14.12.1974
Neðri deild: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

91. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég vil enn vekja athygli á því að á s.l. ári, þegar það frv. til l., sem hæstv. ráðh. núv. mæltu fyrir, þeir Matthíasarnir tveir, var lagt fram, þá var sérstaklega tekið fram að frv. væri mjög vel og vendilega unnið, það væri auðframkvæmanlegt, það hefði farið fram yfirgripsmikil rannsókn og útreikningur á ákvæðum þess, og segir í grg. með þessu frv. að þær till., sem hér liggi fyrir, séu fyllilega tímabærar. Hafi þær verið fyllilega tímabærar fyrir einu ári, hvaða ástæða er þá til þess nú að þurfi að taka sér góðan tíma til að skoða þær í sambandi við endurskoðun skattalaga? Ef þær voru tímabærar í fyrra, er þá ekki enn þá tímabærara að taka þær til endanlegrar afgreiðslu nú?

Það er rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði, að það er sama hugmyndin, sem felst í frv. þm. Sjálfstfl. frá í fyrra um heimild til fjmrh. að veita þeim sem við fiskvinnslu starfa, sérstakan frádrátt, og í frv. okkar nú. Munurinn er sá, að í frvgr. frá því í fyrra er ekki kveðið á um hvernig þetta skuli framkvæmt, í frv. okkar nú er það sagt.

Hæstv. fjmrh. segir um þetta mál að þar sé töluverður vandi á höndum. Þetta hefur heyrst áður. Þetta sagði nefnilega hæstv. fyrrv. fjmrh. við hæstv. núv. fjmrh. í svarræðu sinni í fyrra. Og það er mjög athyglisvert og virðist bera vott um að hæstv. núv. fjmrh. hefur numið vel sin fræði af hæstv. fyrrv. fjmrh. að hann tekur nákvæmlega sama dæmið um vandkvæðin á framkvæmd þessa frv., sem við leggjum fram núna, og hæstv. fjmrh. tók fram í ræðu sinni í fyrra, þ.e.a.s. um bílstjórana. Hæstv. fjmrh. sagði í fyrra með leyfi forseta að svo hefðu þeir — þ.e.a.s. hæstv. ráðh. sem þarna sitja nú — átt að labba út á götuna, þar sem maður var að vinna við gatnagerð, og segja: „Nei, nei, nei, þú vinnur við gatnagerð góði, og þú skalt ekki fá neinn sérfrádrátt. Svo eru bílstjórarnir, sem keyra fiskinn, og alls konar fólk, sem kemur að þessu óbeint: Nei, nei, nei, þið fáið ekki neitt, ég ákvað að þeir þarna inni í salnum skyldu fá þetta. Dettur raunverulega nokkrum hv. þm. í hug að þetta sé framkvæmanlegt af fjmrh.?“ — Og þá grípur einhver fram í, væntanlega núv. hæstv. fjmrh. og segir: „Það má gera þetta, það má setja reglugerð um þetta. Þetta er hægt.“ — Svo kemur hann nú einu ári síðar og ber fyrir sig nákvæmlega sömu röksemdir og hann mótmælti hjá hæstv. fyrrv. fjmrh. þegar hann mælti fyrir áþekku máli.

Það er oft gott að eiga sér varalið. Ég á mér einn mann, einn hauk í horni enn, sem ég ætla nú að kalla fram á vettvanginn til þess að svara hæstv. fjmrh. nú eins og hann svaraði hæstv. fjmrh. í fyrra, þegar hæstv. fjmrh. í fyrra bar fyrir sig að það væri ekki hægt að framkvæma þetta nema eftir gaumgæfilega athugun því að það væri svo mikið vandaverk. Það vill svo vei til að þessi varaliðsmaður minn í þessu máli er þriðji ráðh., hæstv. ráðh. Gunnar Thoroddsen. Hann svaraði í þingræðu á fundi í Nd. í fyrra f. h. hæstv. núv. fjmrh. gagnrýni þeirri sem hæstv. þáverandi fjmrh. hafði beint að honum fyrir þetta ákvæði. Í svari sínu við því, hvort hér sé um vandasamt mál að ræða, segir hæstv. núv. iðnrh. Gunnar Thoroddsen:

„Hér er um reginmisskilning að ræða … Nú er það þannig að í l. eru margs konar frádrættir heimilir, þeim hefur lengi verið beitt í skattal., t.d. sérstakur sjómannafrádráttur, frádráttur vegna hlífðarfata, frádráttur vegna fæðis, það hefur verið námsfrádráttur og frádráttur af alls konar félagslegum ástæðum, og hefur ekki, að ég ætla, komið svo mjög að sök að slík ákvæði væru í lögum. En þetta sérstaka ákvæði fordæmir hæstv. ráðh. svo að hann lýsir yfir sérstakri undrun á því að slíkir menn sem hv. 5. þm. Reykv.“ — þ.e.a.s. Gunnar sjálfur — „skuli bera fram slíka fásinnu.“

Ég ætla — með leyfi hæstv. forseta — enn að vitna í minn ágæta varaliðsmann, núv. hæstv. iðnrh. Gunnar Thoroddsen, þegar hann svaraði hæstv. fjmrh. í fyrra og nota hans svar til að svara hæstv. fjmrh. nú. Hann segir svo, þáv. hv. þm. Gunnar Thoroddsen: „Í ályktun um skattamál frá kjaramálaráðstefnu ASÍ 12. okt. 1973 segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Verkalýðsfélögin ítreka þá kröfu að nauðsynlegt sé að persónufrádráttur til skatts fyrir einstakling verði ekki lægri en 300 þús. kr.“ Síðan segir að auk þess fái verkafólk, er vinnur við fiskvinnslu, sérstakan skattfrádrátt ... Það, sem gert er í frv. okkar sjálfstæðismanna er því að við höfum tekið upp þessa einróma kröfu verkalýðssamtakanna á Íslandi um að verkafólk, sem vinnur við fiskvinnslu, fái sérstakan skattfrádrátt. Það er fróðlegt fyrir þá, sem að þessari kröfu hafa staðið, að heyra undirtektir hæstv. ríkisstj. um þetta mál.“

Og hæstv. ráðh. heldur áfram og segir:

„Það var vitanlegt að það skapar vissa erfiðleika að hafa undanþágur í skattalögum. En hjá því verður ekki komist ef menn vilja taka tillít til félagslegra ástæðna, til þeirra ástæðna að menn eru misjafnlega settir. Sumir þurfa á sérstökum skattfríðindum að halda vegna veikinda, vegna aldurs og vegna slysa, vegna náms eða af öðrum ástæðum. Þróunin í skattamálum hefur verið sú hjá okkur íslendingum að við höfum viðurkennt þessi félagslegu, þessi líknartillit meira og meira í okkar skattalögum. Og hvort sem okkur þykir ljúft eða leitt verður að horfast í augu við það að hér er í flestum tilvikum um mikið sanngirnismál að ræða.“

Nú vænti ég þess að sjálfsögðu að þessi ágæti núv. hæstv. ráðh., sem svo rösklega svaraði fyrir þá þm. Sjálfstfl. í fyrra, þegar þáv. fjmrh. fann ýmis vandkvæði á því að framkvæma hugmynd þeirra um að veita fólki við fiskvinnslustörf sérstakar undanþágur frá tekjuskatti, að hann komi nú að máli við núv. hæstv. fjmrh., lesi honum pistilinn síðan í fyrra, minni hann á að hann hafi verið fyrsti flm. í fyrra að frv., sem gekk í svipaða átt og þótti þá fyllilega tímabært og auðframkvæmanlegt, og kenni honum upp aftur það sem virðist vera að hæstv. fyrrv. fjmrh. hafi frá honum tekið.