14.12.1974
Neðri deild: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

91. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég nenni ekki að vera að leita í umr. frá fyrri tíma til þess að kynna mér það, sem núv. hæstv. ráðh. hafa áður sagt sem óbreyttir þm., eins og sagt er, í stjórnarandstöðu. Það á ekki við bara um þetta mál, því að það er engu líkara, ef lítið er yfir þessa hluti, heldur en það hafi átt sér stað alger heilaþvottur að því er varðar skoðanir frá því að vera stjórnarandstæðingar og til þess að vera stjórnarliðar, ég tala nú ekki um hæstv. ráðh. Þar væri hægt að draga fram mörg dæmi þess að menn segja sitt hvað í stjórnaraðstöðu og stjórnarandstöðu, og það á svo sannarlega við núv. hæstv. ráðh. í ríkisstj. En ég ætla ekki frekar að fara út í það.

Ég vakti máls á því hér fyrir nokkru þegar til umr. var frv. til l. um breyt. á tekjuskattslögunum, sem var þess efnis að auka skattfrádrátt til handa sjómönnum, þá vakti ég athygli á því að mér fyndist að ef ætti að taka upp aukinn skattfrádrátt til handa sjómönnum, þá teldi ég að það mætti ekki gerast án þess að það yrði skoðað líka í samhengi að því er varðaði það fólk sem tekur við fiskinum til vinnslu í frystihúsunum. Ég tel nefnilega að það hafi sýnt sig að svo slæmt sem hefur verið að manna bátaflotann til róðra, þá hefur líka og ekki síður verið ýmsum örðugleikum háð að manna frystihúsin til vinnslunnar. Ég held að það verði því, hvort sem mönnum þykir það ljúft eða leitt, að skoða þessa hluti í samhengi. Ég get tekið undir það hjá hæstv. núv. fjmrh., auðvitað eru ýmsir annmarkar á því að gera þessa hluti. En ég sé ekki annað en það séu nákvæmlega sömu annmarkarnir í þessum efnum, hvort sem hæstv. fjmrh. núv., fyrrv. eða hverjum sem væri yrði fengin slík heimild í reglugerð, heldur en að setja slíkt ákvæði beint inn í löggjöf. Ég held að það hljóti að vera að þarna sé um sömu annmarkana að ræða, hvort sem það á að vera í reglugerðarformi eða á að koma inn í lagafrv., þannig að það er ekkert atriði sem ég lít sérstaklega á. Ég viðurkenni hins vegar, að hér er ýmis vandamál við að glíma sem erfitt er að draga hreinar línur um. Þó held ég að flestir, sem hafa kynnt sér þessi mál, — ég tala nú ekki um þá sem hafa kynnst þeim í reynd, — hljóti að vera sammála um að sjómenn og það fólk sem vinnur í frystihúsunum að vinnslu aflans hljóti að vera númer eitt að því er þessa hluti varðar. — Það má vel vera að menn geti tínt til bifreiðastjóra sem aka fiski frá bátshlið til frystihúss. Menn geta líka tínt til vélgæslumenn í frystihúsum og annað slíkt. Þetta er auðvitað allt hægt að tina til. En það, sem er númer eitt að mínu áliti, eru sjómennirnir og það fólk sem vinnur við aflann í landi. Og hér held ég að sé hægt að draga nokkuð hreina línu, þó að, eins og ég sagði áðan, geti verið einhverjir annmarkar þar á. En þeir eru hinir sömu hvort sem það á að gerast í reglugerð settri af einum ráðh. eða setja það inn í löggjöf.

Það voru ekki eingöngu þeir núv. hæstv. fjmrh. og hæstv. sjútvrh. sem töluðu hér langt mál í stjórnarandstöðu á undanförnum þingum um sérstaka nauðsyn þess að létta þá gífurlegu skattbyrði, sem eins og þeir orðuðu það og færðust fullt í fang, þá gífurlegu skattbyrði, skattpíningu, sem þessir aðilar, þ.e.a.s. sjómenn í þessu tilfelli, verkafólk í landi hefðu orðið fyrir í tíð fyrrv. ríkisstj. Hafa ýmsir fleiri af þm. Sjálfstfl. komið hér upp í ræðustól á Alþ. og fjargviðrast yfir þessari skattpíningu af hálfu fyrrv. ríkisstj. og mætti eyða löngu máli í að tína þessar ræður til og gera grein fyrir þeim hér á Alþ. En ég ætla ekki að fara út í það að þessu sinni a.m.k. Það má vel vera að það gefist til þess tækifæri við frekari umr., ef af þeim skoðanaskiptum verður sem mér virðist hæstv. fjmrh. ætli sér að taka frá því að hann var hér fyrir rúmu ári að tala um þessa hluti, — ef það á í reynd að verða svo í framkvæmd að hann ætli ekki að taka tillit til þeirra hugsjóna, sem ég ætla að hafi verið hjá honum þegar hann var flm. að þessu frv. á s.l. þingi, — ef hann ætlar nú að snúast gegn sams konar breyt. að því er varðar skattalöggjöfina og hann var sjálfur að tala um. Allt þetta kemur í ljós og það skal a.m.k. af minni hálfu bíða betri tíma að tala um það mál, ef sú verður reyndin á að honum hefur snúist svo gersamlega hugur eins og mér fannst einhvern veginn að fram kæmi í hans ræðu hér áðan.

Hann lauk máli sínu á því að segja að hann hefði svo sannarlega ekki gleymt till., sem hann hefur flutt í þessum efnum. Ég er alveg með á að hann muni þær, en aðalspurningin er þessi: Ætlar hann að standa að því að þær nái fram að ganga þegar hann hefur til þess aðstöðu eins og nú er? — Það er aðalspurningin.

Ég skal ekki eyða frekari orðum að þessu, en ég taldi rétt við umr. um frv., að því er varðaði sjómenn og skattfrádrátt þeirra, að gera þá grein fyrir skoðun minni að því er varðaði fiskvinnslufólkið og ég ítreka það. Þess vegna er ég meðflm. að því frv., sem hér er til umr., að ég er þeirrar skoðunar að það verði líka að taka tillit til þessa fólks í þeirri stöðu sem þessi atvinnuvegur er nú í, vegna þess að það er a.m.k. í mörgum tilfellum mjög miklum erfiðleikum háð að fá fólk til að vinna að þessari frumframleiðslu.