14.12.1974
Neðri deild: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

91. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Það er stundum gaman að hlusta á umr. hér fyrir nýja menn, eins og ég sagði um daginn. En það er sérstaklega skemmtilegt að hlusta á það þegar þm. koma hér og tala um mál eins og þeir hafi uppgötvað þau, en það fannst mér á hv. 8. landsk. þm., Sighvati Björgvinssyni. Það er nú þannig með þetta mál sem hér liggur fyrir í formi frv. til laga, að fiskiðnaður í landinn hefur haft mikinn áhuga á þessu máli í áratugi og að sjálfsögðu verkalýðshreyfingin. En það er alveg rétt, sem kom fram hjá hæstv. fjmrh., að það eru fleiri en hann sem hafa sagt að það muni reynast töluvert erfitt að framkvæma það, sem hér um ræðir, og hann er ekki einn um þá skoðun.

Það var minnst áðan á, að þetta mál hefði verið til meðferðar á kjaramálaráðstefnu Alþýðusambands Íslands s.l. haust, og vitnað í ræðu núv. iðnrh., þar sem hann vísar í samþykkt þessarar ráðstefnu um sérstakan skattfrádrátt vegna eftir- og næturvinnu verkafólks í fiskiðnaði. Það vill svo til að á þessari kjaramálaráðstefnu, þar sem þetta mál var til meðferðar, voru mjög skiptar skoðanir um hvort Alþýðusambandið ætti að taka þetta upp sem baráttumál, og það furðulega skeði að margir af forustumönnum Verkamannasambandsins voru andvígir því að þessi stefna yrði upp tekin. Það gekk svo langt að andstaða við það náði jafnvel inn í raðir Alþfl.manna, að sú stefnumörkun yrði ákveðin á kjaramálaráðstefnunni. Þetta segi ég nú til þess að upplýsa hv. 8. landsk. þm., svo að hann viti betur hver staða hans kann að vera innan Alþfl. í þessu máli. Hins vegar kom fram mjög ákveðin skoðun hjá þeim meiri hl., sem myndaðist á þessari kjaramálaráðstefnu, að það ætti að berjast fyrir því að fá umræddan frádrátt á eftir- og næturvinnutekjum verkafólks í fiskiðnaði. Og það var á grundvelli þessarar samþykktar sem náðist fram með naumum meiri hl. á kjaramálaráðstefnunni haustið 1973; sem þetta mál var tekið upp hér á Alþ. af þeim sjálfstæðisþm. sem vitnað var til áðan. Ég segi það fyrir mitt leyti, að ég kann þeim þakkir fyrir hversu vel þeir tóku á málinu og hafa tekið það upp greinilega með þeim hætti að menn gera sér nú vonir um að eitthvað geti orðið af þessu óskamáli verkafólks í fiskiðnaði í nánustu framtíð. Ég hef verið eindreginn stuðningsmaður þessa, ekki af pólitískum ástæðum, heldur vegna þess að ég tel þetta mikið nauðsynjamál fyrir stöðu þess iðnaðar sem hér um ræðir, fiskiðnaðarins í landinu.

Það er rétt, sem segir í grg. með frv. því sem hér er til umr., að það fólk, sem vinnur í fiskiðnaði, vinnur við óhóflegt vinnuálag og störf þessa fólks hafa verið og eru enn illa launuð. Enda er svo komið að það eru helst gamalmenni og ungmenni sem fást til þess að vinna í fiskiðnaði landsmanna. Þess vegna er það ekkert álitamál að það verður að fara inn á þær brautir að það fólk, sem vinnur þessi störf, beri hlutfallslega meira úr býtum en það gerir í dag, miðað við aðrar stéttir. En það er ekki þar með sagt að sú leið þurfi endilega að vera sú eina, þó að ég sé fylgjandi því sem hér um ræðir, að skapa frádráttarheimildir vegna eftir- og næturvinnu. Ég tel eðlilegri leið og heilbrigðari að það fólk, sem vinnur í fiskiðnaði landsmanna, fái sambærilegan frádrátt gagnvart skatti og t.d. sjómenn hafa í dag. Það er mun heilbrigðara að gera ráð fyrir því að það sé líka um að ræða heildartekjur manna vegna dagvinnu ekki síður en eftir- og næturvinnu. Ég er einnig þeirrar skoðunar að það beri að draga línuna þannig í sambandi við slíkan frádrátt gagnvart fólki sem vinnur í fiskiðnaði, að það sé um að ræða fyrst og fremst það fólk sem fellur undir taxta hinna almennu verkamannafélaga. Þótt aðrar stéttir hafi nú verið dregnar inn í umr., er það svo að vosbúðin er mest við sjálfa vinnsluna, við móttöku fisks í vinnslusal og í tækjaklefum sérstaklega í frystihúsunum. Þess vegna held ég að það sé eðlilegra að Alþ. fjalli um þetta mál á sama og hliðstæðum grundvelli og á sér stað núna í sambandi við skattfrádrátt fyrir sjómenn. Hins vegar get ég tekið undir það hjá fjmrh., að eins og mál standa í dag, þá er alveg eins hægt að framkvæma það sem það frv., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir, í gegnum reglugerð eins og með sérstökum lögum. En ég vil undirstrika það að ég er fylgjandi því að fólk í fiskiðnaði fái umræddan skattfrádrátt. En ég vil ganga lengra. Ég vil að þetta fólk hafi sambærileg kjör gagnvart skatti eins og sjómenn hafa í dag.