipverjarnir látnir standa undir olíukostnaði. Ég tók eftir því, að hæstv. sjútvrh. reyndi að gera samanburð á þessari gjaldtöku nú og því, þegar loðnuskatturinn svonefndi var á sagður um síðustu áramót. Hér er vitanlega gersamlega ólíku saman jafnað. Þá var það þannig, að aðilarnir sjálfir, sem voru að ákveða loðnuverðið, fulltrúar sjómanna og fulltrúar útgerðarmanna annars vegar, sem voru að tryggja sér ákveðið verð fyrir þá loðnu sem þá stóð til að veiða, og þeir aðilar, sem voru að kaupa loðnuna, komu sér saman um tiltekið hráefnisverð á loðnu og þeir komu sér einnig saman um það um leið, að tiltekið gjald skyldi greitt til þess að lækka verð á olíu. Þetta gjald, sem þá var lagt á, ef á að tala um að það hafi verið lagt sérstaklega á einhvern, þá var það greinilega lagt á verksmiðjurnar í landinu, því að það var búið að koma sér saman um hráefnisverðið á loðnu, og engum hafði dottið í hug, að það yrði meira en það var ákveðið. Það er auðvitað alveg rangt hjá hæstv. sjútvrh. að segja það, þegar hann kom hér fram með aukarök fyrir því, að greiða hefði átt nú sérstakan styrk til þeirra síldveiðiskipa, sem veiðar hafa stundað í Norðursjó, að það hafi verið sanngjarnt, að þau fengju nú sérstakan olíustyrk, af því að þau hafi lagt mest til í loðnusjóðinn. Það er rangt, að þau hafi lagt eitthvað í þennan loðnusjóð. Það voru þessi skip, sem einmitt fengu að njóta hins háa loðnuverðs á síðustu vertíð, verðs, sem allir viðurkenna, að var miklu hærra en hægt var raunverulega að borga. Loðnuskipin lögðu því ekkert sérstakt fram í þennan sjóð. Þeir aðilar, sem hafa þurft að borga þetta gjald, eru verksmiðjurnar í landinu. Gjaldið var lagt á með samþykki þeirra, samþykki og vitund bæði fulltrúa sjómanna og útgerðarmanna. En nú er ekki neinu slíku til að dreifa. Nú er um það að ræða að ákveða að koma í veg fyrir tiltekna fiskverðshækkun, binda það með l. í krafti þess, að það á að taka af brúttóverðmætinu ákveðna fjárhæð til þess að borga niður olíu fyrir útgerðina. Hér er því vitanlega alveg ólíku saman að jafna.

En þetta sérstaka útflutningsgjald, sem nú á að leggja á til þess að greiða niður olíu, er líka tekið af brúttóaflaverðmæti í þeim tilgangi að halda aflaverðinu niðri. Það er alveg rétt, það var og er mikið vandamál, hvernig á að glíma við það að olían hækki ekki alltof mikið í verði fyrir útgerðina. Það er mikið vandamál og hefði vissulega getað komið til þess, að það hefði beinlínis þurft að láta alla aðila í Sandinn með einum eða öðrum hætti taka einhvern þátt í þessu heildarvandamáli. En ætla að gera það á þennan hátt, að leggja þetta að hálfu leyti á sjómannastéttina eina, er vitanlega alveg óþolandi og ég trúi því ekki, að þetta fái staðist í reynd, þegar kemur til samningagerðar við sjómenn upp úr áramótum. Ég trúi því ekki. Þessar fjárhæðir, sem hér hafa verið nefndar, eru hvorki meiri né minna en svo, að það er gert ráð fyrir samkv. þessu frv. að taka miðað við ársrekstur af óskiptum afla rúmlega 2 þús. millj. kr. og nota til ákveðinna greiðslna beint í þágu annars aðilans, þ.e.a.s. rekstrarins. En þegar 2 000 millj. kr. eru teknar af brúttóandvirðinu mun það vera nærri því að vera 800–900 millj. kr., sem sjómenn eru beinlínis látnir greiða á þennan hátt, miðað við þau hlutaskiptakjör, sem þeir höfðu samið um og í gildi höfðu verið. Það er verið að leggja á þá þennan aukabagga. Þetta er ráðstöfun, sem ég álít að fái ekki heldur staðist og sé röng.

Ég tel því fyrir mitt leyti, að hækkunin á framlögum til Stofnfjársjóðs og sömuleiðis hin beina hækkun, sem gerð er á útflutningsgjöldum vegna Tryggingasjóðs, eigi hvorug rétt á sér og ég álít, að olíuvandamálið hafi þurft að leysa með öðrum hætti og alls ekki á þann einhliða hátt sem gert er þarna, á kostnað sjómannakjaranna í landinu. Ég verð því að segja, að ég held að hæstv. sjútvrh. verði að taka þessi ummæli sín aftur hreint og skýrt, en gera hvorki sig né aðra hlægilega með því að segja það hér, að með þessu frv. sé ekki breytt á neinn hátt hlutaskiptakjörum sjómanna. Auðvitað er verið að breyta þeim í grundvallaratriðum, og það á hann ábyggilega eftir að heyra miklu betur frá sjómannasamtökunum sem þegar hafa mótmælt þessu. Hætt er við því, að hann eigi eftir að heyra það betur þegar hann kemur að samningaborðinu við þá um áramótin um þeirra kjör.

Þá vík ég að þriðja meginatriðinu, sem þetta frv. fjallar um, en það eru breyt. á l. um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Ég er alveg samþykkur þeirri breyt., sem frv. gerir þar ráð fyrir. Ég tel, að sérstaklega miðað við þær aðstæður, sem nú eru, hafi verið sjálfsagt að setja í lög slík ákvæði sem þarna eru. Það er gert ráð fyrir því með þessari lagabreyt., að heimild sé að láta meira af verðhækkun, sem á sér stað á einstökum vörutegundum, renna í Verðjöfnunarsjóðinn, ef svo stendur á, og að það sé heimilt einnig að greiða meira úr Verðjöfnunarsjóðnum til einstakra greina, þar sem um verðfall er að ræða, heldur en heimilt var samkv. l. eins og þau voru. Ég álít, að þessi breyt. sé í rétta átt og það hafi verið eðlilegt, að Verðjöfnunarsjóðnum væri við þessar aðstæður beitt á þennan hátt. En eins og kom fram hjá hæstv. sjútvrh, miða þessar breyt. að því, að þær greinar, sem nú hafa besta afkomu, eins og t.d. saltfiskverkun og skreiðarverkun, þessar greinar gætu þurft að greiða til sjóðsins í kringum 1 200 millj. kr. á ársgrundvelli, sem er talsvert, miklu meira en hægt hefði verið að láta þær greiða eins og l. voru. En það er hins vegar gert ráð fyrir því líka með þessari breyt., að hægt verði að greiða úr Verðjöfnunarsjóðnum til frystingarinnar sem nemur 700–1000 millj. kr. miðað við ár. Og það er enginn vafi á því, að þörf var á því, að opna þannig fyrir meiri greiðslur úr Verðjöfnunarsjóðnum til þeirra greina, sem hér mættu mestum vanda, en opna líka fyrir það, að hægt væri að nota sjóðinn sem millistöð af þeim greinum, sem betur gengi. Ég er því samþykkur þessu ákvæði í frv.

Þá kem ég að fjórða meginatriði frv., sem er um ráðstöfun á gengishagnaði. Frá því hefur verið greint, að reiknað sé með því, að gengishagnaður í sambandi við gengislækkunina frá 29. ágúst geti orðið í kringum 1 650 millj. kr. og þegar hafi í rauninni verið ráðstafað af þessari fjárhæð um 400 millj. kr., bæði vegna flutningsgjalda og eins vegna olíuniðurgreiðslu á þessu ári, og þá verði samt eftir miðað við áætlun í kringum 1 250 millj. kr. Það hefur einnig komið fram, að það er ekki búið nema að litlu leyti að ráðstafa þessari fjárhæð og það verður gert síðar til stuðnings sjávarútveginum sem heild. En ég tel, miðað við þær upplýsingar, sem liggja fyrir, að það hafi beinlínis verið greiddar sem styrkir eða bein framlög 80 millj. kr. til 31 skuttogara af minni gerð og 22 millj. kr. til 13 skuttogara af stærri gerð og síðan 19.5 millj. kr. til 58 síldveiðiskipa, sem veiðar hafa stundað í Norðursjó. Hér hefur sem sag verið farið inn á þá braut að greiða þessum aðilum miðað við fjölda úthaldsdaga þeirra hverjum um sig tiltekna fjárhæð í beint framlag eða beinan styrk. Það verður eflaust rætt nánar um þetta atriði síðar í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Ég skal því ekki fara langt út í það nú, en ég verð að segja að ég tel að greiðslur af þessu tagi séu vægast sagt mjög vafasamar og beri að fara varlega í slíkt. Ég efast ekkert um það, að afkoma þessara minni skuttogara, 31 skips, hafi verið mjög misjöfn. Það eru til skip, sem hafa átt i talsverðum erfiðleikum, m.a. vegna þess að þau hafa ekki fiskað sem samsvarar meðalafla, og fjárhagur þeirra hefur þá verið kominn í einhvern vanda fyrr, en ég efast heldur ekkert um, að allmörg af þessum skipum hafa haft betri afkomu á þessu ári en þau hafa haft áður, það liggur alveg ljóst fyrir. Ég veit líka að afkoma þeirra er mun betri en yfirleitt hefur þekkst í sjávarátvegi til þessa hjá okkur. En allt um það fá þau greiddan beinan styrk samkv. þessari ákvörðun. Þessi greiðsla til stærri skuttogaranna er þó í rauninni enn þá sérkennilegri, því að þar er ákveðið að greiða 13 skuttogurum af stærri gerð jafnmikinn styrk miðað við úthaldsdag, þó að liggi fyrir, að þessi skip hafi fengið sérstakan styrk nú um hríð úr Aflatryggingasjóði, þó að minni skipin hafi ekki fengið neinar greiðslur úr Aflatryggingasjóði, af því að ekki var talin þörf á að greiða þeim. En bæði minni og stærri skipin standa undir Aflatryggingasjóði og eiga sama rétt í honum.

Hér sem sagt er það ákveðið, að stærri skipin, sem að langmestu leyti eru gerð út fyrir erlendan markað, flytja út fiskinn óunninn, — þessi skip njóti sérstaks styrks úr Aflatryggingasjóði og auk þess fái þau svo þennan dagstyrk, sem þarna hefur verið ákveðinn, og þar með er því slegið föstu, að þau eigi að fá meiri styrk eða meira framlag heldur en minni skipin. Þetta er, eins og vill verða þegar farið er að úthluta styrkjum, vægast sagt vafasamt.

Sama er að segja um 58 síldveiðiskip í Norðursjó. Það hefur verið ákveðið að borga þeim af þessum gengishagnaði 19.5 millj. Það liggur ekki ljóst fyrir, hvernig þessu hefur verið úthlutað, en þó gat ég ekki skilið þær upplýsingar, sem hér komu fram hjá hæstv. ráðh., á annan veg en þann, að þarna hefði verið fylgt sömu reglum greitt miðað við úthaldsdag hvers skips, og þá hafa þeir að sjálfsögðu fengið sinn skammt, þessir sem óneitanlega hafa greitt stórfé á þessu úthaldi, af því að það hefur komið í ljós, að aflinn í Norðursjó núna á þessu ári, þegar hann hefur reynst heldur minni en áður, þá hefur aflinn skipst miklu óhagstæðar, ef svo má segja, á milli skipa en áður var, þ.e.a.s. nokkur skip hafa mikinn afla og mjög góða afkomu, en allmörg skip lítinn afla og sum næstum engan. En þessi skip eiga rétt á því samkv. okkar kjörum, það er búið að vera í gildi hér hjá okkur í langan tíma, við höfum sérstakan sjóð, Aflatryggingasjóð, sem útgerðin getur sátt talsverða hjálp til i þeim tilfellum þegar um aflaminnkun verður að ræða og þau eiga rétt á því að fá þá greiðslu úr þeim sjóði miðað við það, hver afli þeirra hefur orðið; en ég tel að það hefði verið þá langréttast að Aflatryggingasjóður hefði gert upp sakirnar við þessi skip vegna útgerðarinnar á Norðursjó, enda hæpið að ráðstafa gengishagnaðinum á þennan veg. Þá tel ég það einnig mjög hæpið að taka upp þá reglu að greiða niður olíukostnaðinn hjá þeim fiskiskipum, sem stunda veiðar á Norðursjó og eru nánast gerð út frá Danmörku, eru mánuðum saman ytra og búa við allt verðlag og rekstrarkostnað þar og hafa því miður ekki skilað mjög miklu fé hingað heim í þjóðarbúið eftir þennan rekstur. Ég álít, að þau verði á þeim miðum og á þessum mörkuðum að spjara sig á hliðstæðan hátt og önnur skip, sem eru gerð út á þeim slóðum.

Þá hef ég vikið að öllum helstu efnisatriðum þessa frv. og ætlaði mér ekki að fara út í frekari umr. almennt um þessi mál, hef lýst minni afstöðu til þeirra. En hæstv. sjútvrh. vék hér nokkuð að þeim erfiðleikum sem ýmsar greinar sjávarútvegsins stæðu nú frammi fyrir og þá m.a. sérstaklega bátaflotinn á ýmsum stöðum á landinu.

Það er enginn vafi á því, að það er rétt, að ýmsar greinar sjávarútvegsins standa höllum fæti nú, þó að aðrar greinar standi sig óvenjuvel og þar hafi ekki verið og sé ekki þörf á sérstökum stuðningi umfram það, sem í gildi hefur verið. Það vill alltaf verða svo hjá okkur, að afli er mjög breytilegur. Það getur orðið aflaleysi eða mjög lítill afli á ákveðnum veiðisvæðum, þó að hann sé góður á öðrum, og það getur líka misheppnast útgerð með tiltekin veiðarfæri eða jafnvel á tiltekinni bátastærð, þó að önnur sé útkoman með öðrum veiðarfærum eða á öðrum skipastærðum.

Það er að mínu áliti rétt, að það er talsverður vandi, sem bátaútgerðin hér á Suðvesturlandi stendur frammi fyrir, einkum á Reykjanessvæðinu. Til þess liggja margar ástæður og fleiri en þær, að afli hafi þar rýrnað. En það er líka hægt að nefna útgerð á þessu svæði, sem spjarar sig allvel og allt bendir til að geti staðið sig vel frá því svæði ekki síður en frá öðrum svæðum í landinu. Þarna er um til tekin vanda að ræða, sem að sjálfsögðu þarf að leysa. En fyrst og fremst á að leysa vanda af þessu tagi eins og gert hefur verið á undanförnum árum eftir því kerfi, sem í gildi hefur verið hjá okkur, án þess að hægt sé að tala um, að það sé verið að mismuna á nokkurn hátt. Ég veit, að ekki aðeins hér á Reykjanessvæðinu, heldur líka víða annars staðar á landinu hefur útgerð á vissum bátastærðum gengið erfiðlega og ber vitanlega að skoða þau vandamál engu síður en þau sem virðast vera í svipinn séð stærri. En ég tek undir það, að öll vandamál af þessu tagi þarf vitanlega að skoða og reyna að leysa þau, því að þessi rekstur sem heild verður að geta gengið. Hér er um undirstöðuatvinnuveg að ræða. Það verður að tryggja það, að útgerðin geti gengið, en ráðið til þess er ekki það, sem mér finnst að beri svo mjög á í þessu frv., að það eigi að leysa vandann með því að halda niðri kaupi sjómanna.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð við þessa umr. hér nema sérstakt tilefni gefist til, því að það gefst tækifæri síðar að ræða þessi mál öll á breiðum grundvelli, þegar frv. kemur frá þeirri n., sem fær það til athugunar.